Mannlíf

Hera syngur á Dívutónleikum með Kvennakór Suðurnesja
Laugardagur 4. maí 2019 kl. 10:48

Hera syngur á Dívutónleikum með Kvennakór Suðurnesja


Þann 7. maí nk. heldur Kvennakór Suðurnesja glæsilega tónleika í Stapa, Hljómahöll með yfirskriftinni Dívur. Á tónleikunum ætlar kórinn ásamt hljómsveit að heiðra söngkonur þar sem sungin verða lög sem þekktar söngdívur hafa gert vinsæl.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kórkonur fá til liðs við sig eina helstu söngdívu Íslands, Heru Björk, en hún mun syngja með kórnum á tónleikunum.

Flutt verða lög frá m.a. Tinu Turner, Adele, Björk, Arethu Franklin, Ellý Vilhjálms, Ellu Fitzgerald, Jóhönnu Guðrúnu, Dolly Parton og svo mætti lengi telja, en mörg þessara laga hafa verið útsett sérstaklega fyrir kórinn. Þetta eru lög sem allir þekkja og má búast við frábærri stemmningu.

Stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er Dagný Þórunn Jónsdóttir og hljómsveitina skipa þau Geirþrúður Fanney Bogadóttir, píanó, Sigurður B. Ólafsson, gítar, Karl S. Einarsson, bassi, Þorvaldur Halldórsson, trommur og Kjartan Már Kjartansson, fiðla.

Auk tónleikanna í Stapa verða haldnir tónleikar í Duus Safnahúsum þann 17. maí ásamt Heklunum, sem er kvennakór frá Mosfellsbæ, en Dagný er einnig kórstjóri þeirra.

Kvennakór Suðurnesja fagnaði 50 ára afmæli á síðasta ári og var nóg um að vera á afmælisárinu. Kórinn hélt frábæra afmælistónleika í Hljómahöll fyrir troðfullu húsi og komust færri að en vildu. Haldið var til Færeyja þar sem kórinn tók þátt í kóramóti og fyrir jólin hélt kórinn tónleika í Keflavíkurkirkju þar sem fluttar voru Ave Maríur og fleiri lög tengd Maríu mey. Eins og sést slá kórkonur ekki slöku við og liggur mikil vinna að baki við æfingar og undirbúning.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:00. Vakin er athygli á því að miðasala á tónleikana í Stapa er eingöngu á hljomaholl.is / tix.is, ekki verða seldir miðar við innganginn.