Mannlíf

Gömul ritvél kveikti í áhuga á skrifum
Katrín hefur gefið út bækur og spil.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 24. október 2020 kl. 07:20

Gömul ritvél kveikti í áhuga á skrifum

Katrín Ósk Jóhannsdóttir, barnabókahöfundur í Grindavík, gefur út nýja barnabók um einelti. Ein bóka hennar fer í sölu í Bandaríkjunum.

„Ég las mikið sem barn og þó svo það væri til tölva á heimilinu þá laðaðist ég að gamalli ritvél úti í skúr og skrifaði margar smásögur á hana,“ segir Katrín Ósk Jóhannsdóttir, barnabókahöfundur, sem er búsett í Grindavík og flutti þangað fyrir um ári síðan með eiginmanni og þremur börnum þeirra.

Katrín hefur gefið út tvær barnabækur, Karólína könguló (tvær lestrarbækur og ein þrautabók) og Mömmugull. Hún starfaði í verslun Bláa lónsins en missti vinnuna á veirutímum og einbeitir sér nú að skrifum og hugmyndum tengdum þeim. Nýjasta bókin hennar heitir Ef ég væri ofurhetja og kemur út í lok nóvember. Hún segir hana ætlaða fyrir yngsta stig í grunnskóla. „Mig langaði að opna augu barna fyrir einelti og að fylgjast vel með í kringum sig. Bókin snýst um það að hver sem er getur orðið ofurhetja og hjálpað öðrum að koma út úr skelinni,“ segir hún.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Styrkir Umhyggju með bókasölu

Nýlega keypti Katrín upp lager af þeim bókum sem hún hefur gefið út, og öll réttindi sem þeim fylgja, af útgáfunni sem hún byrjaði hjá. Hún ákvað að sjá um að gefa út sitt eigið efni og nýta möguleikann á að vinna meira með það. „Nú er ég komin með bók í myndskreytingu og ætti hún að komast í prentun í nóvember.“

Fyrri bækur Katrínar gengu vel og hún setti nýlega í gang styrktarátak fyrir félag langveikra barna, Umhyggju, en hún mun gefa 500 krónur af hverju seldu eintaki af bókinni Mömmugull frá 1. október til 15. nóvember. „Markmiðið er að ná að selja 200 bækur en þá næ ég að afhenda Umhyggju 100.000 krónur. Vonandi meira.“

Bókin mömmugull segir m.a. frá því að verðmætin felast ekki í veraldlegum hlutum heldur að elska og vera elskaður. Bókin hefur vakið athygli og nýlega skrifaði Katrín undir samning við bókaútgáfu í Bandaríkjunum og fer bókin í sölu þar á næsta ári.

Karólina kónguló er litaglöð þrautabók fyrir yngstu börnin, sú eina sinnar tegundar sem komið hefur út á Íslandi, og þá hefur hún gert minnisspil úr náttúrulegum við til að þjálfa upp hugarþjálfun og minni.

Margt á prjónunum

Katrín segir að skrifin veiti sér innblástur og hún sé með mörg verkefni á prjónunum. „Markmiðið var að verða rithöfundur. Ég hef ekki fundið eins mikla ástríðu eins og nú að láta það verða að veruleika. Ég held að allt gerist af ástæðu og að mér hafi verið ætlað að fara þessa leið.“

Hún segist hafa fengið frábæra afmælisgjöf á 30 ára afmæli sínu í sumar en foreldrar hennar gáfu henni eldgamla ritvél. „Ég var búin að leita logandi ljósi að gamalli ritvél því það kveikti í áhuga mínum þegar ég var lítil stelpa. Þá lá ég á gólfinu inni í herbergi og pikkaði á ritvél margar smásögur,“ segir barnabókahöfundurinn og útgefandinn Katrín.

Hún opnaði í september heimasíðuna www.oskarbrunnur.is, Face-book-síðuna ÓskarBrunnur og Insta-gramið oskarbrunnur.