Nettó
Nettó

Mannlíf

Hvítt rusl - Svört kómedía
Fimmtudagur 19. mars 2015 kl. 16:24

Hvítt rusl - Svört kómedía

– Leikfélag Keflavíkur sýnir Killer Joe í Frumleikhúsinu

Við höfum öll heyrt um svokallað hvítt rusl, fólk sem býr í hjólhýsahverfum í Bandaríkjunum. Leikfélag Keflavíkur gerir lífinu hjá undirmálsfólki í einu hjólhýsi í Texas skil í nýjustu uppfærslu sinni, Killer Joe. Verkið var frumsýnt föstudaginn þrettánda í Frumleikhúsinu í Keflavík. Það var þýtt fyrir fáeinum árum og sýnt m.a. í Borgarleikhúsinu og uppfærslan tilnefnd til fjölda Grímuverðlauna.

Leikverkið segir frá lífi Smith-fjölskyldunnar og gerist allt í hjólhýsinu á nokkrum dögum. Eins og fyrr segir gæti fjölskyldan flokkast sem „hvítt rusl“. Hún er sérkennileg í meira lagi. Þegar sonurinn á heimilinu, Chris Smith (Jón Bjarni Ísaksson), er búinn að koma sér í veruleg vandræði í heimi fíkniefna og vantar nokkur þúsund dollara til að koma sér út úr vandanum, eru góð ráð dýr. Hann fær þó föður sinn, Ansel Smith (Gustav Helga Haraldsson), til að fallast á að koma fyrrum eiginkonu Ansel og móður sinni fyrir kattarnef. Með þeim ráðahag ætla þeir feðgar að komast yfir 50.000 dollara líftryggingu. Dottie Smith (Jenný Jónsdóttir) er systirin og heimasætan í hjólhýsinu. Þar sem veggir hjólhýsis eru ekki þykkir þá heyrir hún af ráðabrugginu og samþykkir, því hún er meira til í að fá nokkur þúsund dollara en að sitja uppi með fráskilda móður til framtíðar. Núverandi kona Ansel, Sharla Smith (Sólrún Steinarsdóttir), blandast svo inn í söguna og mun flækja málið á síðari stigum.

Til að koma fyrrum eiginkonunni fyrir kattarnef þarf að ráða leigumorðingja í verkið. Þar kemur Joe Cooper (Rúnar Þór Sigurbjörnsson) til sögunnar. Hann er lögreglumaður sem tekur að sér leigumorð í aukavinnu. Hann tekur að sér verkefnið en þar sem þeir feðgar, Ansel og Cris, geta ekki lagt fram 25.000 dollara fyrirframgreiðslu fyrir leigumorðið, þá tekur Joe heimasætuna Dottie sem tryggingu. Fyrr en varir er Joe fluttur inn á fjölskylduna og með hana undir hælnum, sængandi hjá heimasætunni, angrandi feðgana og búinn að komast að ýmsu misjöfnu um húsmóðurina í hjólhýsinu.

Leikverkið Killer Joe er kolsvört kómedía og á sama tíma alls ekki við hæfi barna. Á frumsýningunni sprakk salurinn ítrekað úr hlátri og hafa áhorfendur örugglega oft séð eitthvað sem þeir geta tengt við sjálfan sig eða fólk sínu lífi.

Ekki er ætlunin að rekja söguþráðinn í sýningunni hér. Leikfélag Keflavíkur á hrós skilið fyrir uppfærsluna. Killer Joe er alveg stórgott verk. Þau fimm sem standa á sviði eru öll sannfærandi í sínum hlutverkum. Fjórir af leikurunum eru reynsluboltar af sviði hjá Leikfélagi Keflavíkur en Rúnar Þór Sigurbjörnsson kemur nýr á svið en er sannfærandi í hlutverki leigumorðingjans. Jón Bjarni túlkar ræfilinn Chris einstaklega vel, sérstaklega þegar hann kemur alblóðugur, bólginn og brotinn, á svið eftir útistöður við rukkara úr undirheimum. Jenný Jónsdóttir kemst vel frá hlutverki heimasætunnar. Gustav Helgi fór með hlutverk húsbóndans, Ansels, og uppskar oft hlátur áhorfenda fyrir einfeldni sína. Þá fundu áhorfendur örugglega til með Sólrúnu Steinarsdóttur í hlutverki Shörlu Smith, sem mátti þola ofbeldi og niðurlægingu. Stórgóður leikur hjá öllum og leikstjóranum, Davíð Guðbrandssyni, tekst vel upp í sínu fyrsta verki sem leikstjóri. Þá er umgjörð sýningarinnar flott, leikmyndin vel heppnuð og tónlistin færir áhorfandann nálægt lífinu í hjólhýsahverfinu í Texas.

Takk fyrir flotta sýningu Leikfélag Keflavíkur. Splæsum fjórum stjörnum á Killer Joe.

Hilmar Bragi BárðarsonLjósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs