Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Kiddi blæs til sóknar með Baggalúti
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
laugardaginn 25. desember 2021 kl. 06:44

Kiddi blæs til sóknar með Baggalúti

Guðmundur Kristinn Jónsson, jafnan kallaður Kiddi, er hljóðfæraleikari í Hjálmum og Baggalút og hefur auk þess rekið hljóðverið Hljóðrita í Hafnarfirði undanfarin ár við góðan orðstýr þar sem hann býr núna ásamt fjölskyldu sinni.

Flókið ár fyrir tónlistarfólk

Public deli
Public deli

„Maður er búinn að vera að vona að eitthvað sé að fara að gerast, svo kemur alltaf eitthvað uppá tengt Covid sem breytir forsendunum. Við höfum nánast ekkert geta spilað síðasta eina og hálfa árið, hvorki Hjálmar né Baggalútur,“ segir Kiddi þegar hann er spurður hann út í hvernig árið hafi verið.

Kiddi hefur unnið náið með Ásgeiri Trausti, tekið upp lögin hans og farið með honum í tónleikaferðir víða um heiminn. „Við prófuðum að fara út til Ítalíu í sumar og vorum með fjögur gigg þar á hátíðum sem venjulega eru fyrir 5 þús manns. Nú voru einungis eitt þús manns vegna takmarkana, síðan eru allar ferðir á milli landamæra mjög flóknar þannig að tónleikaferðir erlendis eru erfiðar um þessar mundir.

Þetta hefur hins vegar verið mjög skemmtilegt studíó ár, ég tók upp nýja plötu með Ásgeiri Trausta og síðan kynnti Högni Egilsson fyrir mér efnilegan tónlistarmann, Árnýju Margréti, sem ég hef verið að vinna með og taka upp efni, búinn með litla plötu og langt komin með stóra plötu.“

Kiddi gerði plötusamning við Árnýju og samdi einnig við tvær bókunarskrifstofur sem koma til með að sjá um að bóka hana í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Þannig að árið hefur farið mikið í Árnýju Margréti og einnig að undirbúa Ásgeir Trausta þegar landamæri fara að opnast, þá verðum við tilbúnir með nýtt efni.“

Baggalútur stór hluti af tilverunni

Hljómsveitin Baggalútur er stór hluti af vinnunni hjá Kidda þó að hljómsveitin spili ekki mikið yfir allt árið þá er ávallt mikið að gera á seinni hluta ársins, þó ekki í fyrra þegar hætt var við alla jólatónleikana. Núna í ár er blásið til sóknar og uppselt er á 16 tónleika hjá hljómsveitinni í Háskólabíói.

„Það sem skiptir máli fyrir okkur í hljómsveitinni er að hafa gaman, þetta er svipaður kjarni sem hefur staðið í þessu í tíu ár. Við leggjum mikið upp úr því að hafa gaman baksviðs, tökum okkur ekkert of hátíðlega og leyfum okkur eins mikið rugl og við ráðum við. Þetta hefur síðan smitast til áhorfenda sem góð skemmtun,“ segir Kiddi þegar hann er spurður um galdurinn á bakvið aðsóknina á tónleikana þeirra.

Baggalútur hefur yfirleitt gefið út ný lög með haustinu sem vekja athygli. „Í ár fundum við ítalskt lag sem einhverra hluta vegna fór framhjá Björgvini Halldórssyni. Við fengum leyfi til að nota það og gáfum út okkar útgáfu – Styttist í það.“ segir Kiddi og kímir.

Eins og gefur að skilja þá er mikið annríki hjá Kidda þegar líður að jólum og fer fjölskyldan hans ekki varhluta af því. „Börnin mín þekkja ekkert annað en að ég sé að spila í Háskólabíói að spila á jólatónleikum og barnaafmæli hafa jafnvel verið haldin þar baksviðs, og börn okkar allra – við höfum leigt ísvél og spilakassa til að hafa fjör og að börnum okkar finnst gaman að koma og hanga með okkur.

Hópurinn sem er í Baggalút er samheldinn og gerði m.a. upp hús á Flateyri sem þeir sækja mikið í og deila jafnvel saman. „Börnin okkar þekkjast orðið mjög vel og hópurinn er þéttur.“

Margt í farvatninu á næsta ári en einnig háð heimsfaraldri

Framundan á nýju ári er plata frá Árnýju, Ásgeiri Trausta og jafnvel hjá Hjálmum. „Síðan vonast ég eftir því að geta farið að ferðast aðeins. Ég var orðinn vanur því að hluti af árinu fór í tónleikaferðalög og hluti af því í stúdióið sem ég kunni vel við.“

Kiddi hefur einnig gefið út þrjár barnaplötur og það gæti vel verið að sú fjórða komi út á næsta ári. „Það góða við barnaplötur er að það eru engar reglur, þú þarft ekki að vera töff, bara samkvæmur sjálfum þér.“

Von er á nýjum þáttum af Hljómskálanum í janúar sem voru unnir síðasta sumar. „Þetta er fyrsta serían sem ég klippi sjálfur og leikstýri. Þetta var mjög lærdómsríkt ferli að koma inn í svona marga fleti í sjónvarpsgerðinni og líka mjög skemmtilegt.

„Ég segi það mjög oft að ég ætli að gera rosa mikið en stundum gerist lítið, vinnan er bara þannig að stundum stendur sköpunin á sér og stundum flæðir allt út og heil plata fæðist á einum degi,“ sagði Kiddi að lokum.