Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Fimm uppáhaldsplötur Þorvaldar Halldórssonar
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 4. júlí 2020 kl. 15:16

Fimm uppáhaldsplötur Þorvaldar Halldórssonar

Þorvaldur Halldórsson er uppalinn í Garðinum og starfar sem trommuleikari og slagverkskennari við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hann hefur verið trommuleikari hljómsveitarinnar Valdimar frá upphafi en hann hefur einnig tekið þátt í margskonar verkefnum á ýmsum sviðum tónlistar, t.d. með sinfóníuhljómsveitum, í ýmsum tónleikauppfærslum, í leikhúsum og bíómyndum. Hann hefur lokið tónlistarnámi frá Tónlistarskóla FÍH í Reykjavík og Berklee College of Music í Boston.

Fleetwood Mac: Rumours

Þetta er eflaust mín uppáhaldsplata. Frábærar lagasmíðar, flottar útsetningar og hljóðfæraleikurinn og söngurinn ómótstæðilegur enda eru þarna ófáir útvarpssmellirnir. Sá Fleetwood Mac í sömu mynd og á plötunni á tónleikum í Boston á meðan ég bjó þar. Þá rættist langþráður draumur hjá mér.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Pink Floyd: The Wall

Síðan ég kynntist þessari plötu fyrst á unglingsárunum þá hef ég haldið mikið upp á hana. Það var í enskutímum í grunnskólanum þar sem við stúderuðum þessa plötu og fræddumst um tilurð hennar. Ég varð mjög heillaður af svona „concept“-plötum og þessum miklu leikhúsáhrifum sem fylgdi þegar Pink Floyd flutti plötuna live.

Chicago Symphony Orchestra: Gustav Holst, The Planets

Þarna sameinast allt sem ég hef gaman af í klassískri tónlist, mikill kraftur og ómstríðir hljómar en líka fallegar laglínur og hugljúfir tónar. Mikið af kvikmyndatónlist er samin undir áhrifum frá þessari tónlist og skýrir það eflaust líka ást mína á kvikmyndatónlist. Ég hef spilað þessa músík með sinfóníuhljómsveit og er það eitt það skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í.

The National: High Violet

Ég kynntist þessari plötu í gegnum Valdimar Guðmundsson vin minn og ég varð gjörsamlega háður þessari plötu í langan tíma á eftir. Ég viðurkenni líka að hafa verið mikið undir áhrifum frá þessari plötu í eigin hljóðfæraleik á þessum tíma, svona þegar litið er til baka, en ég hef síðan verið mikill aðdáandi þessarar hljómsveitar og hef farið að sjá þá á tónleikum.

Trúbrot: Lifun

Erfitt að hafa þessa plötu ekki á þessum lista þar sem að Gunnar Jökull trommuleikari var mikill frumkvöðull á Íslandi og hafði mjög svona „erlendis“ trommustíl. Hann lætur ljós sitt skína á þessari plötu og eins og orðtakið segir: „Allir vildu Lilju kveðið hafa,“ þá er þessi plata mín Lilja í því samhengi.