HS Veitur
HS Veitur

Mannlíf

Forréttindi að byggja í Garðinum
Sveinbjörn Bragason, Bára Bragadóttir, Bragi Guðmundsson, Valgerður Þorvaldsdóttir og Pétur Bragason eftir að Bára hafði tekið fyrstu skóflustunguna að Báruklöpp.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 25. desember 2021 kl. 08:59

Forréttindi að byggja í Garðinum

– segir Bragi Guðmundsson, byggingaverktaki til 40 ára, í viðtali við Víkurfréttir

Bragi Guðmundsson ehf. er byggingaverktakafyrirtæki í eigu feðganna Braga Guðmundssonar og Sveinbjörns Bragasonar. Þeir feðgar hafa verið afkastamiklir í húsasmíði í Garðinum og reyndar víðar síðustu ár. Bragi hefur verið byggingaverktaki í fjóra áratugi en Sveinbjörn sonur hans er alinn upp í smíðunum með pabba sínum og kom inn í reksturinn fyrir nokkrum árum. Fleiri úr fjölskyldunni koma að rekstrinum á einn eða annan hátt. Pétur Bragason teiknar húsin fyrir föður sinn og Bára Bragadóttir starfar einnig hjá föður sínum og bræðrum, því þegar hún er ekki að smíða, þá aðstoðar hún Þorvald bróður sinn á tannlæknastofu hans í Keflavík. Þá sér Valgerður Þorvaldsdóttir, eiginkona Braga, um bókhaldið.

Eins og við sögðum frá í Víkurfréttum í síðustu viku þá tók Bára Bragadóttir fyrstu skóflustunguna að fyrstu íbúðum Braga Guðmundssonar ehf. við Báruklöpp í Garði en það gata í Klappa- og Teigahverfi í Garði í Suðurnesjabæ. Þar mun mun Bragi Guðmundsson ehf. byggja samtals tuttugu og fjórar íbúðir í rað- og parhúsum. Bragi segir að nafn götunnar, Báruklöpp, vera skemmtilega tilviljun. Móðir hans hét Bára og þá heiti dóttir hans því nafni og því ekkert annað komið til greina en að hún myndi taka fyrstu skóflustunguna. Við Báruklöpp verða tuttugu og fjórar íbúðir í rað- og parhúsum.

Hvað stendur til hérna, eru bara stórframkvæmdir framundan?

Bragi: „Við ætlum að leggja undir okkur tuttugu og fjórar íbúðir í þessari götu, Báruklöpp, nafni sem móður mín hét en það var bara tilviljun að það kom upp.“

Hvernig íbúðir eru þetta?

Bragi: „Þetta eru tólf íbúðir sem eru í raðhúsum án bílskúrs en hinar íbúðirnar eru í parhúsum með bílskúrum. Við erum að breyta um stíl og taka upp alveg nýjan stíl.“

Hvað segir þú mér um þennan nýja stíl?

Bragi: „Þetta er orðið svo einsleitt, við ætlum bara að breyta um stíl. Við vorum búnir að byggja svo mikið af svipuðu húsum að okkur langar að breyta til. Ætlum að byggja vistvæn hún með gras á þakinu, aðeins að leggja metnað í þetta.

Það er svolítið myndarlegt að taka heila götu, hvernig er það hugsað?

Sveinbjörn: „Við ætlum að vinna með heildarmynd af götunni og klára hana frá A til Ö þannig að heildarmynd götunnar sé góð.“

Hvað áætlið þið að þetta taki langan tíma?

Sveinbjörn: „Við áætlum að taka þetta á tveimur árum.“

Fasteignamarkaðurinn er náttúrlega búinn að vera mjög góður?

Sveinbjörn: „Já, það er mikið mikið trukk á honum.

Er unga fólkið að koma í Garðinn eða er þetta blandað?

Bragi: „Þetta er mikið blandað þar sem við höfum byggt í hverfi hér utar í Garðinum ofan við Útskála og þar eru nú komnar í sjötíu og eitthvað íbúðir í heilu hverfi sem við erum búnir að byggja upp á nokkrum árum. Það er þó nokkuð af fólki sem er að koma úr Reykjavík, bara fullorðið fólk sem sér tækifærin í að selja á höfuðborgarsvæðinu og kaupa fasteign hér suður með sjó. Svo er náttúrlega líka komið hingað ungt fólk, þannig að þetta er góð blanda.“

Verið að frá 1980

Hvað ertu búin að vera lengi í fyrirtækjarekstri sem byggingaverktaki?

