Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Mannlíf

Iðnmenntun kemur þér fyrr út á vinnumarkaðinn
Gunnar Valdimarsson kennari.
Laugardagur 13. apríl 2019 kl. 07:00

Iðnmenntun kemur þér fyrr út á vinnumarkaðinn

Iðnnám á sér langa sögu á Suðurnesjum. Frá öndverðu var það eitt af aðalmarkmiðum Iðnaðarmannafélags Suðurnesja að efla menningu og menntun iðnaðarmanna á félagssvæðinu. Það var metnaður í mönnum. Félagið beitti sér fyrir stofnun iðnskóla fyrir Suðurnesin í Keflavík árið 1935 með sjö nemendur í námi. Kennsla fór fram í barnaskólanum við Skólaveg fyrst um sinn. Strax næsta vetur hafði nemendum fjölgað um helming. Guðni Magnússon, Skúli H. Skúlason og Bergsteinn Sigurðsson voru driffjöðrin í stofnun skólans en Ragnar Guðleifsson ásamt Skúla H. Skúlasyni voru fyrstu kennarar.

Skólastarfið var slitrótt fyrstu árin en frá árinu 1943 starfaði Iðnskólinn óslitið þar til Fjölbrautaskóli Suðurnesja var stofnaður árið 1976. Iðnskólinn varð einn helsti þáttur í þeirri stofnun, enda var hið nýja húsnæði hans þá lagt undir Fjölbrautaskólann og iðnnámið eftir það ein af námsbrautum hans.

Húsasmíðanám þjálfar marga þætti í þér
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Í dag er iðnnám ein af grunnstoðum Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Við litum inn í húsasmíðadeild skólans en á þessari önn stunda 34 nemendur þar námið, þar af þrjár stúlkur, sem eru óvenju margt.

Aðeins ein stúlka hefur útskrifast sem húsasmiður frá FS á þeim nítján árum sem Gunnar Valdimarsson, húsasmíðameistari, hefur kennt við skólann. Við fórum í heimsókn á húsasmíðabrautina í FS.

„Húsasmíðadeild er ein af grunnstoðum Fjölbrautaskólans og ef Iðnskólinn hefði ekki verið til hér áður í Keflavík þá tel ég ólíklegt að FS hefði orðið að veruleika. Á þeim tíma sem Fjölbrautaskólinn var stofnaður fór stór hluti ungs fólks í iðnnám. Með tilkomu annarra námsbrauta í nýstofnuðum FS fjölgaði til muna þeim sem fóru aðrar námsleiðir, þær sem leiddu til stúdentsprófs. Þá var stúdentspróf mun meira metið en það er í dag,“ segir Gunnar kennari við húsasmíðadeild FS. Hann heldur áfram og bendir á mismuninn á þessu tvennu.

„Svo klára þeir hjá okkur
í bili, fara út á vinnumarkaðinn
og koma aftur til
okkar sem breyttir menn."

„Þú færð ekkert starf í dag út á stúdentspróf, ja ekki nema í flugstöðinni kannski af því að þú kannt ensku. Stúdentspróf veitir þér engan sérstakan aðgang að atvinnumöguleikum, þetta er í raun bara fyrsti áfangi í að læra meira. Þú færð aðgang að háskólanámi með stúdentspróf. En eftir iðnnám, sem tekur svipaðan tíma og stúdentspróf eða skemur, þá ertu strax kominn með lokaskírteini og atvinnuréttindi upp á vasann sem getur opnað þér margar dyr hér heima og einnig erlendis. Iðnnám geturðu klárað á fjórum árum, jafnvel skemur ef vel gengur. Á tveimur og hálfu ári ertu kominn út í atvinnulífið sem húsasmiður. Nemendur í húsasmíði eru hér í FS fyrstu tvö árin og fara svo út að vinna við iðngreinina í eitt og hálft ár en þá koma þeir inn aftur til okkar og klára námið. Við sjáum ótrúlegar breytingar á nemendum eftir þennan tíma. Nemendur sem byrjuðu sextán ára eru, eins og gefur að skilja, ekki alltaf tilbúnir að læra og maður þarf oft að ýta á eftir þeim til að gera þetta og hitt. Það er bara í eðli þessa aldurs, þetta eru bara unglingar. Svo klára þeir hjá okkur í bili, fara út á vinnumarkaðinn og koma aftur til okkar sem breyttir menn. Það er gaman að sjá hversu vel þeir þroskast á meðan þeir eru úti að vinna við fagið. Við fáum gjörbreytta nemendur inn sem ganga beint til verks og er gaman að vinna með. Maður getur ekki ætlast til þess að sextán ára unglingur sé tilbúinn að vinna af sjálfsdáðum því þeir hafa enga reynslu. Þeir þurfa stundum að hlaupa hornin af sér,“ segir Gunnar sposkur enda sjálfsagt mikill mannþekkjari þegar kemur að nemendum.

Iðnmenntun og stúdentspróf
„Nemendur okkar hafa einnig verið að taka stúdentspróf meðfram iðnnáminu og það er stórsniðugt. Ef þau vilja fara í annað nám seinna er gott að hafa stúdentspróf upp á vasann. Einn nemandi útskrifaðist til dæmis frá okkur og lauk síðar námi í arkitektúr, þessar greinar fara vel saman. Þeir sem vilja fara í byggingartæknifræði seinna eiga þann möguleika einnig sem hafa lokið námi í húsasmíði og eru með stúdentspróf,“ segir Gunnar.

„Ein stelpa hefur útskrifast
frá okkur sem húsasmiður,
það var fyrir tíu árum."

Stelpurnar standa sig vel í húsasmíði
„Nú eru þrjár stelpur hjá okkur í námi í húsasmíði og mér finnst það alveg frábært. Það er virkilega gaman að hafa stelpurnar einnig með okkur. Hér voru yfirleitt strákar en þetta er eitthvað að breytast. Ein stelpa hefur útskrifast frá okkur sem húsasmiður, það var fyrir tíu árum. Núna höfum við eina sem er að klára um næstu jól með sveinspróf og stúdentspróf. Stelpurnar eru alveg með þetta eins og strákarnir. Vinna við smíðar er mun léttara í dag líkamlega en hún var fyrir tuttugu árum. Það hefur orðið svo mikil þróun í byggingarframkvæmdum til dæmis með tilkomu véla, byggingarkrana og svona. Það er alltaf verið að leita að léttari leiðum fyrir smiðina svo þeir endist lengur í starfi. Þetta er líkamlegt starf og þú þarft að passa skrokkinn á þér en til þess höfum við allskonar tæki. Þú mátt ekki ofgera þér líkamlega í þessu starfi frekar en öðru iðnaðarstarfi,“ segir Gunnar með áherslu.

Sumarhúsið sem nemendur smíða.

Nemendur læra að byggja hús
„Þegar þú byrjar í þessu námi þá lærirðu fyrst grundvallarhandbrögðin. Þú lærir á vélarnar eins og á hefðbundnu trésmíðaverkstæði. Þú færð alvöru verkefni til þess að vinna með sem leiða þig áfram. Þegar nemendur eru komnir lengra þá byggja þeir sumarhús sem er staðsett hérna fyrir utan skólastofuna okkar. Þar sameinast verðandi trésmiðir og rafvirkjar og vinna húsið í sameiningu. Við höfum smíðað sextám svona hús á undanförnum árum. Svo tekur Ríkiskaup við þeim og selur þau. Þetta eru flott sumarhús sem eru vel smíðuð og unnin af alúð nemenda okkar í FS.“ segir Gunnar að lokum og hvetur fleiri stelpur til að kynna sér námið í húsasmíði og sækja um á komandi hausti.

marta@vf.is

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs