Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Hrekkjavaka og ungmennahús í Grindavík
Ungmenni úr Grunnskóla Grindavíkur við undirbúning hrekkjavöku. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 7. nóvember 2020 kl. 06:40

Hrekkjavaka og ungmennahús í Grindavík

Fjölbreytt félagsstarf í Grunnskóla Grindavíkur

Nemendur í Grunnskóla Grindavíkur tóku Hrekkjavöku með stæl og settu upp draugahús í Kvikunni. Nemendaráð vann undirbúningsvinnu og síðan var fleiri bekkjardeildum boðið, bæði á ball og í draugahúsið. „Þetta er toppurinn á árinu og gaman að halda þetta núna í Kvikunni, innan um fljúgandi máva og gamla saltfiska,“ sögðu þau Tómas Breki Bjarnason og Emilía Ósk Jóhannesdóttir í nemendaráði Grunnskóla Grindavíkur en þau sýndu Víkurfréttamönnum draugahúsið. Suðurnesjamagasín spjallaði við þau og myndaði draugahúsið. Þau Tómas og Emilía sögðu félagsstarfið í skólanum vera mjög gott og það hafi gengið mjög vel á veirutímum.

Opnun ungmennahúss Grindavíkurbæjar

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það hefur verið ákveðið að fara af stað með opnun ungmennahúss í Grindavíkurbæ sem verður fyrir ungt fólk frá 16 aldri til 25 ára. Ungmennahúsið mun bera gamla heitið „Laufin og spaðarnir“ sem fyrrum Ungmennahús Grindavíkur bar áður. Gamla Ungmennahúsið var stofnað í desember 1997 af Hrafnhildi Björgvinsdóttur, en sonur hennar Hafliði Ottósson féll frá fyrir eigin hendi í desember árið 1996, þá aðeins 18 ára gamall. Ungmennahúsið var opnað í anda þess að búa til félagslegan vettvang án vímuefna fyrir ungt fólk eða „gleymda hópinn“.

Elínborg Ingvarsdóttir forstöðumaður Þrumunnar og starfsmenn hennar halda utan um starfsemina. Þar mun standa ungmennum til boða fjölbreytt starf í vímulausu og öruggu umhverfi. Starfsemin mun til að byrja með fara fram á fimmtudagskvöldum frá klukkan 20:00 til 22:00 og mun nýta aðstöðu félagsmiðstöðvarinnar Þrumunnar. „Markmiðið er að bjóða ungu fólki upp á jákvætt félagslegt umhverfi ásamt því að sporna gegn félagslegri einangrun og andlegum vanlíðan ungmenna. Til dæmis verður boðið upp á ýmis konar ráðgjöf eins og aðstoð við atvinnuleit og úrvinnslu á ferilskrá, tómstundaráðgjöf, félagastuðning, aðstoð vegna vanlíðan úr af félagslegri einangrun, sjálfsvígshugleiðinga, einmanaleika eða einhvers konar vanda og að leiðbeina þeim á réttu staðina, vera til staðar og hlusta. Starfsfólk Ungmennahússins mun einnig aðstoða ungt fólk í Grindavíkurbæ við að koma góðum hugmyndum í framkvæmd og veita aðstöðu fyrir starfsemina. Til að mynda er möguleiki á því að opna starfsemi fyrir ýmsa hópa og klúbba og verður starfsemin með tímanum mótuð af ungmennahópnum sjálfum,“ segir Elínborg.

Hægt er að fylgast með starfseminni á instagram undir nafninu „Ungmennahús Grindavíkurbæjar“.

Hrekkjavakan var meðal efnis í Suðurnesjamagasíni eins og sjá má í meðfylgjandi innslagi.