Toyota smurdagar 1170
Toyota smurdagar 1170

Mannlíf

Hermannaskáparnir fengu að fjúka
Ari og Eva í nýju spa aðstöðunni. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 30. nóvember 2019 kl. 07:53

Hermannaskáparnir fengu að fjúka

„Færum þjónustustigið enn hærra,“ segja þau Ari og Eva Lind í Sporthúsinu á Ásbrú. Framkvæmdum við nýja spa aðstöðu og búningsklefa lokið. 

„Við þurfum sífellt að vera á tánum og það er gaman að klára svona nýjung sem færir þjónustustig okkar enn hærra,“ segja þau Ari Elíasson og Eva Lind Ómarsdóttir, eigendur Sporthússins í Reykjanesbæ en í síðustu viku opnuðu þau formlega glæsilega spa og búningsaðstöðu í húsinu.

„Þetta var búið að vera nokkuð lengi á teikniborðinu og framkvæmdirnar tóku um eitt ár þannig að þetta tók verulega á, ekki síst þar sem við höfum haft starfsemina opna allan tímann og það er ekki auðvelt að láta þetta smella saman því opnunartíminn er langur. En það hafðist og við viljum líka þakka viðskiptavinum fyrir skilninginn og þolinmæðina,“ sagði Eva Lind og Ari bætir því við að nú sé stöðin orðin „alvöru“ því góð spa aðstaða sé eitthvað sem fólk sækir í.

Hermannaskáparnir fjarlægðir

Húsnæði Sporthússins var á tímum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli íþróttahús Varnarliðsmanna og margir Suðurnesjamenn kepptu þar t.d. í körfubolta og í sundi. Nú fengu gömlu „hermannaskáparnir“ sem voru í búningsklefunum að fjúka en fyrir tveimur árum var steypt upp í gömlu sundlaugina í húsinu og gerður inni sparkvöllur sem er mikið stundaður. Í þessum framkvæmdum sem nú voru að klárast voru búningsklefar endurnýjaðir, þar voru settir nýir fataskápar og bað- og sturtuaðstaða ásamt nýrri salernisaðstöðu. Þá er komnir pottar, heitur og kaldur og tvær gerðir af gufubaði. Keflvíski arkitektinn Jón Stefán Einarsson hjá JeeS arkitektum hannaði þessar breytingar sem þykja hafa tekist mjög vel.

 

Búningsklefar voru endurnýjaðir, gömlu hermannaskáparnir fjarlægðir og allt gert nýtt. Myndir/Ozzo.

Breyta gömlum hugsunarhætti

Hjónin eru afar stolt af nýja spa svæðinu en með búningsklefum og sameiginlegu svæði telur það um 500 fermetra. Jón Stefán arkitekt segist mjög ánægður með hvernig til hefur tekist.

„Verkefnið var að endurnýja búningsklefa og hanna nýtt baðsvæði með baðlaug, köldum pott, þurrsaunu og eimbaði í beinum tengslum við búningsklefa. Áhersla var lögð á notandann, að honum líði vel í þægilegu umhverfi. Unnið var með hlýja liti, lágstemmda lýsingu, hljóðvist og náttúrulegar efnisáferðir eins og rustic eik og steinflísar. Með þessu er verið að breyta gömlum hugsunarhætti um að slík rými verði að vera stofnanaleg, heldur mega þau vera persónuleg, rétt eins og baðherbergið heima fyrir,“ segir Jón Stefán.

Hugarfarsbreyting

Ari og Eva Lind segja að frá því að Sporthúsið opnaði í Reykjanesbæ fyrir tæpum sjö árum hafi strax orðið mikil hugarfarsbreyting hjá íbúum svæðisins sem hafi verið fljótir að tileinka sér það sem Sporthúsið hafi upp á að bjóða. Vöxturinn hafi verið mikill fyrstu árin og fylgir nú vexti samfélagsins en Sporthúsið er vel sótt af íbúum allra sveitarfélaga á Suðurnesjum. „Það hefur almennt orðið mikil hugarfarsbreyting síðustu ár og margir farnir að stunda holla og góða líkamsrækt, sem er stórt lýðheilsumál. Það fannst mörgum við vera köld að þora í þetta verkefni þegar við hófum þetta haustið 2012. Við höfum sýnt okkur sjálfum og fleirum að það var svo sannarlega þörf á þessu og nú stöndum við með fullbúna stöð með flestu sem þarf í líkamsræktarstöð sem er opinn alla daga vikunnar frá því snemma á morgnanna og langt fram á kvöld.“

Fjörutíu hópatímar og fjöldi námskeiða

Í Sporthúsinu eru um fjörutíu hópatímar í boði í hverri viku auk þess sem stór tækjasalur er í boði fyrir þá sem vilja stunda æfingar sjálfir eða undir handleiðslu einkaþjálfara sem eru all nokkrir. Þá er að auki fjöldi námskeiða sem stöðin býður upp á, en þau stærstu og vinsælustu eru Superform, Þittform og Crossfit.

Suðurnesin eru stórt vaktavinnusvæði og ber tímatafla stöðvarinnar þess merki. Þá hafa hópar úr heilsueflingu Janusar 65+ einnig æft í Sporthúsinu. Útlendingar sem koma til starfa í loftrýmisgæslu NATO hafa einnig verið duglegir að sækja stöðina.

„Það er gott að geta pústað aðeins eftir þetta stóra verkefni. Við sjáum svo til hvað við þurfum að gera næst,“ segir Ari og glottir. Aðaláherslan verður samt áfram að sinna okkar góðu viðskiptavinum vel, jafnt ungum foreldrum sem koma hingað með börnin og nýta sér barnagæslu á staðnum og elstu Suðurnesjamönnunum sem hingað koma en þeir eru á níræðisaldri,“ sögðu þau Ari og Eva.

  

Sporthúsið opnar glæsilegt Spa

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs