Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Fer í háskólanám með opnum hug
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 23. janúar 2021 kl. 07:07

Fer í háskólanám með opnum hug

„Útskriftardagurinn var mjög skemmtilegur þótt hann væri öðruvísi en hann átti að vera. Ég hitti þá allra nánustu í smá kaffi og fékk fullt af netkveðjum frá bæði vinum og fjölskyldumeðlimum sem horfðu á mig útskrifast á skjá heima í stofunni sinni,“ segir Arndís Lára Kristinsdóttir, dúx í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á haustönn 2020 en hún útskrifaðist með 9,62 í meðaleinkunn.

Við útskriftina voru engir ættingjar eða vinir viðstaddir vegna Covid-19. Arndísi Láru fannst það auðvitað leiðinlegt og upplifa ekki hefðbundna útskrift með tilheyrandi veislu, útskriftarferð og dimmiteringu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Mér finnst þó líka alveg skemmtilegt að vera ein af þeim fáu sem munu upplifa að útskrifast á þennan hátt og verður örugglega mjög skrýtið að horfa til baka á þessa tíma seinna meir.“

– Hvernig lýsirðu lokaárinu í FS?

„Lokaárið í FS byrjaði vel en svo kom víst Covid þegar ég var rétt komin þrjá mánuði inn í lokaárið og tók þá fjarnámið við. Það var töluverð breyting á rútínu þegar skipt var úr 100% staðnámi yfir í 100% fjarnám. Lítið sem ekkert félagslíf fylgdi því og mjög mikill heimalærdómur vegna þess að það var ekki hægt að vera búinn með heimalærdóminn í skólanum eins og ég var vön að gera. Seinni önnin í fjarnáminu var þó töluvert auðveldari, þá var ég orðin ágætlega vön því fyrirkomulagi og vissi betur við hverju var að búast.“

– Hvernig gekk þér í náminu og á hvaða braut varstu?

„Held að það sé öruggt að segja að það hafi gengið nokkuð vel hjá mér í náminu. Stærðfræði, enska og viðskiptafræði eru langskemmtilegustu áfangarnir að mínu mati, enda gekk mér best í þeim. Ég útskrifaðist þess vegna af fjölgreinabraut. Þar gat ég nánast bara valið þá áfanga sem mér fannst skemmtilegastir og tekið mest af þeim.“

– Hvað er svo eftirminnilegast frá FS-árunum?

„Það eftirminnilegasta frá FS-árunum var klárlega ferðin sem ég fór til Lettlands á vegum skólans árið 2019 og að kynnast bestu vinkonu minni á busaönninni minni.“

– Varstu dugleg í félagsmálunum, þau voru náttúrlega lítil er það ekki á veiruári?

„Ég reyndi að taka virkan þátt í félagslífinu fyrir Covid og mæta á viðburði sem nemendafélagið hélt, ásamt því að mæta á FS-böllin – en það langskemmtilegasta sem ég gerði var að skrá mig í ritnefnd og vinna í skólablaðinu. Ég var í ritnefnd síðustu þrjár annirnar mínar og á þeim tíma gáfum við út þrjú blöð.“

– Hvað tekur nú við hjá þér? Ertu að fara að vinna eða í áframhaldandi nám?

„Það sem er næst á dagskrá hjá mér er að vinna þangað til ég byrja í háskólanum í haust. Stefnan er að fara í Háskóla Íslands og læra viðskiptafræði.“

– Einhverjir framtíðardraumar?

„Ég í raun veit ekki alveg hver framtíðardraumurinn er. Ég veit að ég vil klára viðskiptafræðina með markaðsfræði sem áherslusvið. Ég veit að ég vil alla vega taka eitt taka eitt ár í skiptinámi erlendis og sjá hvernig mér líkar að búa á öðrum stað en Íslandi. Annars fer ég bara í háskólanámið með mjög opnum hug og sé svo hvert framhaldið verður. Mikilvægast finnst mér að komast í nám sem er bæði skemmtilegt og áhugavert. Það vonandi skilar mér „draumastarfinu“ seinna meir,“ segir Arndís Lára Kristinsdóttir.