Mannlíf

Einn í heiminum - samt ekki!
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 9. maí 2021 kl. 07:15

Einn í heiminum - samt ekki!

Raunir ljósmyndarans eru margar!

Að fara út í næturmyrkrið í góðu veðri til að mynda hvort heldur norðurljós eða hreinlega bara landslagið með tunglið sem eina ljósgjafann er virkilega gaman.

Í einni slíkri ferð var ég staddur á bakka speglsléttrar flæðitjarnar, í dauðalogni og tunglið eins fullt og það getur orðið þannig að aðstæður gátu ekki verið betri.

Þar sem ég stend þarna á bakkanum algjörlega í mínum eigin heimi upptekinn af því að stilla myndavélina á milli þess sem ég smelli af, þá læðist að mér sú tilfinning að verið sé að fylgjast með mér. Ég ýti þessari tilfinningu jafnharðan frá mér og hugsa með mér hverslags vitleysa þetta sé, staddur einn hér úti í rassgati og enginn annar á svæðinu. Þessari ónota tilfinningu skaut upp nokkrum sinnum uns ég ákvað að snúa mér við á meðan myndavélin var að hlaða í eina myndina.

Viti menn! Þegar að ég sný mér við horfi ég beint í augun á þessum líka samanrekna og fagurhyrnda hrút sem stóð uppi á barði í seilingarfjarlæg að baki mér. Ekki veit ég hvorum brá meira ljósmyndaranum eða hrútnum.

Eftir að hafa henst afturábak og næstum því hent myndavélinni um koll, jafnað mig á hjarsláttartruflunum og ýmiskonar öðrum truflunum á líkamsstarfsemi náðist mynd!

Það getur tekið á taugarnar að taka myndir.