Mannlíf

Fastur á skemmtiferðaskipi á hinum enda hnattarins
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 29. mars 2020 kl. 12:03

Fastur á skemmtiferðaskipi á hinum enda hnattarins

-Hallur Hallsson, lögreglumaður úr Keflavík sem er í 60 ára afmælisferð með konu sinni veit ekki hvernig óvissuferðinni lýkur.

„Ég veit auðvitað ekki hvernig þessari óvissuferð lýkur en það er óhætt að segja að það sé sérstök upplifun að vera fastur á skemmtiferðaskipi hinum megin á hnettinum á sextíu ára afmælinu. Við vonum það besta og erum í sambandi við borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins,“ segir Keflvíkingurinn Hallur Metusalem Hallsson, lögreglumaður en COVID-19 hefur svo sannarlega haft áhrif á afmælisferðina hans.

Draumaferð á sextugsafmæli

„Við hjónin lögðum af stað 3. mars í 60 ára afmælisferðina mína til Buenos Aires í Argentínu. Þar dvöldum við í þrjár nætur áður en við fórum um borð í skemmtiferðaskipið ms Zaandam. 7. mars og létum síðan úr höfn síðdegis 8. mars á 60 ára afmælisdeginum mínum. Siglingin átti að vara í fjórtán nætur, sigla suður fyrir syðsta odda S-Ameríku, Argentínu, Uruguay, Falklandseyjar og síðan að enda í Santiago í Chile. Allt gekk eins og í sögu þar til við vorum lögð af stað frá Punta Arenas, syðstu borgar Chile við Magellan sund (siglt var um Magellan sund fyrir tíma Panamaskurðarins) áleiðis til Ushhuaia syðsta bæjar Argentínu, sem er jafnframt syðsti bær heims“.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Allir af skipinu

„Þegar við vöknuðum 15. mars vorum við komin aftur til Punta Arenas en ekki Ushusia. Þarna varð vendipunktur í ferðinni, skipstjórinn sagði að allir yrðu að fara af skipinu í Punta Arenas. Var þá farið í að finna flugmiða heim sem var ekki hægðarleikur. Það tókst þó með dyggri aðstoð Guðmundar Halls sonar míns. Við pökkuðum niður og áttum að fljúga til Santiago í Chile og þaðan til London og heim með viðkomu í Brasilíu. En farþegar fengu ekki að fara í land, sagt var að til þess yrðu að líða fjórtán dagar. Skipstjórinn ákvað þá að sigla skipinu til norðurs. Skipið reyndist hvergi mega koma að landi í S-Ameríku og ákveðið var að taka stefnuna til Ft. Lauderdale í Florída og til vara Mexico eða San Diego,“ segir Hallur.

Rekin í klefa

Hallur segir að allt hafi leikið í lyndi í heila viku um borð í skipinu eða þar til sunnudaginn 22. mars daginn eftir að skipið fór frá Valparaiso í Chile þar sem vistir og olía voru sett í skipið við erfiðar aðstæður á sjó utan við höfnina. „Við vorum úti á dekki í sólbaði þegar skipstjórinn skipaði öllum að fara í klefa sína og dvelja þar um óákveðinn tíma, þar sem 29 úr áhöfn og 13 farþegar væru orðnir veikir, með flensueinkenni. Núna, 24. mars, er staðan sú að við erum í einangrun/sóttkví í innri klefa. Fáum morgunmat, hádegismat og kvöldmat sem er settur utan við klefadyrnar. Síðustu fréttir eru þær að stefnt er á Panamaskurðinn og eiga þar stefnumót við systurskip Zaandam sem heitir Rotterdam og er á siglingu sérstaklega án farþega frá Acapulco, Mexico. Kemur það til aðstoðar með lyf og starfsfólk, ekki hefur annað verið gefið upp um ástæðu þessa sérstaka stefnumóts. Vonandi að það skip sé með það sem til þarf til að ganga úr skugga um hvort kórónavírusinn sé í Zaandam, eins að fá grímur/maska, því við fáum ekki að fara út að viðra okkur þar sem ekki er til nóg af grímum. Það er frekar þrúgandi að vera innilokaður og vita ekki hve lengi. Við erum samt hress miðað við aðstæður, draumur að hafa internetð þó veikt sé,“ segir okkar maður að lokum en skipið sem hann er á mun mæta systurskipi sínu, Rotterdam, 26. mars.

Hér má lesa viðtalið og sjá myndir í rafrænni útgáfu Víkurfrétta.

Þetta viðtal við Hall birtist í Víkurfréttum á fimmtudag. Síðan þá hafa orðið breytingar. Hallur og eigikona hans, Margarita Hallsson, hafa verið flutt yfir á annað skip eftir að fjórir um borð í skipinu höfðu látist úr COVID-19. Hér að neðan má sjá skilaboð frá Halli 29. mars.

29.03.2020 ms Rotterdam, Panama. Í dag er komin vika í sóttkví/einangrun. Heragi hér um borð, td bankað á dyrnar þegar maturinn kemur, þá aðeins má opna og taka inn matinn. Engin mann við mann samskipti.

Taka þetta föstum tökum, sem er gott. 

Það er komin hreyfing á hlutina, bæði skipin fá að fara í gegnum Panamaskurðinn og svo til Florida. Erum enn við akkeri. 

Siglingin ti Florida tekur ca. 2 sólarhringa.
Það á eftir að koma í ljós hvort og hversu lengi við verðum að vera áfram í sóttkví í skipinu eftir að það kemur til hafnar.

Margarita situr úti í glugga, eins og kisur, og vonast eftir að mega fara út.

Gangi ykkur vel í baráttunni hvar sem þið eruð.

Baráttukveðjur......