Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Glæpasögur heilla prestinn
Fritz með nýju bókina sína. VF-mynd/MartaEiríksdóttir.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
fimmtudaginn 13. júní 2019 kl. 12:52

Glæpasögur heilla prestinn

Það er ekki á hverjum degi sem við heyrum af presti sem skrifar glæpasögur en Keflavíkurkirkja státar af einum svoleiðis. Séra Fritz Már Jörgensson er ekki bara séra, hann er einnig rithöfundur og hefur gefið út heilar fimm glæpasögur. Sú fyrsta kom út árið 2007. Bækur hans hafa verið þýddar á erlend tungumál.  

Við mæltum okkur mót við rithöfundinn og fengum innsýn í hugarheim prests sem skrifar ekki eingöngu predikun fyrir sunnudagsmessu, heldur skrifar hann einnig spennusögur og á dágóðan hóp lesenda, fólk sem bíður spennt eftir að fá að lesa nýjustu afurðina. Það getum við einnig því fimmtudaginn 20. júní klukkan 17:00, býður séra Fritz Már í útgáfuhóf vegna útgáfu nýjustu spennusögu sinnar Líkið í kirkjugarðinum, í nýrri verslun Penninn/Eymundsson í Krossmóa. Allir hjartanlega velkomnir!

Public deli
Public deli

Hefur gaman af lestri

„Ég er svona lestrarhestur og hef lesið frá því ég man eftir mér. Þegar ég var yngri þá fékk ég alltaf leyfi fyrir tvöföldum bókaskammti hjá Bókabílnum í Reykjavík, bækur sem ég fór með heim og las upp til agna. Í dag er ég eins, ég er með nokkrar bækur í gangi í einu. Það eru bækur á náttborðinu sem ég er að lesa, inni í stofu, ein í símanum ef ég þarf einhvers staðar að bíða en þá les ég á meðan. Við hjónin búum í stóru húsnæði og ég leigi geymslu úti í bæ undir bókasafnið mitt sem kemst ekki fyrir heima hjá okkur. Það er einmitt verkefni framundan að fara í gegnum þessar bækur, flokka þær og fara með í Kolaportið því Góði hirðirinn tekur ekki lengur við bókum. Kannski að Kompan á Iðavöllum gæti tekið við bókum frá mér?“ segir Fritz Már sem ljómar þegar hann talar um bækur. Honum dugði ekki að lesa bækur eftir aðra heldur tók hann sig til og byrjaði sjálfur að skrifa skáldsögur.

Nennti ekki að læra málfræði

„Bækur fyrir mér eru svo magnaðar. Ég var alltaf góður í stafsetningu en nennti ekki málfræðinni en það bjargaðist því ég las svo mikið að íslensk málfræði síaðist inn hjá mér. Ég hef alltaf átt auðvelt með íslenskt mál. Ég er sannfærður um að allur þessi bókalestur hafi gert mig betri í íslensku. Mér finnst bækur opna fyrir mér heim sem er svo spennandi, hver bók er ævintýraheimur, mikil sköpun í hverri bók. Lesturinn kallar fram myndir í huga lesandans sem býr sjálfur til sjónarsvið í huganum. Þetta er ferðalag sem lesandinn fer í og upplifir söguna á mjög raunverulegan hátt á meðan hann les,“ segir Fritz Már fullur af eldmóði fyrir bókalestri en hann hefur jafn brennandi áhuga á að skrifa bækur sjálfur.

„Ég hef sömu væntingar og er jafn spenntur fyrir ferðalaginu hjá sjálfum mér þegar ég byrja að skrifa nýja bók. Þó ég viti hvað ég ætla að skrifa um þá gerast margir óvæntir hlutir á leiðinni þegar ég er að semja. Ég hef gaman af því að skrifa krimma og í kiljuformi. Það er þessi norræna glæpasagnahefð sem heillar mig. Þetta er svo skemmtilegt form þar sem hægt er að ávarpa eitthvað mein í samfélaginu. Það eru ákveðnar persónur sem fylgja bókunum mínum og halda uppi söguþræðinum. Þær þróast í gegnum bækurnar og stundum er einhver sem hefur haft lítið hlutverk í einni bók jafnvel komin með stærra hlutverk í þeirri næstu. Nýjar persónur bætast að sjálfsögðu við. Fyrir mér verða þessar persónur mjög lifandi, nánast eins og góðir vinir eða kunningjar. Nýir lesendur geta alltaf bæst í hópinn því söguþráðurinn er ferskur í hverri bók,“ segir Fritz Már og segir allar sögurnar hafa plott sem bindur söguna saman.

Plott er nauðsynlegt

„Að sjálfsögðu er alltaf plott í þessum sögum, það er í öllum góðum spennusögum. Ég eyði púðri í að hafa bækur mínar ekki of langar því mér finnst sjálfum það fráhrindandi sem lesanda að sjá þykkar bækur, sérstaklega ef ég er að kynnast nýjum höfundi. Þá er betra að bókin sé í hæfilegri lengd. Þetta er afþreying fyrst og fremst en samt gefur þessi norræna glæpasagnahefð okkur tækifæri til að skoða samfélagið í leiðinni. Ég nefni sem dæmi lögguna á Íslandi sem er öðruvísi en löggan í Ameríku en þar er meira um hetjur og byssuskot. Íslenskir lesendur okkar geta betur tengt sig við lögguna í norrænum spennusögum, þetta eru jafnvel týpur sem þeir kannast við. Eins og Jónas vinur minn sem mér þykir mjög vænt um en hann kemur fyrir í bókunum mínum. Hann er lögregluþjónn og hommi en það hefur ekki alltaf verið létt fyrir hann, sérstaklega ekki í fyrstu bókunum mínum þegar samfélagið hafði meiri fordóma gagnvart samkynhneigðum. Í dag nýtur Jónas meiri skilnings samfélagsins, allt þróast og breytist. Þegar ég er að skrifa þá birtast stundum persónur sem vilja vera með. Ég er kannski kominn í gang og þær taka yfir. Það er dálítið merkilegt hvernig þetta gerist mitt í sköpun sögunnar og ég kominn inn í söguþráðinn. Ég verð sjálfur mjög spenntur þegar ég er að semja og það má segja að ég fylgist með hvernig persónur leysa úr málum sínum. Ég verð eins og áhorfandi þótt ég viti í raun hvernig sagan endar þá er ég ekki alltaf með á hreinu allt ferðalagið, allt til enda. Ég veit í upphafi bókar hvaða lína er í gangi og ég veit hver er sekur en samt verður þetta ákveðið ferðalag fyrir mig sjálfan,“ segir Fritz og blaðamaður hrífst með.

Nýjasta bók séra Fritz Más Jörgenssonar var sem sagt að koma út hjá Uglu forlagi og nefnist hún Líkið í kirkjugarðinum, þrúgandi spenna frá fyrstu síðu eins og segir á forsíðu. Bókin fjallar um Sigrúnu sem er prestur í Reykjavík en hún fær á tilfinninguna að fylgst sé með henni. Við segjum ekki meir en minnum á útgáfuhófið 19. júní.