Mannlíf

Kahnin gefur út tónlist um Keflavík
Sunnudagur 7. apríl 2019 kl. 14:00

Kahnin gefur út tónlist um Keflavík

-Guðmundur gróf upp gamla tónsmíð og úr varð EP-plata

Keflvíkingurinn Guðmundur Jens Guðmundsson er tónlistarmaðurinn Kahnin sem ólst upp í New York í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að hafa samið tónlist frá unga aldri var það ekki fyrr en árið 2017, sem hann ákvað að taka upp efnið sitt og gefa það út, eftir ráðleggingu frá vini. Útkoman varð fimm laga EP-plata, tekin upp sumarið 2018 af Arthur Pingrey í Brooklyn, New York. Fyrsta lagið af þeirri plötu, Wonderland, má nú finna á Spotify en það hefur fengið góðar viðtökur.

„Ég vildi bara taka þetta upp. Ég hef ekkert að gera. Dætur mínar vilja ekki tala við mig, þeim finnst ég hallærislegur,” segir Guðmundur kíminn en hann á tvær dætur og rekur sjávarútvegsfyrirtæki í Njarðvík. Hann segir tónlistina ávallt hafa verið áhugamál hjá sér og hefur samið tónlist í langan tíma. „Þetta hefur komið mis auðveldlega til mín. Ég næ oftast að semja kannski fimm til sjö lög á einu ári sem eru góð en svo gerist ekkert. Ég er reyndar kominn með tilbúið efni í nýja plötu og ætla að taka það upp líka,” segir hann.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kahnin ákvað að taka efnið sitt upp í heimaborginni sinni, New York, einungis fyrir sjálfan sig en endaði svo á því að skrifa undir samning hjá plötufyrirtæki úti. Lögin á plötunni falla undir „indie/americana” og „country-pop” tónlist en þau fjalla meðal annars um ást, von og lífsgönguna í heild sinni. „Síðasta lagið á plötunni er rólegt og er samið um þetta bæjarfélag. Ég samdi það þegar ég var á sjó fyrir þrjátíu árum síðan en kláraði það aldrei. Þá var hér togari sem hét Dagstjarnan. Lagið heitir Daystar og fjallar um „two towns next to nowhere, sem eru í raun og veru Keflavík og Njarðvík.”