Samfylkingin
Samfylkingin

Mannlíf

Gera allt til að viðhalda góðu félagslífi
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
laugardaginn 21. ágúst 2021 kl. 08:53

Gera allt til að viðhalda góðu félagslífi

Rúnar Júlíusson er nýr formaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Það má segja að Rúnar taki við kefli félagslífsins á krefjandi tímum en vegna heimsfaraldursins verður upplifun framhaldsskólanemendanna af félagslífsinu eflaust ólík upplifun flestra fyrrum FS-inga. Samkvæmt núgildandi samkomutakmörkunum er bæði nemendum og starfsfólki skylt að bera grímu þar sem ekki er hægt að virða eins metra nándarreglu en þó er heimilt að víkja frá grímuskyldunni eftir að nemendur eru sestir niður inni í skólastofu. Um viðburði á vegum skóla eða nemendafélaga gildir 200 manna fjöldatakmörkun en undanfarin ár hafa um þúsund nemendur stundað nám við FS.

Nýnemadagur FS var haldinn í byrjun vikunnar þar sem nýnemum var tvískipt í hópa vegna samkomutakmarkana en skólastarfið mun svo hefjast í lok vikunnar.

Viðreisn
Viðreisn

Hvernig er að taka við sem formaður nemendafélags í miðjum heimsfaraldri?

„Það er áskorun að sjálfsögðu. Auðvitað hefði maður óskað þess að fá Covid-laust skólaár og vonandi verður það raunin en ef ekki þá tæklum við það og markmiðið er alltaf að hafa skólaárið eins skemmtilegt og mögulegt er á hér hjá NFS.“

Er covid að hafa mikil áhrif á NFS og nemendur almennt?

„Ástandið hefur augljóslega haft áhrif á NFS og án efa á alla nemendur skólans. Skólinn hefur verið með óvenjulegu sniði og hefur kennsla verið ólík þeirri sem við erum vön. Það er mjög óhentugt fyrir framhaldsskólanema að sitja fyrir framan tölvuna heima hjá sér mánuðum saman og missa af mikilvægu félagslífi. Engin böll og ekki margt hægt að gera með allar þessar takmarkanir. Við erum búin að finna fyrir því hversu erfitt það er fyrir alla framhaldsskólanema að missa úr svona miklu á þessum skemmtilegu árum.“

Hvað er planið hjá félaginu þetta skólaárið?

„Planið er að gera gott enn betra. Við í félaginu viljum öll leggja okkar að mörkum til að gera eins skemmtilegt skólaár og hægt er. Vonandi fáum við að halda böll og viðburði án takmarkana en ef svo verður ekki viljum við hjá NFS gera skólaárið skemmtilegt fyrir alla nemendur sama hvernig fer varðandi heimsfaraldurinn. Við munum gera allt til þess að viðhalda góðu félagslífi á erfiðum tímum.“

Ef ekki væri fyrir Covid, hverju hefðirðu vilja breyta innan nemendafélagsins?

„Nemendafélagið er búið að standa sig mjög vel síðastliðin skólaár og við vildum halda því áfram. Að því sögu er þó alltaf hægt að gera gott betra. Okkur langar að halda fleiri viðburði fyrir nemendur í FS og hafa þá fjölbreytta og eins skemmtilega og hægt er.“