Mannlíf

Hringleikur ferðast um Reykjanes
Miðvikudagur 16. júní 2021 kl. 17:29

Hringleikur ferðast um Reykjanes

Boðið er upp á sirkusnámskeið í Reykjanesbæ og Grindavík í samstarfi við sveitarfélögin

Sirkushópurinn Hringleikur leggur nú land undir fót og sýnir Allra veðra von utandyra um allt land í sumar. Sýningin var sýnd í Tjarnarbíói í vor og hlaut góðar viðtökur áhorfenda á öllum aldri. Allra veðra von hlaut á dögunum Grímuverðlaunin fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins 2021. 

Sýningin er unnin í samstarfi við leikhópinn Miðnætti sem sér um leikstjórn, tónlist, búninga og leikmynd. Miðnætti hefur meðal annars gefið okkur sögurnar um tröllastrákinn Þorra og álfastelpuna Þuru. Sýningarferðin um Reykjanes er styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja og unnin í samstarfi við Reykjanesbæ, Grindavíkurbæ og Sveitarfélagið Voga.
Allra veðra von er nýsirkussýning þar sem sirkuslistin er notuð til að skoða tengsl mannsins við veðrið. Tungumál sirkuslistarinnar er myndrænt og hrífandi form sem nær til áhorfanda á breiðum aldri, gjarnan óháð tungumáli. Akróbatík, áhætta, grín og glens, ljóðrænar myndir og loftfimleikar flétta saman sögur af mönnum og veðri. 
Sirkusstarf á Íslandi hefur verið i mikilli þróun undanfarin ár, með vaxandi hópi atvinnusirkuslistafólks á landinu. „Við viljum gera sirkuslistir að hluta af menningarflóru allra landsmanna, og auk þess kynna fjölbreytni sirkuslista fyrir Íslendingum, en það kemur mörgum á óvart hvernig nýta má sirkus sem sviðslista- og tómstundagrein. Ekki síst viljum við sýna börnum og ungmennum að það er hægt að vinna sem sirkuslistafólk á Íslandi. Sirkuslistaformið er fjölbreytt og reynir á samhæfingu, samvinnu og sköpun,“ segir Eyrún Ævarsdóttir, einn af höfundum og leikendum Allra veðra von.

Gera má ráð fyrir að hið íslenska ófyrirsjáanlega veðurfar hafi töluverð áhrif á framgang sýningarinnar. “Við erum spennt að koma með sýninguna á Reykjanes, þar sem kvikan spýtist upp úr jörðinni og kallast á við sandinn og hafið. Við fórum í vettvangsferð í Stóru Sandvík um daginn og fundum vel fyrir kröftum náttúrunnar á landi og hafi. Stóra spurningin er hvernig veðrið leikur við okkur þar!” segir Eyrún en lagt er upp með að sýna í—svo gott sem—hvaða veðri sem er.

ALLRA VEÐRA VON
20. júní - Náttúrusýning í Stóru-Sandvík í boði Sóknaráætlunar Suðurnesja

22. júní - Vogar

6. júlí - Reykjanesbær
Miðasala og nánari upplýsingar á tix.is 


SIRKUSNÁMSKEIÐ HRINGLEIKS
Boðið er upp á sirkusnámskeið í Reykjanesbæ og Grindavík í samstarfi við sveitarfélögin tvö. Skráning og nánari upplýsingar á tix.is
22. - 23. júní í Reykjanesbæ og Grindavík

Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með Hringleik á Facebook og Instagram sem er helsta upplýsingaveitan um sirkusferðalagið.