Mannlíf

Fengum yfir okkur heilagan anda í Skálholti
Mæðgurnar Þórunn Fríða og Fanny Sigríður.
Föstudagur 5. apríl 2019 kl. 14:00

Fengum yfir okkur heilagan anda í Skálholti

-Fanny Sigríður Axelsdóttir fermdist árið 1992.

„Sterkasta minning mín frá þessum degi var þegar við fermingarsystkinin gengum inn kirkjugólfið. Þarna var allt samfélagið mitt, fjölskylda mín, bestu vinir mínir og allir sem tilheyrðu okkur. Ég man eftir að hafa fundið fyrir samblandi af stolti og gleði.

Einnig er mér minnisstætt þegar við fórum í fermingarferðalagið okkar í Skálholt. Þar vorum við nokkrar saman fermingarsysturnar við altarið í Skálholtskirkju og ég trúi því enn þann dag í dag að við fengum yfir okkur heilagan anda. Við krupum á hné og áttum virkilega fallega stund ásamt prestinum okkar henni Helgu Soffíu Konráðsdóttur. Á þessari stundu ákvað ég að ég myndi eiga aðra fallega stund í þessari dásamlegu kirkju sem ég og gerði árið 2007.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fermingarundirbúningurinn var mun einfaldari heldur en hann er í dag hjá okkur mæðgum. Ég fékk lánaðan fermingarkjól frá Olgu Færseth, fjölskylduvinkonu okkar og er enn þann dag í dag svo ánægð með hann. Hann var allt öðruvísi en allir hinir kjólarnir sem voru í tísku þá. Ég var með fallegan kross sem amma Sigga átti og gaf mér.

Ég vildi hafa nautakjöt og Bérnaise-sósu að hætti pabba og það var hún stórvinkona mín Guðrún Skúladóttir sem sá um veisluna ásamt pabba, Axel Jónssyni. Mamma sá um skreytingarnar og þreif allt hátt og lágt en veislan var heima hjá okkur á Langholti 9. Ég átti dásamlegan dag með fjölskyldunni. Ég er sunnudagaskólastelpa og kunni því þó nokkra sálma og vers en ég lærði trúarjátninguna fyrir fermingu. Ég og Þórunn Fríða dóttir mín, sem er að fermast í vor, höfum rifjað hana upp nú í vetur. Sonur minn Matthías tíu ára hefur hlustað á okkur mæðgur og kann hana nánast líka. Ég fékk gott, kristilegt uppeldi bæði á mínu heimili og í sunnudagaskólanum. Mér fannst mikilvægt að fermast og já, það hafði enn sterkari áhrif á mig og trú mína að fermast.“

Dóttir Fannyjar, Þórunn Fríða Unnarsdóttir, fermist nú í vor.

Hvers vegna ert þú að fermast?
„Ég er að staðfesta trú mína á Guð og staðfesta skírnina. Ég er sammála foreldrum mínum sem létu skíra mig þegar ég var lítil. Fermingarfræðslan í vetur hefur verið mjög skemmtileg. Við erum búin að vera fræðast um Guð og Jesú. Ég hef einnig mætt í allar messurnar sem við eigum að mæta í. Trúin mín hefur aukist eftir þennan fermingarundirbúning. Ég hef alltaf trúað á Guð en trúin er alveg búin að aukast eftir þessa fermingarfræðslu. Mér fannst Ljósamessan mjög skemmtileg en þá fengum við að taka þátt í messunni. Ég er búin að læra trúarjátninguna en ég hef alltaf kunnað Faðir vorið.“

Hlakkar þú til að fermast?
„Ég er búin að hugsa mikið um veisluna og skipuleggja hana. Við ætlum að hafa kjöt og kjúkling og kökur í eftirrétt. Ég ætla að vera í hvítum kjól og í hvítum háhælaða skóm. Ég held ég setji fléttur í hárið og hafi krullur, taki það svo saman aftan á. Ég er ekki að fara í brúnkulampa eða neitt svoleiðis. Kannski láta einhverjar aðrar stelpur setja á sig gervineglur, veit ekki en ég vil vera sem náttúrulegust og er mjög spennt fyrir fermingunni. Ég er búin að skipuleggja ferminguna mína í mörg ár og myndi ekki vilja sleppa því að fermast.“