ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Mannlíf

Guðmundur fékk Nýræktarstyrk fyrir Talandi steina
Guðmundur Magnússon ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra.
Miðvikudagur 8. júní 2022 kl. 11:56

Guðmundur fékk Nýræktarstyrk fyrir Talandi steina

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur veitt þremur nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra, en hver styrkur nemur hálfri milljón króna. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra afhenti styrkina í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins í síðustu viku.

Árlega veitir Miðstöð íslenskra bókmennta Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira. Nýræktarstyrkir hafa verið veittir frá árinu 2008; tveir til fimm styrkir í hvert sinn og valið er úr innsendum handritum.  Verkin sem hljóta viðurkenninguna í ár eru afar fjölbreytt, ein ljóðabók, ein skáldsaga og eitt smásagnasafn og yrkisefnin eru af ýmsum toga; baráttan við geðsjúkdóma, ægivald náttúrunnar á heimskautaslóðum og mörk hins hversdagslega og hins furðulega í lífi okkar.

Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2022 hljóta eftirtalin verk og höfundar:

Talandi steinar

Ljóðabók // Höfundur: Guðmundur Magnússon

Þú sem ert á jörðu

Skáldsaga // Höfundur: Nína Ólafsdóttir

Svefngríman

Smásagnasafn // Höfundur: Örvar Smárason

Þetta er í fimmtánda sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa rúmlega sjötíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi fyrir afar fjölbreytt verk. Meðal þeirra sem hlotið hafa Nýræktarstyrki eru höfundarnir Arndís Þórarinsdóttir, Fríða Ísberg, Sverrir Norland, Benný Sif Ísleifsdóttir, Hildur Knútsdóttir, Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Dagur Hjartarson, Júlía Margrét Einarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Jakub Stachowiak svo aðeins nokkur séu nefnd.