Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Engin ástæða til að hætta því sem er skemmtilegt
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 22. september 2022 kl. 10:04

Engin ástæða til að hætta því sem er skemmtilegt

Súluhafinn Júlíus Guðmundsson með tónleika í Frumleikhúsinu

Júlíus Freyr Guðmundsson, handhafi Súlunnar, Menningarverðlauna Reykjanesbæjar, heldur tónleika í Frumleikhúsinu nk. fimmtudag á afmælisdaginn sinn 22. september kl.21.00. Þar mun hann fara í gegnum feril sinn sem tónlistarmaður frá upphafi til dagsins í dag. 

Júlíus hefur víða komið við í tónlistinni, samið söngleiki og spilað í mörgum hljómsveitum. Má þar helstar nefna Pandóru og Deep Jimi and the Zep Creams, en strákarnir komust á plötusamning í New York aðeins tvítugir að aldri og gáfu þar út nokkrar plötur hjá Atlantic. Júlíus hefur einnig gefið út plötur undir listamannsnafninu Gálan, Julius and Julia og svo sem Júlíus Freyr. Núna spilar hann á bassa í Bergrisunum sem hefur verið að gefa út hvern slagarann á fætur öðrum í sumar og spilað fyrir fullu húsi um allt land.

Blaðamaður VF kíkti við á æskuheimili Júlíusar að Skólavegi 12, þar sem hann býr ásamt fjölskyldu sinni, en þar er einmitt Upptökuheimili Geimsteins, sem hefur verið rekið frá árinu 1982 af þeim bræðrum Júlíusi og Baldri Þóri.

Optical studio
Optical studio

Það er vel við hæfi að halda tónleikana í Frumleikhúsinu, því Júlli átti einn stærstan þátt í uppbyggingu hússins á sínum tíma, hefur samið söngleiki og komið að nokkrum öðrum verkum sem höfundur hjá Leikfélagi Keflavíkur.

Aðspurður um hvort tónleikagestir fái að heyra lög úr einhverjum verka leikhússins svarar hann neitandi. „Því miður fá gestir ekki að heyra nein söngleikjalög. Það voru bara svo mörg önnur geggjuð lög sem ég vildi frekar taka úr þessum tæplega 200 lögum sem ég hef komið að,“ segir Júlíus.

Deep Jimi árin mikið ævintýri

Júlíus hefur, eins og áður hefur komið fram, komið að mörgum útgáfum með nokkrum listamönnum. „Þetta eru um fimmtán plötur sem ég hef komið að. Mest með sjálfum mér og hljómsveitum sem ég hef verið í eins og Pandoru, Deep Jimi and the Zep Creams og Bjartmari og Bergrisunum. Svo vann ég að þó nokkrum plötum með pabba. Ég hef sjálfur gefið út þrjár sólóplötur undir listamannsnafninu Gálan. Síðan hef ég gefið út nokkur lög undir Julius and Julia og svo líka bara Júlíus Freyr“.

Er eitthvað uppáhaldstímabil á þínum ferli og þá hvenær og með hverjum?

„Ætli Deep Jimi árin, þegar við vorum að komast á samning erlendis hjá Atlantic útgáfurisanum, sé ekki uppáhalds. Þetta var mikið ævintýri fyrir okkur strákana og lærdómsríkt.“

„Ætli Deep Jimi árin, þegar við vorum að komast á samning erlendis hjá Atlantic útgáfurisanum, sé ekki uppáhalds. Þetta var mikið ævintýri fyrir okkur strákana og lærdómsríkt.“

Nú spilar þú á mjög mörg hljóðfæri og á spilaðir á öll á Gáluplötunum þínum. Hvað heillar mest?

„Það er skemmtilegast að spila á trommur ef það er í rokkinu. Svo er alltaf stuð á bassanum með Bergrisunum. En annars spila ég mest á kassagítarinn, þar verður öll snilldin til.“

Hvað ertu að gera í tónlist þessa dagana og er kannski von á annarri plötu frá Gálunni, Julius and Julia eða einhverju öðru?

„Við æskufélagarnir í Deep Jimi and the Zep Creams erum að vinna að plötu. Við fórum til London fyrr á árinu og tókum upp grunna að fjórtán lögum í RAK studios. Síðan eru Bergrisarnir líka að vinna að nýju efni og búnir að gefa út fjögur lög. Gálan og Julius and Julia gera ekki aðra plötu. Núna verður það bara Júlíus Freyr en ég gaf einmitt út eitt lag nú fyrir stutt sem heitir Ég og þú og fékk þrjár spilanir í útvarpi sem er bara ágætt“.

En af hverju að halda tónleika núna?

„Það var náttúrulega ekki hægt að gera þetta þegar ég varð 50 ára út af ástandinu og svo er ég líka Súluhafi í augnablikinu þannig að þetta liggur vel við“.

Júlli hefur afrekað margt á sínum ferli sem tónlistarmaður.

Með landslið hljóðfæraleikara

Júlíus er með landslið hljóðfæraleikara með sér sem skipa hljómsveitina Fautar frá Reykjavík. Þetta eru Birkir Gíslason gítarleikari, sem hefur spilað mörg ár í Bergrisunum. Svo eru aðrir Bergrisar þarna, Daði Birgis hljómborðsleikari og Addi Gísla trommari. Guðni Finns er svo á bassa en hann og Addi eru eitt besta hrynpar landsins. „Þetta verður mjög fjölbreytt. Allt frá þriggja vasaklútalögum yfir í óbærilega hart rokk“.  

Hvernig sér Júlli fyrir sér næstu árin hvað tónlistina varðar?

„Ég sé fyrir mér að halda áfram að búa til tónlist enda hef ég mjög gaman að því. Engin ástæða til að hætta því sem er skemmtilegt,“ sagði tónlistarmaðurinn Júlíus að lokum og minnti á að enn væru nokkrir miðar lausir á tónleikana sem hægt er að nálgast á Tix.is og við innganginn á tónleikadaginn.