SSS
SSS

Mannlíf

Frá Sandgerði til Búrkína Fasó
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 5. október 2024 kl. 07:00

Frá Sandgerði til Búrkína Fasó

Þúsund börn í skóla og mikil fátækt Eiginmaðurinn sækir vatn í jörðu og leggur vatnslagnir í Afríku Gamall draumur hjá Sandgerðingnum Jóhönnu Sólrúnu að fara í hjálparstarf í Afríku.

„Frá því að ég var ung dreymdi mig alltaf um að komast í hjálparstarf í Afríku, við hjónin báðum fyrir því og stuttu síðar var ég komin í mína fyrstu ferð og hef ekki litið til baka síðan,“ segir Sandgerðingurinn Jóhanna Sólrún Norðfjörð en hún hefur búið á Akureyri síðan um aldamót og er í dag forstöðumaður, eða prestur, í Hvítasunnukirkjunni á Akureyri. Árið 2010 leiddi tal hennar og eiginmanns hennar, Haraldar Pálssonar, til þess að hún fór í sína fyrstu ferð til Afríku og síðan aðra ferð árið 2015 á vegum ABC barnahjálpar og hjónin tóku síðan við því starfi í fyrra. Starf þeirra í Afríku er lyginni líkast, þau reka þar skólastarf og ekki nóg með það, Haraldur, sem er pípulagningameistari, hefur nýtt kunnáttu sína og reynslu í að gjörbylta aðstöðunni við skólann og ræktarlönd og hafa nú þúsundir fólks aðgang að vatni allan ársins hring.

Jóhanna hafði alltaf haft áhuga á kristinni trú og trúmálum og alltaf trúað á Jesú frá því að hún var lítil stelpa í Sandgerði. Hún og vinkonur hennar kynntust Halldóru Ottósdóttur sem stýrði starfi KFUM og KFUK (Kristilegt félag ungra manna og kvenna), fyrst í Sandgerði og síðar í Keflavík. Halldóra bauð vinkonunum heim til sín, bað með þeim og kynnti þær fyrir Jesú og Biblíunni. Jóhanna komst á bragðið, tók í kjölfarið þátt í öllu kirkjustarfi sem börnum og unglingum stóð til boða og það gerði hún einnig áfram inn í fullorðinsárin og alltaf blundaði í henni sú þrá að taka þátt í hjálparstarfi en tók aðra stefnu í lífinu til að byrja með. Hún kynntist núverandi eiginmanni sínum, Haraldi Pálssyni, árið 1997. Þau komu bæði með börn inn í hjónabandið, hann með tvö og hún með þrjú, og saman eignuðust þau eitt, þannig að börnin eru sex talsins og barnabörnin orðin tíu. Þau stofnuðu pípulagningafyrirtækið Áveitan ehf. í lok árs 1997 og hófu starfsemi á Suðurnesjum. Þegar verkefni kom upp í hendurnar á þeim norðan heiða ákváðu þau að venda kvæði sínu í kross og fluttu til Akureyrar, þaðan sem Haraldur er. Fyrst átti dvölin bara að vera eitt sumar, Jóhanna samþykkti að prófa einn vetur og á Akureyri er Sandgerðingurinn ennþá og unir hag sínum vel, hún er meira að segja farin að tala norðlensku eins og innfæddur Akureyringur.

Skírn og blessun

„Ég var með heimþrá fyrstu þrjú árin og stóð á krossgötum má segja, ákvað að hugsa málið vel og fór suður og var í viku. Ákvað eftir það að hag mínum og fjölskyldunnar væri best borgið fyrir norðan og hér er ég enn. Ég vann fyrst eingöngu við fjölskyldufyrirtækið, sá um bókhaldið og fjármálin og stýri þeim málum áfram að einhverju leyti og hef oftast unnið ýmis önnur störf samhliða, en frá árinu 2019 hef ég verið forstöðumaður, eða prestur, Hvítasunnukirkjunnar hér á Akureyri. Það er ekki skilyrði að hafa menntun úr guðfræðinni til að geta verið prestur í Hvítasunnukirkju en það þarf að hafa góða þekkingu á Biblíunni og auðvitað að trúa því að Jesús er Drottinn. Grundvallarkenningar kristninnar eru þær sömu í Þjóðkirkjunni og Hvítasunnukirkjunni, sýnilegasti munurinn er í raun sá að Þjóðkirkjan er með barnaskírn og fermingu en Hvítasunnukirkjan með barnablessun, unglingablessun og niðurdýfingarskírn. Jesús var skírður niðurdýfingarskírn, þá fer allur líkaminn undir vatnið og við í Hvítasunnukirkjunni gerum eins og Jesús bauð okkur að gera. Við barnablessun tökum við barnið í fangið og blessum það og það hefur síðan val síðar á lífsleiðinni um hvort það vilji taka skírn eða ekki. Ég ólst upp í Þjóðkirkjunni og var skírð og fermd þar en tók síðan niðurdýfingarskírn í Hvítasunnukirkjunni árið 2008. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á trúmálum og hjálparstarfi og var ekki gömul þegar mig dreymdi um að komast í hjálparstarf í Afríku. Ég undi hag mínum vel innan Þjóðkirkjunnar en eftir að dóttir mín hafði kynnst starfi Hvítasunnukirkjunnar og fékk mig til að prófa að koma á samkomu, þá fann ég að ég var komin heim. Það er alveg sami boðskapur í kirkjunum, sami Guð, sami Jesú og sama Biblían, svo í raun trúum við því sama en segja má að Hvítasunnukirkjan tali meira um heilagan anda og kirkjan heitir þessu nafni, Hvítasunnukirkja, því Jesús úthellti heilögum anda á hvítasunnudegi. Það heillaði mig á sínum tíma að fá að heyra meira um heilagan anda og að geta sjálf tekið ákvörðun um skírn í vatni. Biblían talar um tvenns konar skírn, þ.e. skírn í vatni og skírn í heilögum anda. Ég skírðist í heilögum anda og tók niðurdýfingaskírn eins og tíðkast hjá okkur og líður mjög vel með það. Fljótlega eftir það var ég komin vel inn í starf kirkjunnar og í stjórn. Ég hef alltaf tekið virkan þátt í félagsstarfi, hvort sem það viðkemur trú, kirkju eða bæjarmálum, og eftir breytingar hjá Hvítasunnukirkjunni hér á Akureyri var leitað var til mín um að taka við forstöðu og eftir að hafa leitað Guðs var ég vissi um að það var það rétta í stöðunni og hef sinnt því hlutverki frá árinu 2019 með góðum stuðningi eiginmannsins.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Heilagur andi sannfærði eiginmanninn

Hvítasunnukirkjan sinnir öllum sömu athöfnum og aðrar kristnar kirkjur en er ekki á fjárlögum eins og Þjóðkirkjan. Allt starfið er rekið fyrir frjáls framlög, tíund og gjafir, en kirkjan fær sóknargjöld eins og önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Þar sem Jóhanna hafði alltaf sýnt trúmálum áhuga og hún hafði áhuga á Biblíunni og guðfræðinni, lá kannski beinast við að hún myndi koma að starfi Hvítasunnukirkjunnar. Eftir að leiðin lá þangað og má segja að hún sé heldur betur búin að finna sína fjöl. Eiginmaður hennar hafði misst fyrri eiginkonu sína vegna veikinda og var reiður Guði, hann var alls ekki á leið í Hvítasunnukirkjuna en merkilegur atburður sneri honum á staðnum.

„Meðlimir Hvítasunnukirkjunnar og aðrir kristnir hittast alltaf um verslunarmannahelgina á Kotmóti og fer þar fram ýmiskonar dagskrá í fimm daga. Það var haustið 2008 að við fórum í Kirkjulækjarkot í Fljótshlíðinni þar sem Hvítasunnukirkjan hefur byggt upp mjög góða aðstöðu og stórt húsnæði til samkomuhalda. Haddi ætlaði alls ekki að fara en samþykkti að skutla okkur börnunum og hjálpa okkur að tjalda, sjálfur ætlaði hann að nota tímann og hjóla á mótorhjólinu sínu. Hann ákvað síðan að vera eina nótt og var svo alltaf á leiðinni að fara í bæinn en alltaf frestaði hann brottför án þess að vita út af hverju. Á laugardagskvöldinu var samkoma hjá okkur og allir viðstaddir fundu fyrir úthellingu og nærveru heilags anda. Haddi fann heldur betur fyrir þessu líka, spratt upp úr sætinu, fann fyrir þessum rosalega krafti sem við gátum ekki útskýrt þá og spurði mig hvað væri í gangi og hvort ég fyndi fyrir þessu. Já! Allir fundu það sem gerðist og á þessum tímapunkti áttaði hann sig á að Guð væri raunverulegur. Þegar við tökum trú á Jesú og fyllumst heilögum anda tölum við um að frelsast. Ég hafði oft verið spurð hvort ég væri frelsuð en ég svaraði að ég vissi það ekki, vissi bara að ég trúði á Jesú. Það er ekki fyrr en ég skírðist í heilögum anda í byrjun árs 2008 sem ég frelsast. Á þessum tíma var ég að ganga í gegnum alvarleg andleg veikindi og ég fékk lækningu fyrir fyrirbæn. Haddi frelsaðist í ágúst 2008 og síðan þá höfum við ekki litið til baka og má segja að þessi ákvörðun okkar hafi leitt okkur inn í næsta kafla í lífi okkar,“ segir Jóhanna.

Jóhanna Sólrún Norðfjörð og Haraldur maður hennar.

ABC hjálparstarf

Frá því að Jóhanna var ung og heyrði frá kristniboðum í KFUK af hjálparstarfi í Afríku, dreymdi hana alltaf um að geta látið gott af sér leiða þar. Hún og Haraldur fóru á Alfa-námskeið árið 2009 en fyrir þá sem ekki vita þá er Alfa-námskeið kennsla um Guð og kristna trú. Á námskeiðinu voru allir spurðir hvað þau hafi langað að verða þegar þau yrðu stór og hvað þau væru að gera í dag. Jóhanna sagði frá þessum draumi sínum um hjálparstarf í Afríku og starfaði dags daglega við bókhald. Á leiðinni heim af námskeiðinu spurði Haraldur konu sína nánar út í þennan draum.

„Ég sagði Hadda að þetta væri gamall draumur en hann yrði ekki að veruleika úr þessu. Haddi hélt nú ekki: „Ef Guð ætlar þér að fara til Afríku þá opnar hann þér leiðina þangað,“ sagði hann. Við báðum fyrir þessu þetta kvöld og það var ekki að sökum að spyrja, tveimur vikum seinna kom hópur nemenda úr Bíblíuskóla í Reykjavík í heimsókn og við buðum þeim heim til okkar í mat eftir að hafa átt stund með þeim í kirkjunni. Þau voru á leiðinni til Afríku eftir áramótin og við matarborðið spyr ein stúlknanna mig af hverju ég komi ekki bara með þeim til Afríku. Andlitið datt næstum af mér og ég spurði hvort ég gæti komið með og það var slegið þarna á staðnum. Þessi kvöldstund var haustið 2010 og í janúar 2011 fór ég með þeim til Kongó. Það var hreinlega magnað að koma þangað eftir mjög langt og strangt ferðalag og við vorum þar í sautján daga. Þremur árum síðar sá maðurinn minn auglýstan Biblíuskóla í Fljótshlíðinni, innifalin var ferð til Búrkína Fasó í Afríku og hvatti hann mig til að skrá mig. Ég sagðist vera til í að fara í Biblíuskólann en sagði honum að ég væri ekki tilbúin til að fara aftur án hans til Afríku og vildi fá hann með mér. Þetta var ekki draumurinn hans og hann sagðist ekki ætla fara. Þá sagði ég honum að þar með væri ég ekki heldur að fara. Sumir gætu haldið fram að þar með hefði ég stillt honum upp við vegg en þetta var einfalt í mínum huga, ég var ekki að fara að starfa ein í hjálparstarfi í Afríku. Sannfæringakraftur minn var greinilega nægur og hann sagðist vera til í að fara þessa einu ferð en þar sá hann fljótlega að þarna gæti reynsla hans og þekking sem pípulagningameistari heldur betur komið að góðum notum.“

Heimamenn í knattspyrnubúningi Keflvíkinga sem þeir fengu senda til Afríku.

