Mannlíf

Konan passar upp á að hafa þetta  heimilislegt
Mánudagur 20. desember 2021 kl. 20:00

Konan passar upp á að hafa þetta heimilislegt

Knattspyrnumaðurinn Ísak Óli Ólafsson lék á láni með uppeldisfélagi sínu, Keflavík, í upphafi síðasta tímabils en var kallaður til Danmerkur fyrr en til stóð þar sem hann var seldur frá danska úrvalsdeilarliðinu SønderjyskE til Esbjerg sem leikur í dönsku 1. deildinni. Hann fær um mánuð í frí um jólin og er því á leiðinni heim næstu daga.

„Þetta er búið að vera upp og niður, allavega hefur þessi tími hjá Esbjerg verið svolítið sérstakur. Byrjaði á því að þjálfarinn var látinn fara en hann skildi eftir sig sviðna jörð og margir brenndir eftir hann. Leiðindanáungi sem var að niðurlægja menn og þess háttar, svo það hefur verið vinna fyrir klúbbinn að krafsa sig upp úr því,“ segir Ísak.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Hann var þarna þegar ég kom til liðsins en svo meiddist ég og á sama tíma var hann látinn fara og nýr tók við. Ég var frá í einn og hálfan mánuð en þegar ég kom til baka fór ég beint í liðið og ef ég er heill hef spilað síðan. Mjög gott að finna fyrir þessu trausti.

Auðvitað á Esbjerg ekkert að vera í áttunda sæti í fyrstu deildinni – þetta staðan eins og hún er núna en þetta er á réttri leið og menn eru stórhuga með framhaldið.“

Voru menn ekki frekar að horfa í að fara upp eftir þetta tímabil?

„Jú en það var frekar óraunhæft markmið hjá eigendunum að búast við því að fara upp miðað við að vera með 21 nýja leikmenn og enginn þeirra yfir 23 ára.“

En ef við snúum okkur að jólaundirbúningnum, ertu ekki búinn að öllu?

Ísak hlær við: „Jú, eiginlega. Ég tek restina á flugvellinum á leiðinni heim. Annars skreytir konan mín aðeins hjá okkur, hún passar upp á að hafa þetta heimilislegt þótt það sé bara í nokkra daga.“

Hvort ykkar sér um jólabaksturinn?

„Ég sé meira um að elda, hún er með baksturinn.“

Hverjar eru þína fyrstu jólaminningarnar?

„Ég og Sindri [Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga] erum úr sveitinni og ég man fyrst eftir því þegar við vorum saman bræðurnir að keyra fjórhjól og ég velti hjólinu mínu – það eru svona fyrstu minningarnar mínar frá jólum, ég held að ég hafi verið svona sex ára gamall.“

Hvaðan eruð þið úr sveit?

„Við erum sko frá Bíldudal en pabbi okkar bjó á Kjalarnesi, og býr þar enn.“

Sex ára að velta fjórhjóli?

„Já, maður mátti gera allt í sveitinni – ekki bara þetta.“

Eftirminnilegasta jólagjöfin, hver er hún þá eiginlega – haglabyssa?

„Nei, það var þetta einmitt fjórhjólið sem ég fékk þennan örlagaríka dag,“ segir Ísak og skellir upp úr. „Og ég velti því bara mínútum seinna – en ég meiddist ekkert. Ég var í brynju, með hjálm og allan búnað.“

Hvað verður á borðum á jólunum hjá ykkur?

„Ég held að það verði bara hamborgarhryggur, annars veit ég það ekki alveg. Stundum hafa verið rjúpur.“

Þar sem þú ert nú af þessu svæði, hafið þið þá ekkert verið að ganga til rjúpna?

„Jú, við feðgarnir höfum gert það. Eftir að ég fór út þá er rjúpnatímabilið alltaf búið þegar ég kem heim svo það hefur farið lítið fyrir því síðustu ár – en það er fátt skemmtilegra en að ganga til rjúpna.“

Hvað er svo framundan?

„Eins og staðan er núna er það bara að vera áfram hjá Esbjerg og fara með liðinu upp á næsta tímabili. Svo er aðaltakmarkið að festa sig betur í sessi í íslenska A-landsliðinu, ég var í hópnum síðast og vil halda mig þar. Það er stórt markmið hjá mér persónulega. Halda áfram að spila og komast lengra.“