Mannlíf

Faðir knattspyrnunnar í Keflavík
Á myndinni standa börn Hafsteins, þau Haukur, Svala, Hafdís og Brynja, við minnisvarðann um föður sinn. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 28. júlí 2021 kl. 10:56

Faðir knattspyrnunnar í Keflavík

Á sunnudag var afhjúpaður minnisvarði um Hafstein Guðmundsson, sem er kallaður faðir knattspyrnunnar í Keflavík, á heimavelli Keflvíkinga.

Haf­steinn var aðal­hvatamaður að stofnun Íþrótta­banda­lags Kefla­vík­ur (ÍBK) árið 1956 og gegndi for­mennsku þess frá upp­hafi til ársins 1975. Hann var spilandi þjálf­ari Kefla­vík­urliðsins á ár­un­um 1958 til 1960 og í for­mannstíð Haf­steins varð ÍBK fjór­um sinn­um Íslands­meist­ari á mesta blóma­skeiði knatt­spyrn­unn­ar í Kefla­vík. Fyrst 1964 og síðan 1969, 1971 og 1973 og þá varð ÍBK einnig bikar­meist­ari 1975. Hafsteinn Guðmundsson lagði mikla áherslu á starf yngri flokka og sýndi einstaka framsýni í hugsun, hann lagði grunninn að velgengni keflvískar knattspyrnu með ástríðu fyrir íþróttinni innanbrjósts en hugsjón Hafsteins hefur einkennt íþróttastarf Keflavíkur alla tíð síðan.

Public deli
Public deli

Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildarinnar.


Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, minntist Hafsteins í ræðu þegar hann bauð gesti velkomna í samsæti sem haldið var af þessu tilefni og sagði Sigurður að Hafsteinn væri einn af máttarstólpum íslenskrar knattspyrnu og jafnframt höfundur þeirrar velgengni sem keflvísk knattspyrna hefur notið síðustu 65 árin.

„Hafsteinn Guðmundsson var sannur Keflvíkingur. Þegar hann flutti hingað suður með sjó til þess að sinna íþróttakennslu, þá 28 ára gamall, var knattspyrnuiðkun í Keflavík skammt á veg komin. Ungómenn stunduðu mest frjálsar íþróttir og KFK var aðeins eins árs gamalt félag. Aðeins var stunduð knattspyrna í meistaraflokki og ekkert skipulagt barna- og unglingastarf var hafið, enda aðstaða að skornum skammti á litlum grasbletti í skrúðgarðinum okkar,“ sagði Sigurður meðal annars.

Þegar Hafsteinn fluttist til Keflavíkur hafði hann leikið knattspyrnu með meistaraflokki Vals og auk þess leikið fjóra landsleiki fyrir Íslands hönd, þá hafði hann tekið að sér þjálfun knattspyrnuliða víða um landið.

„Það má því vel segja að með Hafsteini hafi fylgt sú afrekshugsun sem einkennt hefur allt íþróttastarf í Keflavík alla tíð síðan. Hafsteinn lagði alla tíð mikla áherslu á þjálfun og keppni yngri flokka. Hann hafði ætíð mikla trú á framtíðinni og lagði mikið upp úr því að kenna ungu fólki að gera ávallt betur og ná fram því besta hjá sjálfum sér – og fyrir liðið sitt.

Það dylst því engum, sem býr með ástríðu á knattspyrnu innanbrjósts, að Hafsteinn Guðmundsson sýndi einstaka framsýni í hugsun og vann mörg afrek með athafnasemi sinni í þágu knattspyrnunnar í Keflavík. Of langt mál væri þó að telja þau öll upp hér og nú.“

Sigurður þakkaði undirbúningsnefndinni fyrir að standa að því að minnast þeirra sem hafa lagt mikið á sig til að fylla í sögu knattspyrnunnar hjá Keflavík og lauk máli sínu á þeim orðum að Hafsteinn Guðmundsson verður ávallt í minningunni sannur Keflvíkingur.

Haukur, sonur Hafsteins, þakkaði sá heiður sem föður sínum og knattspyrnunnar í Keflavík var sýndur.

Fjöldi fólks var viðstaddur afhjúpun minnisvarðans.

Meðal þeirra sem tóku til máls eftir afhjúpun minnisvarðans var Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, sem hrósaði framtakinu og sagði það hvatningu fyrir aðra að fylgja í kjölfarið. Nauðsynlegt væri að minnast þeirra sem hafa lagt jafn mikið að mörkum og Hafsteinn gerði í þágu knattspyrnunnar.

Athöfnin fór fram skömmu áður en leikur meistaraflokkur Keflavíkur tók á móti Breiðabliki í efstu deild karla í knattspyrnu og flykktust gestir út á völl eftir athöfnina til að horfa á sitt lið vinna tveggja marka sigur á gestunum.

Það kætti Keflvíkinga í stúkunni ósegjanlega þegar boltinn hrökk af Joey Gibbs og í mark Blikanna til að koma Keflavík yfir í leiknum.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var við afhjúpun minnisvarðans og fleiri myndir myndir eru í myndasafni neðst í fréttinni.

Afhjúpun minnisvarða um föður knattspyrnunnar í Keflavík