Fjölmenni og fátæk

Búrkína Fasó er eitt fátækasta ríki heims. Það er í Vestur-Afríku, íbúar þess eru 22,6 milljónir og ólæsi er með því hæsta sem gerist í heiminum. Landið var nýlenda Frakka en fékk sjálfstæði árið 1960 og í dag ríkir þar herstjórn. Í landinu eru töluð rúmlega sjötíu tungumál, franska varð opinbert mál á nýlendutímanum en hana tala eingöngu menntaðir íbúar.

ABC barnahjálp hefur rekið skólann Ecole ABC de Bobo í borginni Bobo-Dioulasso, sem er næststærsta borg landsins en þar búa nú um ein og hálf milljón íbúa. Skólinn var stofnaður árið 2008 af hjónunum Hinriki Þorsteinssyni og Guðný Ragnhildi Jónasdóttur, að beiðni Guðrúnar Margrétar Pálsdóttur sem stofnaði ABC barnahjálp á Íslandi. Jóhanna og Haraldur tók svo við rekstri skólans í fyrra.

Skólinn er rekinn í góðu samstarfi við öflugt foreldrafélag og þar starfa góðir kennarar sem hafa einn af öðrum einnig verið að bæta við menntun sína. Stefnan er að ABC skólinn verði sá besti á svæðinu og hefur hann verið að koma mjög vel út í samanburði við aðra skóla og er þegar einn af bestu skólunum í borginni. Í skólastarfinu er farið eftir námskránni í Búrkína Fasó auk þess sem einnig er öflugt íþróttastarf og tónlistarkennsla ásamt því að nú er meiri áhersla lögð á ensku og tölvukennslu sem sjaldgæft er á þessu svæði. Hjónin, sem eru einmitt úti þessa dagana, hafa fengið til liðs við sig góðan vin, Adam Ásgeir Óskarsson, sem er í sinni fjórðu ferð en hann hefur gert byltingu í tölvumálum skólans og nú hafa allir háskólanemarnir fengið afhentar tölvur að gjöf til náms, sem þau annars ættu alls ekki möguleika á að eignast.

„Við höfum fengið gríðarlega góðan liðsauka og stuðning frá börnunum okkar og  nokkrum vinum okkar heima á Íslandi, sem hafa komið með okkur út og sumir komið með í margar ferðir.

Þegar skólinn var stofnaður í upphafi voru 98 börn skráð í skólann. Við erum að taka á móti nýjum börnum þessa dagana, 60 fjögurra ára gömul börn auk 153 eldri barna og eftir það verða börnin orðin rúmlega 1200, frá fjögurra ára aldri upp í háskóla,“ segir Jóhanna.

Skóli og vatn

Þau Hinrik og Guðný keyptu land fyrir nokkrum árum sem þau afhentu foreldrafélaginu til ræktunar og þar er ræktað ýmiskonar grænmeti fyrir börnin sem fá eina máltíð á dag í skólanum. Þegar Haraldur sá hvað hægt var að gera með auknu aðgengi að vatni þá var í hans huga ekki spurning um að fara fleiri ferðir til Búrkína og taka þátt í að byggja upp svæðið og miðla sinni þekkingu sem pípari.

Skólinn er rekinn að stærstum hluta fyrir styrktarfé sem kemur frá íslenskum fjölskyldum sem hafa tekið að sér að styrkja börnin, auk þess sem ýmsir styrkir hafa borist, bæði frá íslenska ríkinu og einstaklingum, bæði íslenskum og annarstaðar frá. Jacobs Well, sem er hjálparstarf í Englandi, hefur lagt mikið til starfsins með sendingum þaðan en þau hafa sent marga gáma með ýmsum búnaði fyrir skólann sem hefur komið sér einstaklega vel. 

„Mikil ásókn er í skólann og mörg börn sem því miður komast ekki að. Nemendur eiga það allir sameiginlegt að búa í fátækrahverfinu Quenszville, sem er í útjaðri borgarinnar, og eru það aðeins örfá börn þar sem ganga í skóla. Reynt er að dreifa hjálpinni á sem flestar fjölskyldur með því að gefa einu barni úr hverri fjölskyldu tækifæri til að ganga í skóla. Hjálpin nær einnig til fjölskyldunnar þegar eitt barnið fær menntun, eina fría máltíð á dag auk læknisþjónustu sem einnig er í boði, því á skólalóðinni höfum við einnig heilsugæslu.

