Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Hlaðvarp og jóga í þungarokks-stúdíóinu í gamla bænum
HJÓNIN Í HLJÓÐVERINU. Ingi Þór Ingibergsson og Anna Margrét Ólafsdóttir í hljóðveri Lubba Peace í gamla bænum í Keflavík. VF-mynd: pket
Laugardagur 6. febrúar 2021 kl. 07:17

Hlaðvarp og jóga í þungarokks-stúdíóinu í gamla bænum

Garðhúsið við bílskúrinn sem áður hýsti bílskúrsbönd í þungarokki er nú í öðru hlutverki. Í Lubba Peace eru sagðar Góðar sögur, lesnar hljóðbækur og haldin námskeið í skapandi skrifum.

Í gamla bænum í Keflavík er starfrækt lítið stúdíó, Lubbi Peace, þar sem er hægt að taka upp hljóð, halda námskeið, iðka jóga, skrifa bækur eða annað. Ungt par, Ingi Þór Ingibergsson og Anna Margrét Ólafsdóttir, rekur þetta frumlega stúdíó þar sem talið er að allnokkrar hljóðhimnur hafi sprungið þegar bílskúrshljómsveitir þöndu raddbönd og léku þungarokk.

„Við opnuðum rétt fyrir Covid-19 og árið hefur því verið sérstakt eins og kannski nafnið,“ segja þau bæði hlægjandi þegar blaðamaður spyr út í starfsemi Lubba Peace. Þar er boðið upp á hlaðvarpsupptökur, jóga, skapandi skrif og fleiri námskeið sem og minni mannfögnuði. Ingi Þór er alinn upp í húsi foreldra sinna sem þau keyptu fyrir nokkrum árum. Ingibergur, faðir hans, er húsasmíðameistari og hafði gert húsið upp og sonurinn hefur haldið því verkefni áfram. Litla stúdíóð átti upphaflega að vera garðhús sem viðbygging við bílskúrinn en varð miðstöð tónlistar og rokks. „Jú, líklega hafa all nokkrar hljóðhimnur sprungið hér innan dyra. Ég ól manninn hér upp í þessu rými sem unglingur með félögum mínum að spila þungarokk og pabbi í sínum hljómsveitum. Það var mikið rokkað hérna,“ segir Ingi Þór en Anna Margrét kemur úr öðru umhverfi, hún er sveitastúlka frá Selfossi og hefur lækkað hljóðstyrkinn í húsnæðinu. Hún starfaði sem verkefnastjóri á Bókasafni Reykjanesbæjar þegar hún ákvað að reyna fyrir sér á öðrum sviðum eins og að bjóða upp á jóga og meiri rólegheit en háværa rokktónlist. „Það er þó ekki langt síðan að það voru haldnir hér tónleikar á Ljósanótt, svokallaðir heimatónleikar og í bæði skiptin voru við með frekar háværar hljómsveitir. Ég náði að byrja aðeins með jóga og fleira en auðvitað hefur kófið haft sitt að segja í starfseminni,“ segir Selfyssingurinn sem er náttúrlega orðin bítlabæjarpía í gamla bænum í Keflavík.

Public deli
Public deli

Ingi Þór hefur unnið við hljóð undanfarin ár, m.a. í Hljómahöllinni en skipti yfir í starf kerfisstjóra hjá Reykjanesbæ á síðasta ári. Hann hefur líka séð um tónlistarflutning á næturvöktum á Rás 2.

„Við vildum vera með rými til fjölbreyttrar sköpunar og fyrir skemmtileg verkefni. Við höfum verið með hlaðvarpsupptökur og höfum haft nokkra fastakúnna í hlaðvarpi og hér hefur verið lesið inn á nokkrar hljóðbækur. Rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir hefur verið með námskeið í skapandi skrifum og við höfum áhuga á að þróa það áfram með fleiri rithöfundum,“ segir Anna Margrét en í Lubba Peace er umhverfi sem er skemmtilegt fyrir slík verkefni og hljóðgræjur af bestu gerð.

Þau eru ánægð í gamla bænum og Ingi Þór hefur látið ljós sitt skína á samfélagsmiðlinum Instagram í endurbótum á gamla einbýlishúsinu sem þau keyptu af foreldrum hans, Ingibergi og Guðrúnu Júlíusdóttur, en þau keyptu hús hinum megin við götuna. „Þau vildu minnka við sig en fóru ekki langt. Það er gaman að eiga heimili í gamla bænum sem er ótrúlega fallegur. Hér býr yndislegt fólk í hverfinu og bænum öllum auðvitað,“ segir Ingi Þór en hvaðan kom þetta nafn, Lubbi Peace?

„Ég er alinn upp í þessu húsi og var mikið í þessari litlu byggingu sem hýsir stúdíóið, var auðvitað með mikinn hárlubba sem ungur maður og svo er Peace auðvitað komið frá friðarhjónunum John Lennon og Yogo Ono. Þau stunduðu friðsamleg mótmæli nakin í rúminu eins og frægt varð með plakat upp á vegg sem á stóð „HAIR PEACE,“ sagði Ingi Þór.

GARÐHÚSIÐ

Við heimili Inga Þórs og Önnu Margrétar er bílskúrinn og garðhúsið sem í dag hýsir Lubba Peace og allt sem honum tilheyrir. VF-mynd: hbb



FJÖLNOTA HÚS

Í húsnæði Lubba Peace er hvorki hátt til lofts né vítt til veggja. Húsnæðið er hins vegar fjölnota og getur verið jógasalur einn daginn og aðstaða til námskeiðshalds hinn daginn. Myndir úr einkasafni.

Jóga, hlaðvarpsupptökur og lestur hljóbóka er meðal verkefna Lubba Peace.