Mannlíf

Gerðu lag saman um vináttuna
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 2. janúar 2021 kl. 15:55

Gerðu lag saman um vináttuna

Tveir Suðurnesjamenn, Þórður Helgi Þórðarson og Jón Þór Helgason (Weekendson), gáfu út nýtt lag saman á Nýársdag sem heitir „Friends“ og er komið út á helstu veitum. Þórður Helgi eða Doddi eins og hann er kallaður syngur textann í laginu sem upphaflega átti að vera til Jóns Þórs sem var á slæmum stað vegna einangrunar og einmannaleika á veiruárinu. Á endanum gerðu þeir lagið saman með fleiri vinum.

„Textinn er heiðarlegur, „vinalegur“, einfaldur, eiginlega barnalegur sem lýsir vel okkur Jóni og okkar vináttu. Jón aðstoðaði mig fyrir nokkrum árum þegar ég var sjálfur staddur í dimmum dal og vildi ég láta hann vita að hann gæti alltaf leitað til mín þegar hann kíkti í þann dal. Upphaflega hugmyndin var að fá Jón, sem er gítarleikari, til þess að taka upp nokkra gítarhljóma og síðan ætlaði  ég að semja laglínu út frá því og gera mitt fyrsta (og eina) „shoegaze“ lag. Vandamálið var að hann veit ekkert hvað shoegaze er sem er ákveðin tegund af hávaða-popprokki svo við enduðum með þetta huggulega og  væmna lag. Það var því hálf asnalegt fyrir Jón að vera síðan með í öllu ferlinu í laginu um hann. En það lýsir kannski nokkuð vel okkar vináttu líka, við erum mjög asnalegir,“ segir Njarðvíkingurinn Þórður Helgi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þeir ákváðum því að gera lagið saman og fá með nokkra vini síni utan úr heimi í samstarfið. „Í laginu spilar Claudio frá Ítalíu á bassa,  Ricardo frá Kanada á syntha, Graham frá Englandi á trommur og Tijan frá Makedóníu sá um að mixa lagið. Þá sungu þær ÍrisEy og Inger (Ísland) með okkur bakraddir,“ segir Þórður Helgi.

Doddi og Weekendson ráðgera báðir að gefa út plötu á árinu. „Okkur fannst því tilvalið að henda í eina ballöðu saman á fyrsta degi ársins, bara svo við getum sagst  eiga „eitt af lögum ársins“ í nokkra klukkutíma.“

Hér má finna lagið en í myndbandinu sem fylgir einnig með má sjá alla sem komu að gerð þess, fólk úr fimm löndum.