Max Norhern Light
Max Norhern Light

Mannlíf

Hláturkrampi í troðfullu Frumleikhúsi
Mánudagur 18. nóvember 2019 kl. 12:29

Hláturkrampi í troðfullu Frumleikhúsi

Ég þurfti nú bara að klípa á mér handarbakið og minna mig á að leikararnir á leiksviði Frumleikhússins, væru áhugaleikarar þegar ég sat og horfði á leiksýninguna Fló á skinni hjá Leikfélagi Keflavíkur. Slík voru tilþrifin og hæfileikar þessa leikhóps. Vá hvað þau eru góð!

Sýningin var stórkostleg vægt til orða tekið, tær snilld. Ég skemmti mér konunglega og mér heyrðist á hlátrasköllum gesta að fleiri voru að veltast um af hlátri í salnum. Í hléinu talaði fólk um að það væri komið með harðsperrur í magann af hlátri.

Leikfélag Keflavíkur er síungt áhugaleikfélag sem hefur alið upp frábæran leikhóp í gegnum árin. Þetta er öflugt leikfélag sem gleður áhorfendur vor og haust með sýningum sem hafa þótt með þeim betri á landinu. Hvers vegna? Jú, því fólkið sem stendur á bak við Leikfélag Keflavíkur eru dugnaðarforkar, sem elskar að skapa blómlegt menningarlíf á Suðurnesjum og þau sem taka þátt leggja sig fram um að gera hlutina vel. Þrefalt húrra fyrir þeim öllum!

Karl Ágúst Úlfsson, leikstýrði Fló á skinni og það er óhætt að hrósa honum fyrir góða leikstjórn því honum tókst að kalla fram grínleikarann í öllu þessu frábæra fólki sem tók þátt í farsanum góða. Ekki skal gleyma að þakka öllum þeim sem vinna baksviðs því ein leiksýning þarf á öllu þessu hæfileikafólki að halda.

Áfram Leikfélag Keflavíkur - Vel gert!

Marta Eiríksdóttir
marta@vf.is