Mannlíf

Kona á skjön í Bókasafni Reykjanesbæjar
Mánudagur 8. apríl 2019 kl. 10:40

Kona á skjön í Bókasafni Reykjanesbæjar

- ævi og störf Guðrúnar frá Lundi

Fimmtudaginn 11. apríl kl. 17 verður kaffiboð í Bókasafni Reykjanesbæjar í tengslum við opnun sýningarinnar Kona á skjön - ævi og störf Guðrúnar frá Lundi.
 
Gestir eru hvattir til þess að mæta með sparibollann sinn og taka þátt í skemmtilegum spurningaleik um verk Guðrúnar frá Lundi sem Kristín S. Einarsdóttir og Marín Guðrún Hrafnsdóttir langömmubarn Guðrúnar standa fyrir.  
 
Um sýninguna:
 
Rithöfundarferill Guðrúnar frá Lundi er sannkallað ævintýri í íslenskri bókmenntasögu. Óþekkt kona norðan úr Skagafirði verður metsöluhöfundur nánast á einni nóttu og bækurnar  tróna á toppi vinsældarlista í rúma tvo áratugi. Hún er orðin 59 ára þegar fyrsta skáldsagan kemur út, eftir það skrifar hún 27 bækur í 11 skáldverkum.
 
Þetta gerðist í heimi fjölda hindrana fyrir alþýðukonu sem þráði að skrifa skáldsögur. Bústörf og barnauppeldi stóðu í veginum og ritvöllurinn var að mestu karlanna. Hún var dáð af stórum hluta þjóðarinnar en raddsterkir áhrifamenn flokkuðu verk hennar með erlendum afþreyingarbókmenntum og reyfararusli.
 
Á sýningunni verða textaspjöld þar sem gestir geta fræðst um líf og störf Guðrúnar, einnig munu persónulegir munir Guðrúnar prýða sýninguna, s.s. svunta og blússa við peysuföt, brjóstnæla, sauðskinnsskór, biblía og bréf m.a. til útgefanda.
 
Sýningarhöfundar eru Kristín Sigurrós Einarsdóttir, leiðsögumaður og kennari, og Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar.
 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs