Mannlíf

Hópsnesið og sagan
Laugardagur 3. apríl 2021 kl. 07:30

Hópsnesið og sagan

Hópsnes teygir sig um tvo kílómetra í sjó fram og er um einn kílómetri á breidd og skilur að Járngerðarstaðavík að vestanverðu og Hraunsvík að austanverðu. Hópsnesið nefnist þó Þórkötlustaðanes að austanverðu. Hópsnes/Þórkötlustaðanes myndaðist í gosi fyrir um 2800 árum úr gígaröð sem kennd er við fellið Sundhnúk og er skammt norðan við byggðina í Grindavík.

Hafnarskilyrði í Grindavík eru góð vegna þessa hraunrennslis og lóns (Hópsins) sem varð til við nesið þegar sjór tók að brjóta hraunið og flytja til laust efni. Ef nessins nyti ekki við er erfitt að sjá fyrir sér byggð í Grindavík. Það er því svo að eitt fjögurra byggðalaga á Reykjanesskaga á tilvist sína að þakka gossprungu í eldstöðvakerfi sem enn er virkt eins og komið hefur svo bersýnilega í ljós að undanförnu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fyrri hluti 20. aldar var blómatími byggðar og útgerðar á nesinu. Þá gerðu margir árabátar og síðar vélbátar út frá Þórkötlustaðanesi. Víða má sjá minjar um byggðina sem nú er horfin, s.s. innsiglingarvörður, fiskbyrgi, íshús, fiskhús, lifrarbræðslu og salthús. Útgerð fluttist á þann stað þar sem nú er Grindavíkurhöfn árið 1939. Þá gróf hópur atorkusamra Grindvíkinga í sundur rifið sem hindraði bátagengd inn í Hópið. Hópsnesviti var byggður árið 1928.

Í dag er nesið er vinsælt til útivistar og liggur um það göngu- og hjólaleið sem skemmtilegt er að fara um á góðum degi og fá söguna sem æpir á mann hvert sem litið er þegar farið er um nesið.