Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Góðar sögur: Sigrar og sorgir tónskáldsins
Veigar er einstaklega einlægur og auðmjúkur í þessu ítarlega viðtali.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
þriðjudaginn 29. desember 2020 kl. 11:27

Góðar sögur: Sigrar og sorgir tónskáldsins

Keflvíkingurinn Veigar Margeirsson hefur samið tónlist fyrir margar þekktustu kvikmyndir heimsins. Í einlægu viðtali segir hann frá einstökum starfsferli og deilir áföllum og sigrum sem hann hefur upplifað á lífsleiðinni.

Keflvíkingurinn Veigar Margeirsson var á dögunum gestur í hlaðvarpinu Góðar sögur, þar sem Suðurnesjamenn eru gestir. Þar ræðir Veigar einstakan tónlistarferil í Bandaríkjunum sem spannar næstum tvo áratugi. Það sem er sérstakt við feril Veigars er að hann hefur sérhæft sig í tónlist sem ætluð er í kvikmyndastiklur (e. trailer). Hann á um 2000 slíkar stiklur á afrekaskránni en auk þess hefur hann samið tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarpsþætti og auglýsingar svo fátt eitt sé nefnt.

Hann byrjaði snemma í lúðrasveit og þótti hafa mikla hæfileika á tónlistarsviðinu. Hann var vanur að ganga um með tónkvísl í vasanum og var þekktur fyrir að geta spilað hvað sem er eftir eyranum.

Eins og ungu tónlistarfólki sæmir var hann í hljómsveitum en hann var alltaf staðráðinn í að læra eins mikið og mögulegt var þegar kom að tónlist. Veigar minnist þess að núverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, sem þá var skólastjóri tónlistarskólans í Keflavík, hafi gefið unga fólkinu mikið svigrúm til þess að nýta húsnæði skólans til sköpunar og æfinga.

Túrar tvítugur með Mezzoforte

Aðeins tvítugur fékk hann tækifæri til að spila og ferðast um Asíu með átrúnargoðum sínum í Mezzoforte. Þegar kom að námi ákvað Veigar að stefna vestur um haf til Bandaríkjanna. Hann fór í skóla í Boston en áföll í fjölskyldunni settu strik í reikninginn.

„Námsárin voru frábær eins og hjá svo mörgum en þau voru líka mjög erfið hjá mér. Faðir minn deyr 1993 úr krabbameini, svo deyr bróðir minn árið 97 úr krabbameini fyrir aldur fram. Svo flytjum við til Los Angeles 1998. Eftir ársdvöl þar þá veikist konan mín mjög alvarlega, við missum barn í fæðingu og hún er bara nær dauða en lífi.“ Þegar þarna var komið við sögu var Veigar aðeins 27 ára gamall. Veigar og Sirrý konan hans komust einmitt í fréttir fyrir ekki svo löngu þar sem Veigar gerðist nýrnagjafi fyrir Sirrý.

Í viðtalinu ræðir Veigar það hvernig öll þessi áföll breyttu lífi hans og fjölskyldunnar auk þess að segja frá einstökum ferli.

Hlusta má á þáttinn á öllum helstu hlaðvarpsveitum.