Heimili barnanna eru í flestum tilvikum pínulitlir leirkofar, eitt til tvö rými og margir í heimili. Sumir hafa salerni sem er þá hola fyrir utan kofann og eldað er á hlóðum úti, sem reynist erfitt á regntímanum. Margir þurfa að ganga langan veg eftir vatni og aðeins örfáir hafa rafmagn. Flestir foreldrarnir eru atvinnulausir en reyna oftast að rækta örlítið fyrir utan heimili sín, sem aðeins er hægt á regntímanum. Í þeim tilvikum er faðirinn sagður bóndi og móðirin húsmóðir.

Skólinn býður upp á, auk bóklegrar kennslu, praktískar iðngreinar eins og saumakennslu og málmsmíði auk þess sem einnig hefur verið kennd bifvélavirkjun þegar áhugi er fyrir hendi. Í saumadeildinni eru m.a. allir skólabúningar nemenda saumaðir. Við útskrift fá allir nemendur afhenta saumavél að gjöf og geta stofnað sína eigin saumastofu með réttindi til að taka að sér nemendur og halda þannig áfram að miðla þekkingunni og efla atvinnusköpun á svæðinu.

Kennarar og starfsfólk skólans er einstaklega gott fólk sem starfar af mikilli hugsjón og bera allir hag barnanna og fjölskyldna þeirra fyrir brjósti. Í skólanum ríkir mikil vinátta og samheldni og þrátt fyrir erfiðar aðstæður er alltaf stutt í hláturinn. Í skólanum erum við eins og ein stór fjölskylda og er okkur Hadda alveg einstaklega vel tekið.“

Haraldur hefur nýtt reynslu sína og kunnáttu sem pípulagningarmaður til að bora eftir vatni en stutt er niður á grunnvatn á svæðinu. Hér er hann að fylla á einn af nokkrum vatnstönkum við framhaldsskólann, sem inniheldur drykkjarvatn og vatn til handþvotta til að auka hreinlæti.

Hvað fær fólk til að venda kvæði sínu svona rækilega í kross?

„Það er köllun að sinna þessu starfi. Í áratugi fannst mér þetta bara vera fjarlægur draumur en þarna gafst tækifærið, fyrst árið 2010 og síðan aftur árið 2015 þegar við kynntumst Gullý og Hinriki og tókum fyrst þátt í starfinu í Búrkína Fasó og höfum gert síðan. Á þeim tíma fórum við í alls konar framkvæmdir ásamt hópnum sem var með okkur. Það var mikið af byggingum sem þurfti að dytta að og við brettum upp ermarnar og gerðum það sem við gátum. Eftir þessa fyrstu ferð sá maðurinn minn hvað það er margt sem hægt er að gera til að bæta ástandið í þessu fátæka landi og hvað það er mikið sem við getum lagt af mörkum og það var ekki aftur snúið. Haddi sá þörfina á því að hafa reglulegan aðgang að vatni allt árið um kring. Rigningatímabilið í Búrkína Fasó er bara einu sinni á ári og svo skrælnar allt þess á milli og þá á fólk í erfiðleikum með að rækta grænmeti og þar með að brauðfæða fjölskylduna,“ segir Jóhanna.

Jóhanna eignaðist nöfnu úti í Búrkína Fasó. Hér er hún með fallegu stúlkunni sem var nefnd í höfuðið á henni og fékk nafnið Johanna Judith. Myndir/Adam Ásgeir Óskarsson

Þúsund börn í skólanum

Hjónin hafa rekið pípulagningafyrirtækið Áveituna á Akureyri í 27 ár og Haraldur sá strax að hann gæti aðstoðað mikið með sinni reynslu, m.a. í pípulögnum. Eftir fyrstu ferðina fór hann strax um haustið sama ár aftur til Búrkína Fasó og hóf vinnu við að dæla upp vatni og leggja áveitulagnir á ræktunarlönd, ásamt því að koma vatni sem víðast að á skólalóðinni.

„Það virtist vera frekar stutt niður á grunnvatn þarna svo Haddi sá að það væri góður möguleiki að ná í vatn og dreifa því á ræktunarsvæðin. Vatn er grunnurinn að öllu lífi og einnig nauðsynlegt varðandi allt hreinlæti. Hann fylltist eldmóði fyrir verkefninu og frá þessari fyrstu ferð í febrúar árið 2015 er hann núna búinn að fara margar ferðir til  Búrkína Fasó og ferðirnar eiga eftir að verða fleiri, við erum bara rétt byrjuð. Landið er auðugt af vatni, það er þarna skammt undir yfirborðinu en það skorti á þekkingu til að sækja það og heimamenn höfðu heldur ekki tækni né fjármagn til þess. Við hófumst handa við að leggja áveitu- og neysluvatnslagnir og skapa þannig betri hreinlætisaðstöðu fyrir skólabörnin og tækifæri á að koma upp ræktunarlandi sem gefur af sér allt árið. Vatnsveituverkefnið skiptir mjög miklu málið fyrir samfélagið, enda þætti mörgum Íslendingum furðulegt að hafa ekki aðgang að vatni svo mánuðum skipti. Það breytir öllu varðandi skólastarfið, bæði varðandi hreinlæti og ræktun á mat, að geta haft aðgang að vatni alla daga og allan sólarhringinn. Fyrir fjölskyldurnar sem eru í kring og eiga börn, er þetta bylting. Það eru yfir ellefuhundruð börn í skólanum og í hverri fjölskyldu eru kannski fimm, sex og upp í tíu aðilar þannig að verkefnið er að hjálpa til við að metta u.þ.b. tíu þúsund manns.“

Blómleg ræktun

Foreldrafélag ABC skólans hefur aðgang að ræktarlandinu, sem er kallað Lífland og er skammt frá skólabyggingunni. Foreldrarnir sjá alfarið um ræktunina á landinu en auk þess er stunduð svína- og hænsnarækt þar. Það sem ræktað er þarna allt árið um kring er mikil búbót fyrir skólann sem þarf þá ekki að kaupa eins mikið af mat, sem er þó enn mikið magn. Tvisvar á ári eru matargjafir til fjölskyldna barnanna og koma þær til vegna gjafa annars staðar frá. Vegna vatnsveituverkefnisins er Lífland blómlegt ræktunarsvæði í dag og þar er líka rekið stúlknaheimili þar sem rúm er fyrir átján stúlkur, sem eiga það sameiginlegt að búa við mjög erfiðar aðstæður og misjafnt er hve margar dvelja þar hverju sinni.

Gósenland

Árið 2021 fékk Áveitan ehf. styrk úr Heimsmarkmiðasjóði utanríkisráðuneytisins til að byggja upp ræktarland í ætt við Lífland og rækta þar landbúnaðarafurðir, fjölga störfum og bæta lífskjör heimamanna, þar sem hægt er að ná nokkrum uppskerum yfir árið. Áður hafði foreldrafélag skólans haft aðgang að þessu landi til þess að rækta maís á regntímanum.

Haraldur, ásamt þeim Jóni Sverri Friðrikssyni og Guðjóni Norðfjörð auk Hinriks Þorsteinssonar, settu verkefnið, sem fékk nafnið Gósenland, af stað. Nú er búið að byggja varnarvegg kringum landið, bora eftir vatni, koma fyrir dælum og reisa vatnsturna á svæðinu. Rafmagnið er fengið úr sólarsellum sem tengjast vatnsdælunum til að tryggja bæði rafmagn og sjálfbærni áveitunnar og ræktunin er komin á fullt.

Starfsmaður ABC skólans sækir vatn við heimili sitt í brunn sem er sameiginlegur með nágrönnunum í einu af hverfunum.

Ótryggt ástand í landinu og nýbygging framhaldsskóla

Hvernig finnst Jóhönnu að aðlagast svona ólíku samfélagi og hvernig sér hún nánustu framtíð fyrir sér?