Bragi: „Ég er búinn að vera að síðan 1980, stanslaust og hef upplifað ýmislegt. Þetta byrjaði eiginlega þegar ég byggði húsið mitt 1978 og það má segja að ég hafi verið sjálfstæður byggingaverktaki síðan.“

Er þessi vinna búin að breytast mikið á þessum tíma?

Bragi: „Já, hún er allt öðruvísi. Bara eins og uppsláttur á húsum, það er ekki timbur lengur, þetta eru bara flekar og kranar. Þetta er léttara á hendinni miðað við hvernig þetta var og miklu fljótlega.“

Það er orðið mjög algengt í dag að íbúðir eru fullkláraður og fólk flytur inn og þarf ekkert að taka með sér nema bara kaffikönnuna og rúmfötin?

Bragi: „Ég skila mínum verkum þannig í dag að það er allt búið og ég fer bara með blómvönd og set hann á eldhúsborðið og húsið er allt klárt, ekki einn nagli eftir. Ég get orðað það þannig að lífsþorstinn hjá okkur feðgum er í því að klára hlutina.“

Ertu búinn að vera heppinn í gegnum tíðina með reksturinn?

Bragi: „Ég hef verið mjög heppinn og alltaf nóg að gera. Það hefur eiginlega ekki dottið dagur úr alla tíð en við erum náttúrulega alltaf að skapa verkefni samhliða öðru eins og þetta. Þannig tökum við sveifluna í þessu ef annað dettur niður. Við ætlum núna að halla okkur aðeins meira út í þessa hlið en vera ekki út um allt eins á landafjandi.“

Hvernig er að vera búinn að vera í fyrirtækinu með föður sínum?

Sveinbjörn: „Það er bara mjög gott og búið að reynast mjög vel.“

Það er ýmislegt sem þarf að gera?

Sveinbjörn: „Það er af mörgu að taka, það er bara svoleiðis, það fylgir rekstri“

Bára tók skóflustungu að Báruklöpp

Bára Bragadóttir, dóttir Braga og stóra systir Sveinbjörns, tók fyrstu skóflustunguna að Báruklöpp á stórvirkri vinnuvél frá Gröfuþjónustu Tryggva Einarssonar miðvikudaginn 1. desember sl. Jarðvinnan undir fyrsta húsið var kláruð strax í síðustu viku og hafist var handa við sökkul hússins í síðustu viku „og þá er þetta bara komið á fullan skrið,“ segir Sveinbjörn.

Þú ert ungur maður, ertu sammála því að að að kröfurnar eru orðnar aðrar í dag í svona íbúðum?

Sveinbjörn: „Það eru mjög miklar kröfur í dag, maður sér það. Það er alveg greinilegt að fólk vill hafa allt tipp topp og það fara fáir inn í húsin hálfkláruð eins og var víst í gamla daga.“

Það eru alltaf að koma upp einhver vandamál með raka, myglu í húsbyggingumð. Hvernig stendur á þessu?

Bragi: „.Þetta hefur ekki komið upp hjá okkur. Við byggjum á gamla mátann og okkar metnaður er í því að við kaupum yfirleitt allt í nærumhverfi. Við hugsum um heildarmyndina, við verðum að lifa á hvor öðrum.“

Er verið að byggja of hratt?

Bragi: „Sums staðar en yfirleitt er þessi mygla útaf loftleysi í húsum, það er bara svoleiðis. Við steypum húsin, pússum þau og einangrum á gamla mátann og erum lausir við þennan vanda.“

Bragi ásamt myndarlegum hópi starfsmanna sinna framan við nýbyggingu Nesfisks í Gerðum í Garði.  Myndin var tekin í árslok 2013. „Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að Nesfiskur hefur notað okkur svakalega mikið og það er bara gott mál,“ segir Bragi.Ætlaði að verða innréttingasmiður

Bragi Guðmundsson er með áratuga reynslu í húsbyggingum. Sjálfur ætlaði hann fyrst að verða innréttingasmiður en eitt leiddi af öðru og áður en hann vissi af var hann farinn að slá upp mótum og steypa hús. Í dag er meira og minna öll fjölskyldan starfandi í fyrirtækinu. Sveinbjörn á fyrirtækið með föður sínum, Pétur er verkfræðingurinn í fjölskyldunni og sér í dag um að teikna þau hús sem eru byggð. Eiginkona Braga, Valgerður Þorvaldsdóttir, sér um bókhaldið og dóttirin, Bára, vinnur hjá fyrirtækinu þegar hún er ekki að aðstoða á tannlæknastofu Þorvaldar bróður síns í Keflavík.

Bragi segir að það hafi gengið vel að fá bæði iðnaðarmenn og undirverktaka í gegnum tíðina. Bragi og Sveinbjörn eru með um fimmtán manns í vinnu en með undirverktökum telur hópurinn um 40 manns að staðaldri. Eitt stærsta verk Braga Guðmundssonar ehf. um þessar mundir er að ljúka framkvæmdum á viðbyggingu við Gerðaskóla. Verkið felst í að byggja 1.260 m² viðbyggingu við Gerðaskóla í Suðurnesjabæ. Um er að ræða steypt hús á tveimur hæðum. Viðbyggingin mun tengja saman Gerðaskóla og íþróttamiðstöðina í Garði. Verkinu var áfangaskipt þannig að fyrri áfangi var kláraður í ágúst síðastliðnum en lokaáfanganum verður lokið fyrir næsta haust.

Bragi og hans fólk hefur byggt fjöldan allan af íbúðarhúsnæði í Garðinum síðustu áratugi. Þá hefur Bragi einnig byggt talsvert fyrir sveitarfélagið eins og t.a.m. húsnæði byggðasafnsins á Garðskaga. Þá segist Bragi einnig hafa náð að vera lægstur í flestum útboðum sveitarfélagsins.

Byggt fyrir Nesfisk

Undanfarin ár hafa þeir Bragi og Sveinbjörn einnig verið með sína menn í byggingu atvinnuhúsnæðis. Tvö nýleg fiskvinnsluhús í Sandgerði eru þeirra verk, þurrkunarstöð Háteigs á Reykjanesi er byggð af þeim. „Þá hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að Nesfiskur hefur notað okkur svakalega mikið og það er bara gott mál,“ segir Bragi. Fiskvinnsluhús Nesfisks í Gerðum er meira og minna allt byggt af Braga Guðmundssyni ehf. en húsnæði Nesfisks hefur verið að stækka jafnt og þétt á þeim stað síðustu ár. Stórbruni varð hjá Nesfiski árið 1987 þegar gamalt frystihús sem stóð í Gerðum brann. Ráðist var í mikla uppbyggingu á staðnum sem staðið hefur fram á þennan dag.

Mannskapur af svæðinu

Það hefur loðað við byggingageirann á Íslandi síðustu ár að þangað hefur verið ráðið mikið af erlendu vinnuafli. Bragi segist aldrei hafa þurft að leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli og hann sé bara með mannskap af svæðinu og hafi verið með fastan kjarna í mörg ár

„Þetta eru yfirleitt sömu mennirnir og erum bara heppin með þá. Þetta byggist náttúrlega á góðum mannskap sem maður treystir á og það er gaman þegar vel gengur og þetta eru allt þaulvanir menn,“ segir Bragi og vitnar til þess að það þurfi varla að halda verkfundi í upphafi dags, mannskapurinn viti hvað eigi að gera og gangi hreint til verks.

Forréttindi að fá að vera hérna

Framkvæmdir í Báruklöpp ætla þeir feðgar að annast og taka með sér hrausta menn í verkið en aðrir verði í verkinu í Gerðaskóla og í Þrastarlandi þar sem fjögur parhús eru á lokametrunum. Þar er eftir um tveggja mánaða vinna og þá verða þær íbúðir settar á sölu.

Það er ekki amalegt að geta byggt á svona fallegum stað eins og Garðurinn er, með náttúruna, útsýnið og rólegheit?

Bragi: „Ég finnst bara forréttindi að fá að vera hérna, í alvöru. Mér finnst þetta vera alveg geggjaður staður.“

Sveinbjörn er sammála föður sínum og segir upphaf framkvæmda við Báruklöpp lofa góðu. Það eigi svo bara eftir að koma í ljós hvort slegist verði um íbúðirnar. Þær verða fjölbreyttar að stærð, frá 105 fermetrum og upp í rúmlega 170 fermetra. Sumar með bílskúr og aðrar ekki. Tímalínan er tvö ár, íbúðirnar verða alls 24 en í fyrri áfanganum eru þær tólf talsins.

Bragi segist hvergi nærri hættur. „Ég er bara fullur af eldmóði,“ segir hann og hlær.