Mannlíf

Fór í handavinnu og forritun til að prófa eitthvað nýtt
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
föstudaginn 24. janúar 2020 kl. 07:19

Fór í handavinnu og forritun til að prófa eitthvað nýtt

Hafdís Hulda Garðarsdóttir, er dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja á haustönn 2019

„Ef þú lærir vel alveg frá byrjun þá byggir þú á góðum grunni,“ eru hvatningarorð Hafdísar Huldu Garðarsdóttur, dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja, til verðandi nýnema. Hafdís Hulda útskrifaðist í desember af raunvísindabraut skólans með hæstu meðaleinkunn og hlaut í kjölfarið 100 þúsund króna námsstyrk úr skólasjóði FS ásamt 30 þúsund króna styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Aðspurð hver lykillinn að svo góðum námsárangri sé svarar Hafdís því að mikilvægt sé að reyna að gera sitt besta. „Fyrir mig snerist þetta um að vinna öll verkefnin vel og vandlega, líka í þeim fögum sem geta verið erfið og eru utan áhugasviðsins.“

Hafdís Hulda fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í efnafræði, stærðfræði og líffræði, verðlaun frá Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir árangur sinn í stærðfræði, viðurkenningu frá þýska sendiráðinu fyrir góðan árangur í þýsku, gjöf frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir árangur sinn í náttúrufræðigreinum og viðurkenningu frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum.

Hún segist sátt með námið í FS, það hafi verið krefjandi en einnig skemmtilegt. „Ég var á raunvísindabraut svo það var mjög mikið af raungreinum, sérstaklega stærðfræði, en svo fór ég líka í handavinnu og forritun til að prófa eitthvað nýtt.“

Eftir útskriftina stefnir Hafdís á að taka önn í Hússtjórnarskólanum, vinna smá og halda svo áfram með námið. „Mögulega verður það forritun en ég hef ekki ennþá valið mér skóla.“