Nettó
Nettó

Mannlíf

Hreyfing skapar vellíðan
Laugardagur 6. október 2018 kl. 06:00

Hreyfing skapar vellíðan

Hvað er svona gott við hreyfingu, sund og líkamsrækt?

Við sjáum það alltaf betur og betur hvað regluleg hreyfing gerir líkamanum gott. Sumir vilja stunda gönguferðir eða skokka utandyra, hressast af því og koma sér í form þannig, á meðan aðrir vilja fara inn á líkamsræktarstöð og æfa þar með því að lyfta lóðum eða mæta í hópatíma. Alls konar námskeið eru í boði. Það getur samt verið erfitt að hífa sig upp úr sófanum, slökkva á sjónvarpinu eða tölvunni og hætta að borða snakk í tíma og ótíma. En þeir sem byrja að æfa og halda það út í nokkur skipti, finna fljótt miklar breytingar í andlegri og líkamlegri vellíðan. Það fyrsta sem fólk talar um er að því líði betur andlega um leið og líkaminn fer að styrkjast. Þeir sem taka þetta alla leið og breyta einnig um mataræði, td. auka ferska grænmetisneyslu, fá einnig meiri orku úr matnum sem þeir borða. Líkaminn er fljótur að verðlauna þá sem byrja í reglulegri þjálfun en fyrst er að mana sig upp, ákveða hvað hentar manni og fara af stað. Gleðin vex og ánægjan tekur yfir. Fólk sem æfir er yfirleitt miklu jákvæðara því það fær þessa ákveðnu útrás sem líkaminn þarf.

Í tilefni heilsu- og forvarnaviku fórum við og hittum fólk sem er að hreyfa sig reglulega. Okkur lék forvitni á að vita hvernig það æfði og hvers vegna, hvort fólk spáði eitthvað í mataræði og fleira. Það var gaman að sjá hversu margir voru að byggja sig upp hingað og þangað um Reykjanesbæ.

Jón Ingi Þorgeirsson, 21 árs matreiðslumaður og vaktstjóri á Slippbarnum Reykjavík:

Líður betur þegar ég hreyfi mig

„Ég æfi sjálfur í tækjum tvisvar til þrisvar í viku. Mér líður betur þegar ég hreyfi mig og ég vil vera í góðu formi. Ef ég mæti ekki í ræktina þá finn ég það fljótt, mér finnst ég vera þreyttari og sljórri. Það er mikilvægt einnig að spá í mataræðið en ég vil vera sykurlaus og sleppa hvítu hveiti. Hrein fæða er best finnst mér, náttúruleg fæða sem maður eldar frá grunni. Þetta er lífsstíll en ekki eitthvað tímabundið og gefur þannig árangur.“Monika Maria Bajda, 35 ára öryrki:


Dóttirin passar upp á okkur

„Ég kem hingað í Sporthúsið fimm sinnum í viku til að byggja mig upp og vinna í sjálfri mér. Ég blanda saman tækjum og þolþjálfun þrisvar í viku. Mér líður betur en þetta hefur líka góð áhrif á hugann í leiðinni. Ég kem hingað með dóttur minni henni Alexöndru sem er búin að hjálpa mér mikið því hún hvetur mig áfram. Hún finnur æfingarnar og passar upp á okkur, að við séum að bæta okkur. Þetta er samverustundin okkar saman því ég á tvö yngri börn sem þurfa líka athygli en hérna erum við tvær í friði að æfa. Ég borða mikið ferskt grænmeti og spái í að borða hollan mat og elda heima frá grunni.“

Alexandra María Traustadóttir, 14 ára grunnskólanemi:

Les mikið um góða heilsu

„Ég æfi með mömmu eftir skólann en svo er ég einnig nokkrum sinnum í viku í leikfimi og sundi í skólanum. Ég hef mikinn áhuga á heilsu og því sem er gott fyrir líkamann. Við skoðum E-efnin í matnum úti í búð og forðumst svoleiðis mat en viljum náttúrulegan mat. Ég les mikið varðandi góða heilsu og vil nærast rétt og vel. Mér finnst gott að við æfum saman, það er svo hvetjandi fyrir mig líka að hjálpa mömmu að koma sér í form.“
 Vignir Gunnarsson, 26 ára atvinnuflugmannsnemi hjá Keili:

Það þarf viljastyrk til að byrja að æfa

„Ég verð að fá útrás eftir allan lesturinn í náminu mínu. Mér finnst ég ferskari eftir hreyfinguna og stressið hverfur en ég kem hingað í Sporthúsið sex til sjö sinnum í viku og er í eina klukkustund eða lengur. Þetta tappar af manni spennunni í náminu og eykur orkuna og úthaldið í líkamanum. Mér líður svo vel eftir æfingarnar. Eftir að ég tók mig á þá er þetta orðið að lífsstíl. Að vera í formi er lengsta maraþon sem til er. Þetta er búið að taka mig fjögur ár en ég byrjaði að æfa þegar ég var orðinn 110 kg, þá fékk ég nóg og vaknaði. Ég var áður afreksmaður í frjálsum íþróttum en svo slasaðist ég og fór í aðgerð sem misheppnaðist og þá hófst vítahringurinn með að borða of mikið og hreyfa sig ekkert. Það er að byrja aftur að hreyfa sig, koma sér upp rútínu, mæta í ræktina og gefast ekki upp. Halda áfram. Ég borða ekki sykur lengur nema ég fæ mér eitt súkkulaði á laugardögum og ostapopp. Ég forðast hvítt hveiti, þar með talið pítsur, og elda allan mat frá grunni. Ég borða fisk, kjöt, kjúkling og grænmeti. Það þarf viljastyrk til að byrja að æfa en þegar maður finnur hvað manni líður miklu betur eftir á, þá er það þess virði.“
Íris Kristjánsdóttir, 54 ára hjúkrunarfræðingur:

Fullorðið fólk finnur mikinn mun á sér þegar það byrjar að æfa

„Ég æfi í tækjum þrisvar til fjórum sinnum í viku. Það hentar mér að koma ein og þegar mér hentar því ég er í vaktavinnu og núna var ég t.d. að koma af næturvakt og þá er hressandi að mæta í ræktina. Það var erfitt að byrja fyrst en svo þegar þú finnur hvað þér líður miklu betur er léttara að halda áfram en hætta. Ég sef betur og mér líður betur í skrokknum. Ég borða venjulegan heimilismat en ég mætti borða meira ferskt grænmeti. Sumum þætti það kannski nóg sem ég borða af því en ég er jú í heilsugeiranum og veit að grænmeti er gott fyrir okkur. Hreyfing bætir lífsgæði og fullorðið fólk finnur mikinn mun á sér þegar það byrjar að æfa.“Björn Sveinsson, 65 ára fyrrum lögregluþjónn og rannsóknarlögreglumaður:

Slaka ég á í heitu pottunum og hitti gott fólk

„Ég kem í sund þrisvar til fjórum sinnum í viku eða annan hvern dag. Hérna slaka ég á í heitu pottunum og hitti gott fólk sem langar að spjalla um dægurmálin. Svo koma hingað fallegar konur og bara fullt af almennilegu fólki. Það er mjög hressandi að fara í sund. Laugin í Keflavík er flott og ég mæti í alls konar veðri. Bara yndislegt. Á sumrin spila ég golf fyrst og fremst en gerði lítið af því hér fyrir sunnan í sumar en reyndi að elta sólina út á landi til að spila golf. Ja, hvað ég borða? Ég hef nú átt tvær yndislegar konur sem elduðu góðan mat og höfðu mig í bómul en núna bý ég einn og hræri bara einhverju saman í pott, ekki svo nauið. Stundum býð ég sjálfum mér út að borða.“Gunnhildur Þórðardóttir, 39 ára kennari og myndlistarmaður:

Vinn úr hugsunum mínum á meðan ég syndi

„Ég kem mjög oft hingað í sundlaugina með gríslingana mína fjóra. Sjálf syndi ég fjórum sinnum í viku á meðan þau eru í skólanum. Það er ákveðin þerapía að koma í sund og ég vinn úr hugsunum mínum á meðan ég syndi. Svo er alltaf gaman að vera í góðum félagsskap hérna og slaka á í heitu pottunum. Ég hjóla einnig allt sem ég get, meira að segja í Bónus og Nettó til að versla í matinn. Við bjuggum í Bretlandi áður og þar byrjaði ég að hjóla. Líkamsrækt úti í fersku lofti er það sem hentar mér. Við förum einnig í göngur fjölskyldan, ég og maðurinn minn með börnin okkar fjögur, en þá er farið á fjöllin hér í kring td. Keili, Þorbjörn og fleiri fjöll. Ég borða allan mat en í hófi og hef þá reglu að borða fimm í allt á dag af einhverju úr ávaxta- og grænmetisflokknum.“


Snorri Steinar Skúlason, 70 ára fyrrum starfsmaður hjá eldsneytisafgreiðslu EAK Leifsstöð:

Maður yngist af þessari hreyfingu

„Ég er í Janusarverkefninu og geng rösklega á hverjum degi í þrjátíu mínútur eða lengur og fer svo í Massa í íþróttahúsinu Njarðvík tvisvar í viku. Þar geng ég á bretti og lyfti lóðum, geri teygjur og svona. Það er komið rúmt ár síðan ég byrjaði í þessu verkefni á vegum Reykjanesbæjar og þetta hefur gert mér mjög gott. Maður yngist af þessari hreyfingu. Ég er allur að styrkjast og eflast. Þetta er búið að vera gaman en ég er hjá Janusi íþróttaþjálfara sem mælir árangur minn og stundum er heilsufarsskoðun. Maður borðar hollan mat og meira grænmeti. Ég finn mikinn mun. Maður er léttari í lund og hittir fleira fólk sem er að hreyfa sig. Það eru svo margir að mæta en á mánudagsmorgnum hittast allir í Reykjaneshöll og þar er einnig gengið en svo förum við sjálf út að ganga á daginn. Þá mæli ég mig til gamans í gegnum símann minn. Í dag er ég t.d. búinn að ganga sjö kílómetra á einni klukkustund. Í febrúar þegar veðrið var nú ekkert til að hrópa húrra fyrir þá gekk ég þann mánuðinn 160 km á fótboltavellinum!“


 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs