Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Frábær árangur Suðurnesja-dansara
Miðvikudagur 12. febrúar 2020 kl. 07:04

Frábær árangur Suðurnesja-dansara

Það er óhætt að segja að Danskompaní, listdansskóli Suðurnesja, hafi komið, séð og sigrað í undankeppni Dance World Cup, sem fram fór í Borgarleikhúsinu á sunnudag. Þar voru samankomnir dansnemendur alls staðar af landinu sem freistuðu þess að vinna sér keppnisrétt í Dance World Cup sem fram fer í Róm í sumar. Til þess þurfti atriði að ná að lágmarki 70 stigum og vera í fyrsta til þriðja sæti í sínum flokki. Um 20.000 dansarar frá 65 löndum taka þátt í sams konar undankeppnum og um sex þúsund dansarar vinna sér þátttökurétt í lokakeppninni.

Til að gera langa sögu stutta þá fór Danskompaní til keppni með 36 nemendur og 21 atriði sem öll lentu á verðlaunapalli og unnu sér þátttökurétt í Róm. Þar af lentu 16 atriði í fyrsta sæti, tvö atriði í öðru sæti og þrjú atriði í þriðja sæti. Vægast sagt ótrúlegur árangur og augljóslega gríðarlegur metnaður á ferð í herbúðum Danskompaní. Nú hefst undirbúningur af fullum krafti fyrir aðalkeppnina í Róm og verður spennandi að fylgjast með frammistöðu Danskompaní á stóra sviðinu.