Optical Studio
Optical Studio

Mannlíf

Gunnar Þórðarson: Afi íslenska poppsins
Gunnar Þórðarson - Ljósmynd: OZZO
Miðvikudagur 6. febrúar 2019 kl. 10:15

Gunnar Þórðarson: Afi íslenska poppsins

Það er óhætt að kalla hann poppskáld Íslands, lögin eru komin yfir sjö hundruð og mörg þeirra orðin að klassískum dægurlagaperlum. Hann stofnaði fyrstu íslensku bítlahljómsveitina, samdi fyrsta íslenska bítlalagið sem kom út á plötu og gerði Hljóma vinsælli en dæmi höfðu áður þekkst um.
 
Gunnar Þórðarson er umfjöllunarefni fyrstu tónleika tónleikaraðarinnar Söngvaskáld á Suðurnesjum þar sem fjallað er um frumkvöðla í íslenskri tónlistarsögu og þann ríka tónlistararf sem Suðurnesjamenn búa yfir.
 
Við hittum Gunnar yfir kaffibolla á dögunum og spurðum hann hvernig væri að vera afi íslenska poppsins.
 
Hann brosir þá bara út í annað og það er stríðnisblik í augunum. Gefur lítið út á titilinn, enda fremur hæglátur maður. Hann á gigg í Keflavík um kvöldið, er enn að kominn á áttræðisaldur. Þegar hann gengur inn heilsa honum ungir tónlistarmenn á næsta borði, þeir eiga að spila með honum um kvöldið. Virðingin er greinileg.
 
Gunnar var átta ára gamall þegar fjölskylda hans kom sér fyrir á Sunnubraut 11 í Keflavík. Faðir hans hafði fengið vinnu hjá ameríska hernum og hafði farið á undan til að undirbúa komu þeirra og byggja þar glæsilegt tveggja hæða hús. 
 
„Það var sjokk að koma til Keflavíkur og þekkja engan – og ég lenti ítrekað í slagsmálum í skólanum. Ég veit ekki af hverju ég tók á móti og gafst ekki upp því ég varð alltaf undir, líklega verið of þrjóskur til þess,“ segir Gunnar.
 
Í Keflavík snerist allt um fótbolta. Sparkvellirnir voru ekki merkilegir en þar var spilaður fótbolti alla daga enda hvorki til tölvur eða sjónvarp. Sveitapilturinn frá Hólmavík vakti furðu drengjanna á sparkvellinum, einn þeirra hét Rúnar Júlíusson. Gunnar fór ekki eftir leikreglunum og átti það til að hlaupa með boltann í fanginu í markið. Drengjunum þótti hann því skrítin en þarna var tilkomin meðfædd þrjóska Gunnars sem fannst bara eðlilegra að reglunum yrði breytt. 
 
En hann náði fljótlega tökunum á boltanum og eignaðist þar góða vini sem fylgdu honum að í barnaskólanum. Fljótlega bættist tónlistin við fótboltann og piltarnir tóku útvarp með sér á völlinn, settu það á hliðarlínuna, stilltu á Kanann eða Radíó Lúxemborg og settu allt í botn.
 
Drengirnir afrekuðu það að verða Íslandsmeistarar í fjórða flokki en þegar Gunnar komst ekki í liðið í þriðja flokki lauk glæstum knattspyrnuferli hans. „Þá lagði ég skóna á hilluna,“ segir Gunnar og glottir.

 

Þótti fráleitt að kaupa blokkflautu í skólanum

 
Fljótlega tók tónlistin yfir og fyrir Gunnar var ekki aftur snúið. „Ég hafði stór eyru og hlustaði á margs konar tónlist, helst rokk. En ég man hvað mér þótti það fráleitt að kaupa blokkflautu þegar ætlast var til þess af skólanum. Hafði engan áhuga á að blása í hana og stóð við það.“
 
Gunnar kynntist hljóðfæri fyrst fjórtán eða fimmtán ára gamall þegar hann fann brotinn gítar á heimilinu sem móðursystir hans hafði skilið eftir. „Ég tók gítarinn að mér og tókst að feta mig áfram þótt bakið væri brotið og strengirnir lægju langt frá hálsinum. Skólabróðir minn kunni eitthvað að spila og hann kenndi mér það sem hann gat. Ég man að ég náði að spila Fright Train, vinsælan amerískan slagara sem varð í íslenskri útgáfu Lestin brunar frá mér. Eftir nokkra mánuði fór pabbi með mig í hljóðfæraverslun og keypti nýjan gítar, þeir áttu eftir að verða allnokkrir,“ segir Gunnar og fljótlega varð til hópur í kringum tónlistina sem tekin var upp í Kananum og spiluð í partýum á segulbandstækjum.
 
Í Gagnfræðaskóla Keflavíkur var skólahljómsveitin Skuggar, undir áhrifum frá Shadows, og þar spilaði Gunnar á trommur. „Ég þótti mjög lélegur trommuleikari og hélt mig við gítarinn,“ segir Gunnar og hlær. Rúnar vinur hans hóf einmitt söngferil sinn með Skuggum. „Þá var hann strax kominn með þessa Ragga Bjarna hendi,“ segir Gunnar og líkir eftir vini sínum sem fljótt átti sviðið.

