Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Heldur heiðurstónleika í minningu ömmu sinnar
Föstudagur 4. október 2019 kl. 09:40

Heldur heiðurstónleika í minningu ömmu sinnar

Föstudaginn 11. október nk. í Keflavíkurkirkju kl. 19:30 mun Jóhanna María Kristinsdóttir halda tónleika til heiðurs ömmu sinnar Jóhönnu Kristinsdóttur. Tónleikarnir bera yfriskriftina Til ömmu - Heiðurstónleikar í tilefni af 90 ára afmæli Jóhönnu Kristins.

Jóhanna Kristins er mörgum Keflvíkingum vel kunnug, en hún tók virkan þátt í margvíslegu félagsstarfi í Keflavík og má þar helst nefna störf hennar í skátahreyfingunni og kórstarfi. Jóhanna María útskrifaðist 2018 með bachelor gráðu í klassískum söng frá Listaháskóla Íslands og hefur lengi stefnt að því að halda tónleika í sinni heimabyggð. Hugmyndin að þessum tónleikum kviknaði í sumar þegar Jóhanna áttaði sig á því að amma hennar hefði orðið níræð á árinu og þar lægi gullið tækifæri til þess að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. halda tónleika og fagna ömmu hennar með söng. Söngurinn var sameiginlegt áhugamál þeirra beggja. Áhugi Jóhönnu Maríu á söng kviknaði þegar amma hennar gaf henni miða á uppfærslu Íslensku óperunnar af Rakaranum í Sevilla í 12 ára afmælis gjöf. Þá heillaðist hún algjörlega af þeim töfraheimi sem óperan hefur að geyma og 14 ára hóf hún formlegt söngnám. Jóhanna var sjálf söngelsk og lærði söng hjá Guðrúnu Á. Símonar. Hún var ein af stofnendum Kvennakórs Suðurnesja og söng lengi með kirkjukór Keflavíkurkirkju, það eiga þær Jóhönnur sameiginlegt en Jóhanna María hefur sungið í báðum þessum kórum. Áhrif Jóhönnu á sonardóttur sína í gegnum sönginn hafa haft mikil áhrif á líf hennar og því vill Jóhanna María nýta þetta einstaka tækifæri til að heiðra ömmu sína og þakka í leið fyrir þeirra samband og vináttu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á efnisskrá tónleikanna verða lög sem voru í miklu uppáhaldi hjá Jóhönnu og lög sem Jóhanna María tengir við dýrmætar minningar sem hún á um ömmu sína. Fluttar verða klassískar perlur í bland við dægurlög sem allir þekkja og því má finna eitthvað fyrir alla. Með Jóhönnu Maríu stíga á stokk einvalalið tónlistarmanna og söngvara. Miðaverð er 1500 kr. og verða miðar seldir við inngang en aðeins verður hægt að greiða með pening.