Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Gott að flytja heim aftur
Jónas og Ragnhildur saman á útihátíð.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 13. september 2019 kl. 08:00

Gott að flytja heim aftur

Hjónin Jónas og Ragnhildur segja hvergi betra að búa en í Keflavík.

Þau urðu kærustupar mjög ung, hún var fimmtán en hann var sextán. Hún flutti úr höfuðborginni tólf ára gömul en hann er fæddur og uppalinn í Keflavík. Í dag eru þau hjón og segjast hafa upplifað margt saman, ekki allt dans á rósum en ástin fleytir þeim yfir erfiðleikana. Hjónin, Ragnhildur Sigurðardóttir og Jónas Ragnarsson þekkja margir, hana kannski best vegna leikskólans Tjarnarsels en þar er hún nýhætt sem aðstoðarleikskólastjóri. Hann þekkja margir  vegna reksturs Nonna & Bubba, gjafavöruverslunarinnar Róm og nú síðast sem byggingaverktaki en hann er menntaður húsasmíðameistari og sinnir því starfi núna, orðinn 68 ára gamall. Við kíktum í heimsókn á Gígjuvelli í Keflavíkurhverfi, á fallegt heimili þeirra hjóna sem allir þekkja betur undir nöfnunum Ragga og Jonni.

Public deli
Public deli

Fullt af drengjum

„Ég flyt til Keflavíkur árið 1964 þá tólf ára gömul. Foreldrar mínir keyptu Aðalgötu 19, merkilegt hús sem var byggt úr rekaviði úr skipafarmi Jamestown, flutt úr Höfnum hingað til Keflavíkur. Við vorum fimm systur upphaflega en svo eignuðumst við bróður. Foreldrar mínir voru Sigríður Einarsdóttir og Sigurður Guðbrandsson en þau eru bæði látin. Þegar við bjuggum í Reykjavík, þá leigðu foreldrar mínir alltaf því þau vildu ekki skulda og í Keflavík gátu þau eignast hús. Ég labbaði alltaf í skólann framhjá heimili Jonna á Kirkjuveginum en skólaganga var þá alla daga nema sunnudaga. Ég man það vel þegar á laugardögum voru 24 lítrar af mjólk í hyrnum í járngrind á tröppunum fyrir utan húsið heima hjá honum og ég hugsaði með mér þegar ég gekk framhjá að þarna byggju hjónin með alla strákana,“ segir Ragga og hlær. 

„Já, við bræðurnir vorum níu talsins í upphafi en einn lést mjög ungur af slysförum. Við ólumst upp í 60 fermetra húsi á Kirkjuvegi 4, sem nú er farið. Arnbjörg amma bjó með okkur og það var þröngt á þingi en maður spáði ekki svo mikið í það, svona var þetta bara hjá okkur og fleirum. Við sváfum í kojum, tvær kojur í hverju litlu herbergi og ein koja inni hjá mömmu og pabba. Svo var tveggja manna sófi í stofunni sem þrír bræðranna sváfu í og lágu þvert yfir rúmið,“ segir Jonni en foreldrar hans voru Bjarnheiður Hannesdóttir sem nú er látin og Ragnar Jónasson, sem er kominn yfir nírætt og býr á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Það hlýtur að hafa verið krefjandi að búa í svona þröngu húsnæði, var það ekki?

„Ég minnist þess nú ekki. Það bjuggu flestir þröngt og fólk var almennt nægjusamt.  Það var fátækt myndum við segja í dag á mælikvarða okkar en manni fannst þetta ekki vera fátækt. Fólk vann mikið og það var ekki verið að eyða peningum í óþarfa, vöruúrval var heldur ekki mikið,“ segir Jonni og Ragga heldur áfram;

„Þær voru yfirleitt barnmargar fjölskyldurnar á þessum árum. Börnum var sópað út úr húsi á morgnana svo hægt væri að búa um rúmin og undirbúa hádegismat. Mæður voru oftast heimavinnandi og börnin dugleg að leika sér úti við hvernig sem viðraði.“

Kynntust á fundum hjá Árvakri

Ragga og Jonni voru kornung þegar þau kynntust en það var hjá æskulýðsfélaginu Árvakri.

„Ég vissi alltaf af þessari stelpu,“ segir Jonni um leið og hann lítur á Röggu sína „en það var í gegnum æskulýðsfélagið Árvakur að við kynntumst en Árvakur var bindindisfélag. En ég varð ástfangin af henni þegar ég sá hana standa fyrir utan apótekið með hvíta loðhúfu, klædda rauðum rússskinsjakka og í köflóttum buxum. Þá kviknaði ástin en ég var annars bara saklaus strákur á reiðhjóli á þessum árum.“ Ragga hlær og fer að rifja upp klæðaburð táninga á þessum árum.

„Já, ég man hvað ég þráði að eignast tískufatnað keyptan úr búð á þessum tíma því maður var alltaf í heimasaumuðum fötum. Svo voru einstaka mömmur sem voru að panta úr amerískum „prís“-listum. Æskulýðsböllin voru mín, það var svo gaman að fara þangað. Ég man þegar það var ball eitt kvöldið í Æskulýðsheimilinu og ég fékk ekki að fara. Þetta var daginn fyrir fermingu elstu systur minnar og ég átti að skúra gólf. Þá leið mér eins og Öskubusku, var svo vonsvikin því ég fékk ekki að fara.“

Jonni og Ragga með fyrsta barnið sitt í barnavagni á gangi í Keflavík.

Tónlist skipaði stóran sess

„Það var ofboðslega gaman að alast hér upp. Hljómar og fótbolti, þetta var okkar Keflavík. Maður hékk á hurðarhúninum í Félagsbíó þegar bíómyndin Umbaramba með Hljómum var sýnd,“ segir Jonni og heldur áfram að tala um bæjarstemninguna á þessum tíma.

„Þá var séra Björn Jónsson frumkvöðull að bindindisfélaginu Árvakri og sinnti því af miklum dugnaði. Krakkar fóru yfirleitt í dansskóla hjá Hermanni Ragnars eða Heiðari Ástvalds. Það fór fram heilmikið tónlistaruppeldi hér í bæ sem Hermann Eiríksson, skólastjóri stóð fyrir.“

„Já, ég var í barnakór kirkjunnar og við vorum stundum að syngja á jólaböllum í Ungó. Gauja mamma hans Kjartans bæjarstjóra æfði okkur og Stebba Guðjóns einnig. Svo voru leikfimissýningar á árshátíðum barna- og gagnfræðaskólans en þeim stjórnuðu Jón Jóhanns og Brynja Árna,“ segir Ragga.

Kynlegir kvistir

„Eftirminnilegir einstaklingar í bæjarfélaginu þá voru Gvendur þribbi, Kobbi í skólanum, þetta voru undirmálsmenn og Reynir Svavars sem kallaður var baróninn. Svo var það Raggi gúmmí sem gerði við gúmmístígvél en hann bjó í litlum kofa á bakvið Hreppskassann en það var hús við Tjarnargötuna. Við bræðurnir byrjuðum snemma að vinna en við vorum að skera net og hnýta niðri í kjallara heima. Þá sóttum við efni til hans Jóa dropa til að setja á öngla. Þetta var litríkt og skemmtilegt samfélag. Eyjólfur, var með verslun á neðstu hæð í Eyjólfshúsi og man ég að hann var með dall í horninu sem hann spýtti í en í þessu sama húsi ólst Gunnar Eyjólfsson upp. Óli póstur var á reiðhjólinu um allan bæ, klæddur einkennisbúning með kaskeiti og bar út póstinn til bæjarbúa. Bæjarfélagið var mun minna þá en nú, allir þekktu alla og vissu hvað allir hétu. Ef einhver ókunnugur kom í bæinn þá var eftir því tekið. Þegar maður sá svartan hermann þá starði fólk á hann, eðlilega, því við sáum aldrei litað fólk fyrr en herinn kom hingað,“ segir Jonni og hlær.

Næg atvinna í Keflavík

Ragga segist hafa verið mjög spennt að flytja til Keflavíkur líka vegna þess að þar gat hún, tólf ára gömul, fengið alvöru vinnu. „Fyrsta starfið mitt þá var til dæmis að sortera skreið.

Mörgum árum seinna sótti ég um í Samvinnubankanum og var spurð af bankastjóranum hverra manna ég væri og ég sagði það. Nei, hann kannaðist ekki við foreldra mína og þá fékk ég ekki vinnuna. Það var mikið svoleiðis á þeim tíma og við fjölskyldan vorum ekki innfæddir Keflvíkingar og því ekki von að bankastjórinn kannaðist við fólkið mitt. Mér var annars mjög vel tekið þegar ég flutti til Keflavíkur tólf ára gömul og lenti í bekk hjá Ragnari Guðleifs kennara, sem var einstakt ljúfmenni. Þarna eignaðist ég góðar vinkonur sem eru það enn í dag,“ segir Ragga.

Fólk passaði upp á hvert annað

Jonni segir að  mikil samheldni hafi verið á meðal íbúa ef eitthvað kom upp á. „Ég man þegar kviknaði í heima hjá okkur á Kirkjuveginum og pabbi lá á sjúkrahúsinu en hann hafði slasast. Það tókst að slökkva eldinn fljótt en þá komu mektarmenn heim til okkar og buðu mömmu aðstoð sem hún hafnaði því hún var stolt og vildi bjarga sér sjálf. Samt var hún dugleg að hjálpa lítilmagnanum. Ég var stundum látinn sækja Dóru Hjörts þegar það var kalt heima hjá henni á veturna og mamma bjó um hana í kjallaranum hjá okkur. Sumir voru hræddir við Dóru, því hún talaði lítið og umlaði bara. Þær voru tvær konurnar sem voru með lítinn búskap í hverfinu okkar, Dóra Hjörts sem var með kindur og Helga Geirs með beljur. Á þessum tíma voru engar stofnanir til, eins og í dag sem hlúa að gömlu fólki en þá passaði fólk upp á hvert annað. Það má telja upp fleira eftirminnilegt fólk á þessum árum. Höfðingjar bæjarins voru sómamenn og létu sig lítilmagnann varða og strax koma þessi menn upp í hugann, Ólafur Sólimann, Margeir Jóns og Óli Björns. Nægjusemi var fólki í blóð borið og þeir sem höfðu meira á milli handanna voru yfirleitt örlátir,“ segir Jonni.

Ungó og Stapinn

Dansböllin voru mörg á þeim árum þegar Ragga og Jonni eru að fullorðnast og fullt af hljómsveitum í bítlabænum Keflavík.

„Við fórum stundum á böll á þessum árum. Þá voru böll í Ungó en Jonni vann þar við dyravörslu og svo verður Stapinn til og hann verður meira okkar ballstaður. Eitt sinn voru starfræktir hjónaklúbbar hér suðurfrá og unghjónaklúbbar og dansað í Stapanum, það var skemmtilegt,“ segir Ragga.

„Það var svo mikið um að vera á þessum árum. Ekki bara Hljómar heldur einnig Júdas og Óðmenn. Það var vinsælt að dansa. Foreldrar mínir dönsuðu stundum heima hjá mér á eldhúsgólfinu,“ segir Jonni.

Keflavík var ekki fallegur bær

„Útlit bæjarins á þessum árum var ekki upp á marga fiska. Göturnar voru holóttar og þegar rigndi voru drullupollar um allar götur. Dæmi um þetta var þegar við fermdust jafnaldrarnir og vorum klædd í hvíta kyrtla en þá hafði rignt og göturnar voru fullar af pollum. Þá vorum við látin bíða í rútu við Kirkjulund og plankar voru lagðir alla leið að Keflavíkurkirkju svo við fengjum ekki drullu í hvíta kyrtlana þegar við gengum yfir í kirkjuna. Á þessum árum var ekki mikið gróðursett í görðum né á opnum svæðum í bænum,“ segir Ragga. 

Gott að flytja heim

Við vendum kvæði okkar í kross og færum okkar til nútímans en þau hjónin fluttu burt um tíma.

„Við fluttum til Hafnarfjarðar í átta ár og ég var svo þakklátur þegar við fluttum heim aftur til Keflavíkur. Það var gott að mæta öllum þessum vinalegu brosandi andlitum á ný, sjá kunnugleg andlit, fólk sem fagnaði heimkomu okkar. Ég var búinn að gleyma hvað það var notalegt að búa í bæ þar sem fólk kannast við hvert annað og heilsar úti á götu. Þegar við fluttum í Hafnarfjörð þá var það mjög skemmtilegt í fyrstu og kannski ákveðið frelsi að þekkja engan úti á götu eða í búðinni en svo fer maður að sakna einhvers. Hér suðurfrá er maður umvafin vinsemd hjá fólki sem þekkir mann eða kannast við mann. Fólki þykir vænt um hvert annað. Fallegt bros, kærleikur og hlýja voru móttökurnar sem við fengum þegar við fluttum heim í Keflavík aftur,“ segir Jonni skælbrosandi.

Ragga tekur undir þetta. „Eitt sinn fórum við í Hellisgerði á viðburð sem fór þarna fram í Hafnarfirði en þekktum engan og þá hugsaði maður heim í bæinn sinn, hvað það er notalegt að þekkja andlitin í kringum sig“.

Efri árin að hefjast

Nýlega hætti Ragga að starfa í Tjarnarseli og er komin á eftirlaunaaldur. Jonni vinnur sjálfstætt en er ekki á þeim buxunum að hætta, enn sem komið er. Hann rekur byggingafyrirtæki í Reykjanesbæ og er að selja raðhús sem hefur gengið mjög vel.

„Ragga er hætt að vinna en ég er ennþá að stýra rekstri hjá sjálfum mér. Við höfum upplifað margt á ævi okkar, verið í blómlegum rekstri og misst allt sem við áttum. Það hefur gengið á ýmsu en við erum mjög samheldin og stöndum þétt í lífsins ólgusjó. Við lærðum mikið af því að verða gjaldþrota og lítum öðruvísi á hlutina í dag.

„Já, lífið færir okkur verkefni eins og öðrum. Þá er að takast á við þau með jákvæðni að leiðarljósi. Við höfum verið heppin og eigum þrjú börn og fimm barnabörn. Ég man að tengdamóðir mín sagði eitt sinn við okkur; ekki hrúga niður börnum og kannski hafði það áhrif því við eignuðumst börnin okkar á fimm til sjö ára fresti,“ segir Ragga með bros á vör.

„Við eigum góða vini og erum dugleg að gera eitthvað skemmtilegt. Eitt af því sem við gerum árlega er að fara á skíði og höfum gert í 38 ár með sama frábæra skíðahópnum og munum halda því áfram, ótrúlega skemmtilegt,“ segir Jonni að lokum.

Fjölskyldan saman á skíðum. Það vantaði bara yngsta barnabarnið.