 

Keyrðu amerískar drossíur nýkomnir með bílpróf

 
Þegar Gunnar útskrifaðist úr Gaggó fór hann að vinna hjá hernum með Rúnari. „Ég vann á þvottahúsinu og svo keyrðum við Rúnar leigubíl sautján ára gamlir, nýkomnir með bílpróf, á flunkunýjum, amerískum drossíum og gerðu okkur að leik að spyrna á þeim á flugbrautunum á milli túra, þá var reykspólað og gefið í botn. Stundum smygluðum við okkur niður í bæ til að sýna okkur á rúntinum.“
 
Á vellinum kynntust þeir nýrri tónlist, þeir hlustuðu á kanaútvarpið og gátu keypt sér nýjar plötur sem ekki voru komnar á markað heima. Á gufunni var helst spilað Sjá dagar koma og Vertu hjá mér Dísa. 
Gunnar spilaði í hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar árið 1963 þar sem leikin var vinsæl, amerísk dægurtónlist. En þegar tilkynnt var að hljómsveitin hygðist hætta fæddist hugmynd hjá Gunnari og félögum hans. Hljómsveitin Hljómar varð til eins og frægt er orðið og Gunnar fékk Rúnar vin sinn til þess að spila á bassa. Félagar hans voru ekki allir ánægðir með þá ákvörðun, enda kunni Rúnar ekki að spila á hljóðfæri, „hvað þá á greiðu!“ á Einar Júlíusson að hafa sagt. En Gunnar var ákveðinn og veitti honum leiðsögn. „Ég vissi að Rúnar hafði þetta sem þarf á sviði, hann kunni að koma fram og má segja að hann sé ástæða þess að Hljómar náðu svona miklum vinsældum.“
 
Fyrsta giggið var í Krossinum og ekki varð aftur snúið. Bítlatónlistin var sprengja um allan heim og þá fóru menn að semja tónlist. „Ég hugsaði með mér ef þessir gaurar í útlöndum geta það af hverju ætti ég ekki að geta gert það líka? Mér fannst þetta hálfgerðir huldumenn, ekki goðumlíkir menn.“
 
Manstu eftir fyrsta laginu sem þú samdir?
„Ég held að það hafi verið instrumental lag. Ég man það ekki í dag en það hét 79 mílur,“ segir Gunnar hugsi. „Bláu augun þín er fyrsta lagið sem ég man eftir að hafa samið en það kom út á fyrstu plötunni okkar. Svavar Gestsson var upptökustjóri og hann gerði kröfu um að textar væru á íslensku. Því var leitað til Ólafs Gauks sem bjó í næsta húsi við Svavar. Ætli textinn sé ekki um einhverja stelpu,“ segir Gunnar stríðnislega. 

 
Hljómar urðu landsfrægir á mettíma og hafði annað eins aldrei sést áður í íslensku tónlistarlífi.
 
„Þetta skeði svo fljótt. Við höfðum bara spilað í fjóra, fimm mánuði og þar sem enginn hafði séð okkur þar sem ekkert sjónvarp var á þessum tíma fengum við rosalega aðsókn. Við fórum í túr um landið fyrstu tvö árin og fólk kom að sjá þetta fyrirbæri, einhver frík með lubba.“
 
Gunnar hefur verið í mörgum af bestu hljómsveitum landsins og má þar nefna ofurhljómsveitina Trúbrot, ðe lonlí blú bojs, Ríó Tríó, Lummurnar og Guitar Islandico. Hann hefur samið bítlatónlist, hippatónlist, vinsældaslagara, diskótónlist og síðustu árin klassíska tónlist og óperu sem sló í gegn.
Bestu lögin koma bara
 
En hvernig verða lögin til?
„Bestu lögin koma bara. En stundum sit ég löngum stundum áður en það gerist, þeir fiska sem róa. Ég lít á þetta sem leik, ekki vinnu. Ég er bara að leika mér og er svo heppinn að ég hef verið að leika mér alla ævi. Maður verður að gleyma sér og hætta hugsa. Þá koma lögin. Annars hef ég yfirleitt samið lög þegar ég er beðinn um þau, það hentar mér ágætlega að vinna undir pressu. Þá kemst ég í stuð,“ segir Gunnar kankvís.
 
En er einhver munur að semja popplög og svo heila óperu?
„Gunnar brosir. Þetta var áskorun. Ég vissi það þegar ég samdi Brynjólfsmessu en þetta er samt ekkert langt frá poppinu. Það þarf að syngja og það þarf melódíu – þetta er bara lengra.“
 
Hann segir að það megi finna poppáhrif í hans klassísku verkum, til að mynda í óperunni Ragnheiði. „Sumar aríurnar eru ekki langt frá poppinu. Þú getur leyft þér meira en sumt getur þú ekki leyft þér – þá er þetta ekki lengur ópera, heldur eitthvað annað.“
 
En hvernig tónskáld er Gunnar Þórðarson?
„Ætli ég sé ekki rómantískur. Í flestum lögunum er einhver ást sem ég er að lýsa og þá á ég við alls konar ást. Snýst ekki allt um það?“
 
Tónleikarnir um Gunnar Þórðarson verða haldnir í Hljómahöll fimmtudaginn 7. febrúar kl. 20:00 og er miðasala í Hljómahöll og á hljoma­holl.is.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs