Mannlíf

Eins og stórt ættarmót
Gísli og Ásta kona hans í Búdapest.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 20. janúar 2022 kl. 14:17

Eins og stórt ættarmót

Gísli H. Jóhannsson hefur sótt níu af tólf síðustu stórmótum Íslands í handbolta. Vínsmökkun og skoðunarferðir á milli leikja í Búdapest í Ungverjalandi.

Nokkrir Suðurnesjamenn eru meðal stuðningsmanna Íslands á EM í handbolta. Gísli H. Jóhannsson, verslunarstjóri í Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ  og fyrrverandi handboltadómari hefur verið fastagestur á EM-mótum sem Ísland hefur verið þátttakandi í. 

„Þetta er alltaf geggjað, svakaleg stemmning. Svo er þetta flott borg þannig að við nýtum dagana sem Ísland er ekki að leika til að fara í skoðunarferðir, förum í vínsmökkun og út að borða,“ sagði Gísli við VF sem verður alla undankeppnina og ef Ísland kemst áfram nær hann allavega fyrsta leik í úrslitakeppninni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Gísli hefur farið á níu af síðustu tólf stórmótum hjá Íslandi, fór fyrst á Evrópumót í Austurríki 2012. Hann segir að Íslandshópurinn horfi á tvo leiki á dag. Núna var til dæmis horft á fyrsta leik heimamanna, Ungverja, gegn Hollandi. „Það var svolítið magnað, 23 þúsund áhorfendur í höllinni og 21 þúsund af þeim heimamenn, Ungverjar.“

Hvað er eftirminnilegast úr þessum ferðum þínum?

Það stendur eiginlega upp úr þegar ég fór til Katar 2015 en þá var ég í hópi stuðningsmanna sem var boðið á mótið. Hver þátttökuþjóð mátti bjóða tuttugu manns. Allt gert til þess að það yrðu einhverjir áhorfendur á mótinu. Það var gaman en gengi Íslands ekki mikið, gátum ekki neitt í þessu móti. Annars er hluti af þessu að hitta gamla vini. Þetta er í raun eins og stórt ættarmót hjá Íslendingum,“ segir Gísli.

Fleiri Suðurnesjamenn eru á Evrópumótinu. Félagarnir og skólamennirnir Hjálmar Árnason og Ólafur Arnbjörnsson ásamt Magnúsi Guðjónssyni hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja eru saman í Íslandsfjöri í Búdapest. „Við fórnum okkur fyrir liðið. Þetta er bara frábært. Skoðum borgina og merkilega staði á milli leikja,“ sagði Hjálmar í stuttu spjalli við Víkurfréttir.

ísli, Magnús Guðjónsson, Hjálmar Árnason og Ólafur Arnbjörnsson tilbúnir í leik með Íslandi. Stuð á staðnum eins og hinar myndirnar sýna.

Stemmning fyrir leik, í leik og eftir leiki.

Gísli fer í ný föt fyrir hvern leik en hann á nokkur jakkaföt í fataskápnum.