Mannlíf

Fyrstu jólin  hjá Skiphólsprinsessunni
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 18. desember 2021 kl. 07:07

Fyrstu jólin hjá Skiphólsprinsessunni

Kristbjörg Kamilla Sigtryggsdóttir er húsmóðir í Skiphól í Garðinum. Hún er heimavinnandi eins og sagt er, er að jafna sig eftir slys á sjó og bíður þess að komast á Reykjalund í endurhæfingu. Hún sagði sögu sína í Víkurfréttum haustið 2020 en hún hafði misst helming af blóði líkamans og hægri fótur hennar laskaðist mikið eftir árekstur slöngubáts og sæþotu úti fyrir Reykjavíkurhöfn. Bataferlið var erfitt og tók mikið á Kristbjörgu Kamillu. En það voru líka gleðistundir, því í miðjum batanum þá varð hún ófrísk af sínu fyrsta barni. Nú eru fyrstu jólin saman hjá Kristbjörgu Kamillu, Ingibjörgu Aþenu Skiphólsprinsessu og Andrési Péturssyni og því mikill spenningur.


Hvernig hagar þú jólagjafainnkaupum?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Langbest að gera þetta allt saman á netinu nýta sér Singles day, Black friday og Cyber monday. Ekkert ves, bara góður kaffibolli, rólegheit og þægileg jólatónlist. Ég fletti i gegnum Heimkaup og Hópkaup fyrir alla krakkana og athuga hvort það sé eitthvað fallegt og skemmtilegt þar annars eru það Samhentir, Lely og Progastro sem eru mínar uppáhalds, ha ha, svo eru það bara verkfæri fyrir kallinn, enda er hann þúsundþjalasmiður.

Hvað með jólaskreytingar, voru þær fyrr í ár?

Já, ég byrjaði i nóvember. Það eru fyrstu jólin hjá dóttur minni svo ég er að sjálfsögðu extra spennt.

Skreytir þú heimilið mikið?

Það er millivegur á öllu í lífinu ef það yrði of mikið þá yrði heimilið of krökkt en ég er með marglita jólaseríur í öllum gluggum, jólagardínur í eldhúsinu og jólasveinanebba á nokkrum stöðum í húsinu.

Bakarðu fyrir jólin? Áttu þér uppáhaldssmáköku?

Ég geri súkkulaðibitakökur sem eru með gróf söxuðum möndlum og suðusúkkulaði. Svo reyni ég að gera nokkrar sörur.

Eru fastar jólahefðir hjá þér?

Já, það er alltaf aligæs og hjá mömmu og við gerum alltaf sósu saman og fáum okkur sitthvort staupglasið af rauðvíni. Svo reyki ég mitt eigið hangikjöt og tvíreykt læri.

Hvernig er aðventan, eru hefðir þar? Hefur Covid verið að trufla undirbúning jólanna?

Covid hefur ekki truflað okkur neitt því við förum ekki lengra en i næsta hús og það er til mömmu annars er það bara rólegheit. Ég hef engan áhuga á æsing né ferðalögum. Ég er svo heimakær á hátíðum. Eins og ég sagði þá er það bjúgnagerð og hangikjöt sem startar jólafílingnum hjá okkur.

Hveru eru fyrstu jólin sem þú manst eftir? Áttu skemmtilega jólaminningu?

Já, jólin 1995, það voru fyrstu jólin hjá mér mömmu og fósturpabba mínum. Mig langaði svo í kórónu sem spilaði tónlist og ég fékk hana í jólagjöf.

Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

Nei það hefur aldrei tíðkast hjá mér.

Eftirminnilegasta jólagjöfin?

Klárlega kórónan, hahaha.

Er eitthvað sérstakt sem þig langar að fá í jólagjöf?

Já, ekta kokka hnífa sem ég er reyndar búin að fá.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Í ár er það aligæs á aðfangadag. Á jóladag er hamborgarhryggur eldaður í rauðvíni, lauk, hvítlauk og fersku rósmarín og timjan. Mín uppskrift.

Annan í jólum er hangikjöt sem ég verka sjálf og reyki með birki og taði. Annars skiptum við alltaf annað hvert ár, gæs og hamborgarhryggur. Í fyrra var þetta öfugt. Svona hefur þetta verið í mörg mörg ár en alltaf hangikjötið okkar á annan í jólum.