Mannlíf

Ég get gert allt sem ég vil gera, meira að segja flogið
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 25. desember 2022 kl. 08:00

Ég get gert allt sem ég vil gera, meira að segja flogið

Flugmaðurinn og  flugkennarinn Sóley Björg Ingibergsdóttir greindist með krabbamein í mars 2021 en er nú að hefja störf sem flugmaður hjá Atlanta. 

Þrátt fyrir ungan aldur hefur líf Sóleyjar verið mikil rússíbanareið en hún greindist með krabbamein í mars 2021, sama dag og hún lauk síðasta prófinu í flugkennaranáminu, þá aðeins 26 ára að aldri. Þrautseigja hennar og hugrekki hefur komið henni í gegnum stórar áskoranir lífsins og nú hefur hún ekki aðeins sigrað krabbameinið heldur er langþráður draumur hennar, að vinna sem atvinnuflugmaður, orðinn að veruleika og hefur Sóley störf sem flugmaður hjá flugfélaginu Air Atlanta í byrjun næsta árs.

„Þú ert með illkynja brjóstakrabbamein í hægra brjósti og í eitlum. Ég man bara að pabbi byrjaði að gráta og mamma fraus. Ég horfði á mömmu, hristi hausinn og sagði „ég er bara tuttugu og sex ára“. Þetta gerðist allt svo hratt og eina sem ég hugsaði var að ég ætti bara eitt próf eftir í skólanum og að ég væri orðin veik og gæti ekki flogið. Þó svo að það hafi kannski verið auka atriði þarna,“ sagði Sóley í einlægu viðtali í Suðurnesjamaga-síni í október á síðasta ári. Sóley kláraði síðasta prófið með stæl og útskrifaðist sem flugkennari í kjölfarið. Eftir útskrift tók við langt og erfitt tímabil þar sem hún fór í átta lyfjameðferðir, brjóstnám og geislameðferð. Ferlinu lauk 4. október 2021 og nú ári seinna settist blaðamaður Víkurfrétta niður með Sóley þar sem hún fór yfir lífið eftir krabbamein og breytingarnar sem orðið hafa á þessum stutta tíma.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég er ekki sama stelpa og fyrir tveimur árum“

„Það er eitt ár síðan ég kláraði allt saman, í október í fyrra. Ég man að þá hugsaði ég með mér „áfram gakk, ég ætla að byrja á fullu í ræktinni, ná mér í gamla góða formið og ætlaði í raun að fara að sigra heiminn og gera allt á einum mánuði en ég lenti á vegg. Ég var búin að vera svo upptekin að því að berjast og kljást við allt sem fylgir meðferðinni og þegar það var allt í einu búið var ekkert sem greip mann. Það var ótrúlega erfitt og það tóku við margir mánuðir af sjálfsvinnu. Auk þess byrjaði ég að endurnýja flugréttindin mín og fá heilbrigðisvottorðið mitt aftur til þess að mega fljúga. Í gegnum það fór ég hægt og rólega að vinna í að koma andlegu hliðinni á rétt ról.

Ég er ekki sama stelpa og fyrir tveimur árum og það er erfitt að sætta sig við það, oft var ég heima og byrjaði að gráta yfir því. Ég saknaði kannski hársins míns eða saknaði þess að vera „gamla Sóley“ sem gat farið á Crossfit æfingu eða hvað eina. Þannig að þetta var mjög erfið lending eftir þetta allt, sem varð til þess að ég er búin að vera „extra“ góð við mig núna síðustu mánuði og ég vil meina að ég sé að vinna upp síðasta árið af því ég segi ekki nei við neinu. Ég er svolítið búin að vera að leika mér og það er búið að hjálpa mér mikið,“ segir Sóley.

Sóley er útskrifuð frá læknum en segist þurfa fylgjast vel með líkamanum sínum og vera á varðbergi sjálf fyrir einkennum. „Ég er alveg laus við það að fara til krabbameinslæknisins en ég er með brakkagenið og því þarf ég að fara einu sinni á ári í eftirlit í tengslum við það,“ segir Sóley en hún þarf samt sem áður að taka svokallað andhormónalyf næstu tíu árin. „Ég þarf að taka það til þess að slökkva á hormónunum því mitt krabbamein var hormónajákvætt og var því mögulega að nærast á hormónunum ef svo má segja. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að ég fái krabbamein aftur.“ Þá segist hún enn vera að læra að lifa með aukaverkunum lyfjanna. „Til þess að einfalda þetta er ég í raun á breytingaskeiði, ég fæ hitakóf og pirringsköst, er með hæga brennslu og er að ganga í gegnum svona hluti sem fylgja yfirleitt breytingaskeiðinu. Þetta er eitthvað sem ég er að reyna að læra inn á og er í raun að læra upp á nýtt hver ég er.“

Sóley hefur þurft að breyta ýmsum lifnaðarháttum í kjölfarið og þarf meðal annars að passa upp á að reyna ekki mikið á hægri hendina þar sem eitlar hennar voru fjarlægðir. „Ég þarf að hugsa mikið um það hvað ég má gera og hvað hentar líkamanum mínum að hverju sinni og því fylgja ákveðnar takmarkanir. Ég má ekki lyfta þungu eða fara í of heitan pott og þarf alltaf að vera með þrýstingsermi þegar ég fer í flug og mun þurfa að nota hana að eilífu. Þannig að það er margt að læra og endurlæra líka. Læknirinn gefur þér lyfin og segir þér fylgikvillana en hann segir þér ekki endilega hvernig sé best að lifa með þeim. Maður verður svolítið að finna út úr því sjálfur og það tekur tíma og er ekki alltaf auðvelt. Það eru alveg ömurlegt inn á milli en svo fer maður úr því hugarfari og hugsar með sér: Ég er hérna, ég er á lífi og ég get tekið þátt í því. Ég get gert allt sem ég vil gera - meira að segja flogið.“

Ævintýri í háloftunum

Sóley segist þakklát fyrir að geta flogið en hún fór til Krítar á Grikklandi í byrjun september og var þar í fimm vikur að safna flugtímum. „Ég leigði mér flugvél hjá flugskólanum Cretan Eagle Aviation. Ég fann skólann á Google en ég var að reyna að finna einhvern skóla í Evrópu sem væri staðsettur þar sem væri gott veðurfar og er með svipaðar vélar og ég er vön að fljúga. Mig langaði að safna flugtímum og náði að fljúga í fimmtíu tíma. Ég er búin með allt námið og þarf í raun ekki að bæta við mig tímum en mig langaði að vinna upp síðastliðið ár og fá aðeins fleiri tíma til að troða mér framar í röðina því það er löng röð í flugmannsstarfið,“ segir Sóley.

Hún segir tíma hennar í Grikklandi hafa verið ævintýri líkast. „Ég keypti mér bara „one way ticket“, ég vissi ekkert út í hvað ég væri að fara og vissi ekkert hvort þessi skóli væri viðurkenndur eða hvort það væri verið að svindla á mér. En ég hugsaði bara með mér að ef þetta yrði ömurlegt myndi ég bara koma fyrr heim. Þetta gekk allt svo ótrúlega vel, ég náði að fljúga mikið og leið vel. Ég var að leigja AirBnB íbúð, ég vissi að dagarnir mínir væru að fara að snúast dálítið um að fljúga og vildi þá vera á stað sem væri nálægt veitingastöðum og var því með íbúð miðsvæðis þannig það var stutt í allt. Ég hélt þetta yrði smá svona Spánarfílingur yfir þessu en þetta var allt öðruvísi, það töluðu allir ótrúlega góða ensku og það var allt mjög hreint og fínt. Ég mun klárlega fara þangað aftur, hvort sem að það verður í frí eða að fljúga, ég heillaðist allavega af Grikklandi.“

Sóley fékk skemmtilega heimsókn frá Telmu, vinkonu sinni, en hún er líka flugmaður og starfar hjá flugfélaginu Air Atlanta. „Upprunalega planið var að ég ætlaði að vera ein á Krít. Telma býr svolítið mikið í ferðatöskunni sinni því hún er að vinna um allan heim. Hún sagði við mig í djóki, rétt áður en ég fór út, að hún myndi koma til Grikklands til mín í fríinu sínu. Ég hvatti hana til að koma og svo varð úr því! Hún var hjá mér í tvær vikur, það var ótrúlega skemmtilegt og þar sem hún er líka vanur flugmaður var mjög þægilegt að hafa hana alltaf um borð með mér og svo sakar ekki um að vera með myndatökumann með sér,“ segir Sóley hlæjandi og bætir við: „Það getur verið smá einmanalegt að vera alein í lengri flugum svo það var notalegt að hafa hana með og geta spjallað á leiðinni.“

Draumur varð að veruleika

Þrátt fyrir þetta stóra verkefni sem Sóley hefur þurft að takast á við hefur hún aldrei gefið upp drauminn að vinna sem atvinnuflugmaður. Stuttu eftir samtal blaðamanns við Sóley varð draumurinn hennar að veruleika þar sem hún fékk vinnu sem flugmaður hjá Air Atlanta. „Ég frétti að Atlanta væri að leita af fleiri flugmönnum en voru ekki búnir að auglýsa sérstaklega eftir þeim. Ég ákvað að senda tölvupóst á þau og athuga nánar með þetta og í raun senda inn umsókn til þeirra. Daginn eftir fékk ég svar um að ég ætti að koma í vikunni eftir til Hollands í próf hjá flugfélaginu. Ég hafði viku til þess að læra og undirbúa mig aðeins, sem ég gerði eins mikið og ég gat. Ég fór svo til Hollands, þar voru nokkrir aðrir Íslendingar sem ég kynntist en við vorum öll á sama hótelinu. Prófið tók svo við og stóð yfir í heilan dag, í því fólst bóklegt próf, próf í flughermi og viðtal. Daginn eftir að ég kom heim fékk ég tölvupóst um að ég hefði fengið starfið. Þetta gerðist allt sjúklega hratt. Ég er mjög spennt, sérstaklega því Telma vinkona mín er líka að vinna hjá þeim,“ segir Sóley og bætir við: „Þetta var alveg draumur áður en hún byrjaði en eftir að hún hóf störf þarna varð þetta aðal draumurinn og það komst eiginlega ekkert annað að. Undirmeðvitundin var að gera allt til að komast þangað. Ferðin sem ég fór til Grikklands er gott dæmi um það, ég fór út til að safna flugtímum og fá meiri reynslu til þess að komast inn hjá Atlanta - og það gekk.“

„Nú ætla ég að njóta þess að lifa drauminn“

Sóley hefur þjálfun hjá flugfélaginu í janúar og segist vera mjög spennt fyrir komandi tímum. „Þetta er sjúklega spennandi, hver vinnutörn er í raun heimsreisa því flestir sem vinna hjá þessu flugfélagi eru að fljúga um allan heim. Það heillar mig svakalega, ég hef séð það hjá Telmu vinkonu að hún hefur fengið að upplifa ótrúleg ævintýri í gegnum það að ferðast um allan heim. Ég er mjög spennt að hafa eitthvað fyrir stafni, að sjá eitthvað nýtt, prófa eitthvað nýtt, kynnast nýju fólki og fara út fyrir litla Ísland. Ég sé fyrir mér að vera þarna eins lengi og ég get. Mér finnst ég núna geta andað aðeins léttar þó svo að ég sé ennþá að átta mig á þessu. En þetta eru geggjaðar fréttir og mig langar liggur við að öskra þær af Berginu. Auðvitað er viss partur af manni sem mun ekki trúa þessu ekki fyrr en ég byrja því ég hef lent í því að lífið taki u-beygju og ég átta mig á því að það getur alltaf gerst. Það hefur eiginlega verið hugsunin hjá mér hingað til en það þýðir ekki að hugsa þannig lengur. Þetta er að fara að gerast og nú ætla ég að njóta þess að lifa drauminn.“