Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Jólin byrja í messu á aðfangadag
Laugardagur 26. desember 2020 kl. 07:30

Jólin byrja í messu á aðfangadag

Ólöf Kristín Sveindóttir gerir mandarínumarmelaði en dæturnar og eiginmaður sjá um jólabaksturinn

Ólöf Kristín Sveindóttir heldur í ýmsar hefðir eins og að gera mandarínumarmelaði en breytir til með mat á aðfangadag. Nú eru samningar í gangi í fjölskyldunni um það. Jólahátíðin byrjar hjá henni þegar hún fer í messu á aðfangadag klukkan 18.

– Hvernig hafa jólagjafakaup gengið?

„Er bara búin að kaupa eina gjöf og hún var keypt á netinu. Er búin að skoða aðeins og hugsa um hvað ég vil kaupa. Markmiðið er að kaupa allar gjafir á Íslandi og þá helst íslenskar gjafir. Enda þurfum við á því að halda að styrkja hvert annað.“

– Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?

„Við byrjuðum ekki að setja upp jólaseríur fyrr en fyrsta sunnudag í aðventu. Þá settum við upp útiljósin og í gluggana. Aðventukransinn fór á sinn stað og túlipanar í vasa.

Við setjum jólin svo hægt og rólega upp fram að jólum og viku fyrir jól fer tréið upp en við erum oftast með lifandi furu frá skógræktinni. Svo er bara að kvekja á nógu mörgum kertum og njóta.“

– Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst?

„Hef nánast lagt niður þann góða sið, var mjög dugleg árum áður en ég er svo heppin að stelpurnar mínar og maðurinn minn hafa tekið við að mestu þannig ég fæ að njóta. Ég kaupa nokkuð mikið af mandarínum í desember og bý til mandarínumarmelaði, það er mitt framlag.“

– Hvernig sérðu desember fyrir þér í jólastemmningu í ljósi Covid-19?

„Ég sé fyrir mér rólegri aðventu við kertaljós, líklega verður ekki eins mikil dagskrá enda margar hefðir eins og vina- og fjölskylduhittingar, tónleikar og leikhús sem falla upp fyrir vegna covid-19 – en ég vona innilega að staðan verði þannig að nánast stórfjölskyldan geti hist og átt góðar stundir. Ég er virkilega farin að sakna samskipta við margra.“

– Eru fastar jólahefðir hjá þér?

„Mamma og pabbi hafa boðið okkur systrum og fjölskyldum í hangikjöt á aðventunni. Síðan er bakað piparkökuhús með barnabarninu og málaðar piparkökur. Við höfum alla tíð verið með möndlugraut í hádeginu á aðfangadag og hefur möndlugjöfin verið spil eða púsl sem fjölskyldan hefur notað til að skemmt sér saman og að stytta sér stundirnar fram að jólahaldinu. Eins höfum við hjónin farið yfir helgi í aðventuferð erlendis eða til Reykjavíkur. Farið á eina til tvenna tónleika og oft eru jólaskemmtun með vinnunni og vinkonuhittingur.“

– Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir?

„Ég er ekki ein af þeim sem man mikið heilu atburðina frá æsku. Á samt margar litlar minningar sem ylja, eins og jólaskreytingar og smákökur hjá ömmum mínum, ganga í kringum jólatréð heima hjá gamalli frænku, súkkulaðibolla með þeyttum rjóma á jóladagsmorgun, möndlugrautinn og möndlugjöfin, flottu jólafötin sem mamma saumaði á mig.“

– Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

„Við reynum alltaf að fara í messu klukkan 18 á aðfangadag. Fyrir mig er það upphafið á jólahátíðinni en ég ólst upp við að fjölskyldan mín fór oftast í messu á nýársdag.“

– Eftirminnilegasta jólagjöfin?

„Hugsa að það séu skíði sem ég fékk þegar ég var átta ára. Man enn eftir hvað ég varð glöð þegar ég sá hvað var í pakkanum.“

– Er eitthvað sérstakt sem þig langar í jólagjöf?

„Eins og staðan er núna er mín ósk að fjölskyldunni takist að hittast sem flest. Kósýsokkar og góð bók er líka alltaf góð gjöf.“

– Hvað verður í matinn hjá þér á aðfangadagskvöld?

„Við höfum ekki verið mjög vanaföst um jólin en síðastliðin ár hefur humar verið eldaður á ýmsan máta í forrétt. Andabringur með súrsætri í hindberjasósu í aðalrétt og svo er Toblerone-ís í eftirrétt. Þessa dagana er fjölskyldan að ræða og semja um breytingar á matseðli. Ég er mjög spennt að sjá hvað verður í matinn.“