„Fyrsta hugsunin er að ekkert hafi verið erfitt því í rauninni gengur starfið okkar svo vel og allt eru þetta verkefni sem við leysum. Það sem er þó erfiðast núna er ástandið í landinu en frá árinu 2015 hefur staðan verið mjög óstöðug vegna hryðjuverkaógnar og pólitísk staða í Búrkína Fasó er ótrygg. Í dag er herstjórn í landinu eftir að forsetanum var steypt af stóli og heimamenn líta á herforingjann sem forseta. Við erum að taka við mjög góðu búi frá Guðnýju og Hinriki en starf þeirra í Búrkína Fasó er ekkert minna en þrekvirki og gríðarleg vinna sem þau hafa unnið í að búa til þetta góða tengslanet sem við höfum á staðnum. Þetta er eitt stórt kraftaverk. Þegar Hinrik og Gullý kölluðu okkur á sinn fund og spurðu hvort við vildum taka við starfinu af þeim, þá vorum við undirbúin og vissum hvað var framundan og vorum tilbúin. Hinrik og Guðný hafa tengt okkur hópnum sem þau hafa verið að vinna með en þau hafa verið í Búrkína Fasó stóran hluta úr árinu og þekkja svæðið og menninguna betur en flestir. Skólinn hefur stækkað hratt og börnunum fjölgað og nú hefur hann sprengt utan af sér húsnæðið og höfum við hafist handa við að byggja rúmlega eitt þúsund fermetra byggingu við framhaldsskólann, það fjölgar alltaf með hverju árinu þeim nemendum sem klára framhaldsskólann og vilja hefja háskólanám. Til þess að þetta sé mögulegt þá þurfum við á enn frekari stuðningi að halda frá fólkinu okkar hér heima á Íslandi og hefur ABC þegar fengið styrk fyrir hluta byggingarinnar frá Íslenska ríkinu og svo er það okkar að leita leiða fyrir því sem uppá vantar til þess að klára bygginguna.

Jóhanna og Haraldur eru úti í Búrkína Fasó þessa dagana. Hérna eru þau ásamt samstarfsfólki, við hlið Jóhönnu er Þórey Edda Vilhelmsdóttir sem fór með núna í fyrsta sinn, Haraldur Pálsson, eiginmaður Jóhönnu, og Adam Ásgeir Óskarsson, fyrrverandi tölvukennari við Verkmenntaskólann á Akureyri. Í heildina verða þau úti í fimm vikur í þessari ferð.

Það er ekki sami hraðinn í Búrkína Fasó og á Íslandi. Þegar við komum á staðinn, þá gírum við okkur niður og förum á þeirra hraða. Svo tekur allt lengri tíma, m.a. út af tungumálinu en talið er að rúmlega sjötíu tungumál séu töluð í landinu. Það er kannski einn í hópnum sem talar ágæta ensku en svo ef allt þrýtur þá er bara notað handapat og bros og það fleytir okkur langt. Þrátt fyrir þessa miklu fátækt er fólkið mjög lífsglatt og brosmilt, sem gerir allt samstarf miklu auðveldara. Við lærum líka mikið af þeim og njótum augnabliksins. Það er líka svo mikil vinátta í skólanum og mikið hlegið og góð samstaða. Þetta er ekki bara skóli, heldur ein stór samheldin fjölskylda. Við hlökkum til komandi ára með þessu yndislega fólki. Við sjáum hvað það skiptir miklu máli að hafa aðgang að vatni og það hefur aukið hreinlæti og einnig mataröryggi fólksins þegar þau geta ræktað matvæli allt árið. Heimamenn hafa aðgang að landinu og við komum með þekkinguna og miðlum henni áfram. Allir sem starfa á svæðinu hafa verið mjög áhugasamir og drekka í sig alla þekkingu og nýjungar og sjáum við framfarir hjá iðnaðarmönnum og verktökum í hvert skipti sem við komum aftur. Okkur er mikið í mun að skilja þekkinguna eftir í landinu. Um það snýst málið að stórum hluta, að heimamenn geti séð sér og sínum farborða í erfiðu landi. 

Þetta hefur verið ofboðslega gefandi fyrir okkur fjölskylduna og við hlökkum mikið til framtíðarinnar í Búrkína Fasó,“ sagði Jóhanna að lokum.

Ef fólk hefur áhuga á að styðja við verkefnið þá er mjög mikil hjálp í því að styðja barn til náms. Það kostar aðeins kr. 3.800,- á mánuði.

Hér er slóðin inn á börnin í Búrkína Fasó: