Mannlíf

Eftir kulnun í starfi er hún nú á uppleið
Hjördís og barnabörnin, Bjartur Eldur Þórsson, Aría Sóley Gunnarsdóttir og Ronja Hólm Rúnarsdóttir.
Laugardagur 9. febrúar 2019 kl. 12:04

Eftir kulnun í starfi er hún nú á uppleið

Hjördís Árnadóttir segir frá því í einlægu viðtali hvernig heilsa hennar gaf sig

Hjördís Árnadóttir er af hippakynslóðinni. Hún er fædd 28. desember árið 1952 og ólst upp í bítlabænum Keflavík þar sem öflugt tónlistarlíf setti svip sinn á bæinn á uppvaxtarárum hennar. Hjördís Árna var ein af áhrifavöldum í félagsþjónustu Reykjanesbæjar á árum áður eða allt þar til heilsa hennar gaf sig vegna kulnunar í starfi og hún varð að hætta störfum árið 2014.
Við hittum Hjördísi að máli og báðum hana að rifja upp líf sitt og aðdraganda þess að hún varð að hætta að störfum. Einlægt viðtal fer hér á eftir.


Hippastelpan Hjördís



„Það var rosalega mikil tónlist í Keflavík þegar ég var að alast upp, svo gaman að vera til. Ungó var náttúrlega þá og margar hljómsveitir að koma fram þar. Svo kom Stapinn. Ég ólst upp á Túngötu 15 og hlakkaði mikið til að komast á ball í Ungó, þarna rétt yfir götuna. Þegar ég var nýorðin sextán ára og ætlaði á ball í Ungó loksins, þá gleymdi ég nafnskírteininu heima og fékk ekki að fara inn á áramótaballið. Ég kom heim alveg brjáluð og stjúppabbi minn, sem ég lít nú alltaf á sem pabba minn, var alltaf með svo mikla réttlætiskennd að hann fór með mig yfir götuna og talaði við dyraverðina sem urðu lúpulegir því þeir voru ekki vanir því að foreldrar kæmu með krakkana sína. En þarna var pabbi og sagði við þá: „Þetta er dóttir mín og hún hefur fullt leyfi til að fara á þetta ball og ein vinkona mín sem ekki var orðin sextán slæddist inn með mér. Þetta voru góðir tímar. Mikil gróska í Keflavík og við krakkarnir að labba upp og niður Hafnargötuna, aðalgötu bæjarins. Við vinkonurnar vorum auðvitað að kíkja á strákana. Það hittust allir á Hafnargötu á kvöldin. Ísbarinn var aðalsjoppan en Kalli gyðingur leyfði okkur unglingunum alltaf að hanga þar inni.
Stundum var troðfullt þarna. Kalli var fínn karl. Þarna var líka besti ísinn í bænum,“ segir Hjördís og brosir þegar hún rifjar upp gamla tíma í Keflavík. Hún segist hafa átt í erfiðleikum með að lesa þegar hún var yngri og væri örugglega greind í dag með lesblindu og sjálfsagt ofvirk einnig. Þessir örðugleikar gerðu það að verkum að hún var að gefast upp á unglingastigi en vegna elju mömmu hennar þá kláraði hún gagnfræðaprófið og fór síðan að vinna.

Langaði að verða arkitekt

„Mig langaði að verða arkitekt en vissi að þá þyrfti ég að fara í langskólanám og það vildi ég ekki vegna lestursins. Ég spáði einnig í tískuteiknun því ég var alltaf að teikna. Ég var að teikna föt á okkur vinkonurnar til dæmis skósíða kápu, engin eins, aðsniðnar í mitti en víðar að neðan. Mamma var svo flink að sauma eftir teikningunum mínum og saumaði á mig og vinkonur mínar líka eftir hugmyndum mínum. Ég kláraði gaggó en fór svo bara að vinna hjá Heimi Stígs heitnum ljósmyndara og vann hjá honum í tvö ár. Ég gerði allt þar, tók myndir og litaði myndir en þá voru ekki komnar litmyndir. Hann bauð mér að læra ljósmyndun en það vildi ég ekki.“
Hjördís segist vera frumkvöðull í eðli sínu. Henni fannst alltaf langskemmtilegast að vera með í að móta eitthvað frá grunni og læra eitthvað nýtt í leiðinni. Hún er tilfinningarík að eðlisfari og þarf að finna eldmóð fyrir því sem hún er að gera.



Hjördís vann með bæjarstjórunum, þeim Jóhanni Einvarðssyni og Steinþóri Júlíussyni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Varð kornung innheimtustjóri hjá Keflavíkurbæ

„Svo var auglýst staða hjá Keflavíkurbæ en þá voru skrifstofurnar staðsettar á Hafnargötu 12. Þar var ég ráðin sem aðstoðarmanneskja framfærslu- og innheimtufulltrúa bæjarins sem þá var Björgvin Árnason. Þarna var ég 21 árs komin inn fyrir bæjarbatteríið og fann styrkleika mína í því starfi. Nándin við viðskiptavini fannst mér gefa mér mikið og fann að ég var þarna til að þjóna þeim en ekki öfugt en þannig á það að vera. Eitt leiðir af öðru. Þetta varð minn háskóli, vinna mín í opinbera kerfinu. Í gegnum árin menntaði ég mig meðfram starfi meðal annars í opinberri stjórnsýslu, sem var mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að henni fylgja til að mynda lög og reglugerðir sem maður þarf að þekkja. Ég var í miklum samskiptum við bæjarstjóra og kynntist þeim nokkrum sem mér fundust hver öðrum hæfari í því sem þeir voru að gera á þessum tíma. Þarna var ég ung kona komin með stigvaxandi ábyrgð og endaði sem innheimtustjóri Keflavíkurbæjar. Þá var ég ekki lengur í samskiptum við hinn almenna bæjarbúa heldur tölur og peninga. Ég saknaði þess að vera ekki lengur í tengslum við almenning. Þetta var farið að trufla mig og ég fór að bera í víurnar og vildi vinna við annað. Ég byrjaði sem sagt á gólfinu en endaði sem innheimtustjóri með mikla ábyrgð. Ég ákvað að hætta alveg hjá bænum og vann í  tæp tvö  ár á fasteignasölu en sótti svo um stöðu forstöðumanns Þroskahjálpar á Suðurnesjum.“

Þroskahjálp á Suðurnesjum

Þetta var á fyrstu  árum Þroskahjálpar  og mikið frumkvöðlastarf framundan sem heillaði Hjördísi sem elskaði að ryðja nýja braut.
„Þetta var dásamlegur tími og ég naut þess að vinna að því uppbyggingarstarfi sem fór þarna fram. Þá vantaði mig viðeigandi menntun en ég hafði reynslu sem var meira metið þá en í dag. Ég er svo mikill leiðtogi í mér að ég treysti mér í alls konar störf. Á þessum tíma vorum við að stíga mörg fyrstu skref í átt til þess sem seinna varð sjálfsagt mál eins og skammtímavistun til að létta álagi á fjölskyldur þeirra sem eiga fötluð  börn. Þarna gekk maður í öll störf á meðan verið var að innleiða þessa þjónustu og ég tók næturvaktir einnig. Þetta var tækifæri fyrir alla til að víkka út sjóndeildarhringinn. Þarna starfaði gott fólk en mér fannst ég sjálf ekki ná alveg nógu vel utan um starfsmannamálin á faglegum grunni þó að rekstrarlega gengi það ágætlega. Svo þegar svæðisskrifstofa Reykjaness hóf störf þá upplifðum við allt í einu miklu meira ströggl en áður í samskiptum við hið  opinbera. Allt þetta varð til þess að mér fannst ég ekki gera eins mikið gagn og fyrstu árin og missti eldmóðinn fyrir starfinu. Þegar eldmóðurinn slokknar þá vil ég yfirgefa og leyfa öðrum að taka við. Annað er ekki sanngjarnt,“ segir Hjördís.

Starfsreynsla Hjördísar vel metin


Á þessum árum var háskólanám ekki eins fjölbreytt eins og það er í dag. Fólk var því oft ráðið vegna starfsreynslu þess en ekki vegna háskólagráðunnar. Þá þótti það gott að fá fólk sem kunni til verka og hafði reynslu úr atvinnulífinu. Hjördís hélt því áfram með eljuna í farteskinu, alla starfsreynsluna og leiðtogahæfileika. Hún fékk nýtt starf hjá Njarðvíkurbæ sem félagsmálastjóri en þá voru íbúar þess bæjar um 2.300 talsins. Hún var með í að móta starfið þar frá grunni.
„Þarna var ég í essinu mínu og fékk að móta nýtt starf sem mér fannst ótrúlega gaman. Allskonar þjónusta við bæjarbúa. Þarna var ég að móta og ryðja leiðina. Fékk rosaleg tækifæri og traust yfirmanna til þess. Bjó meðal annars til félagsstarf aldraðra, skapaði aðstæður fyrir þau til að hittast einu sinni í viku, fór einnig þangað sjálf og hlustaði á hvað þau vildu gera. Þetta var ákveðin hvíld fyrir mig að hitta þau því ég var með allan pakkann í starfinu mínu, barnavernd og fleira. Að hitta þau var sú næring sem ég þurfti á þeim tíma.“


Hjördís ásamt Árna Sigfússyni bæjarstjóra rétt fyrir starfslok sín.

Reykjanesbær verður til

Tíminn líður. Njarðvík, Hafnir og Keflavík ákveða að sameinast í Reykjanesbæ árið 1994. Hjördís er spurð hvort hún vilji starfa sem félagsmálastjóri Reykjanesbæjar. Hún leggst undir feld og ákveður að taka við starfinu enda treyst af bæjarstjórum og fulltrúum sveitarfélaganna sem unnu  að samruna bæjanna.
„Ég treysti mér í þetta starf og fann að bakland yfirmanna studdi mig í starfið sem félagsmálastjóri Reykjanesbæjar. Í samrunanum var verið að finna sem flestum störf og ekki voru allir sáttir við það að ég fengi þessa stöðu, með enga formlega háskólamenntun þó ég væri mikill reynslubolti á þessu sviði og hafði sannað mig. Ég naut ekki trausts allra þeirra sem áttu að vinna með mér og það var ekki góð tilfinning. Ég ætlaði sko að sýna að ég gæti valdið starfinu og lagði mig alla fram. Ég hlífði ekki sjálfri mér á neinn hátt. Vinna mín var orðið mér allt. Þarna byrjar líkami minn að gefa sig. Mér var mikið í mun að sanna mig í starfi en var um leið að skapa mikla spennu og streitu í sjálfri mér. Þarna byrja ég að finna fyrir vefjagigt sem ég glími ennþá við í dag. Á einu ári var ég hætt að sofa heila nótt, léttur svefn alla nóttina. Það er vitað mál að góður svefn er undirstaða góðrar heilsu. Ég fór að fá viðvarandi höfuðverk og endaði inni á bráðamóttöku því fjölskyldunni minni stóð ekki á sama. Læknar fundu ekki neitt að mér en fólkið mitt hélt að ég væri komin með heilaæxli. Ég stóð ekki í lappirnar. Mætti í vinnu samt þrátt fyrir lítinn svefn. Þraukaði daginn í vinnunni og mætti svo heim alveg búin á því og gat ekki meir.“

„Ég ætlaði sko að sýna að ég gæti valdið starfinu og lagði mig alla fram. Ég hlífði ekki sjálfri mér á neinn hátt. Vinna mín var orðið mér allt. Þarna byrjar líkami minn að gefa sig.“



Hjördís og nánasta starfsfólk Félagsþjónustu Reykjanesbæjar á kveðjudegi hennar í starfinu árið 2014.

Kunni ekki að setja mörk

Hjördís segir að hún hafi alltaf haft þessa tilhneigingu að ofgera sér. Hún byrjaði í Leikfélagi Keflavíkur á sínum tíma þegar verið var að byggja það upp aftur eftir nokkurra ára lægð og hún hellti sér í að leika þar í leikriti með lítið barn heima og eiginmann. Var á kafi þar í sex vikur að æfa fyrir leiksýningu. Svo var hún fengin til að vera í stjórn Leikfélags Keflavíkur og allt í einu endaði hún sem formaður þar. Hún segist alltaf hafa farið alla leið í öllu og gleymt að hlífa sjálfri sér eða hlusta á líkamann. Eldmóðurinn slokknar og hún ákveður að snúa sér að öðru.  Hún hafði gaman af að mála og gekk til liðs við myndlistarfélagið. Áður en varði var hún orðin formaður félagsins, stofnaði Myndlistarskóla Suðurnesja, Listaskóla barna o.fl. Eins og áður fór eldmóðurinn með auknu álagi og hún dró sig í hlé.  Hún fór í kór Keflavíkurkirkju og naut þess að syngja með þeim. Þegar hún var beðin um að vera með í stjórn ákvað hún í ljósi reynslunnar að segja nei.


„Ég veit ekki hvað það er í mér, kannski er ég alltof samviskusöm. Ég endaði alltaf á því að vera komin með of mikla ábyrgð sem varð mér ofviða á þessum tíma þegar ég var að byrja að  upplifa kulnun, þegar ég var að brenna út í báða enda. Á ákveðnum tíma í lífi mínu þarna var allt í upplausn. Ég gat ekki bjargað hjónabandi mínu og skildi við manninn minn sem var mjög erfitt fyrir alla aðila en við eigum þrjú uppkomin börn saman. Í frítíma mínum varð ég að finna mér eitthvað að gera. Þess vegna fór ég í kirkjukórinn og var fyrsta konan að ganga í Rótarýklúbb Keflavíkur. Þar var mjög  gott og  fallegt  samfélag. Ég var forseti klúbbsins í eitt ár en hætti síðan þegar ég flutti til Reykjavíkur. Á sama tíma hætti ég í kórnum, því ég vil geta verið 100% í því sem ég tek að mér.  Alltaf mætti ég til vinnu og reyndi að standa mig eins vel og ég gat þrátt fyrir lítinn svefn. Þarna er líkaminn hættur að vinna með mér og ég er algjörlega uppgefin. Þá byrja ég að fá mér bjór eða rauðvín á kvöldin eftir vinnu til að slaka á. Það er allt á niðurleið. Efnahagshrunið  2008 setti strik í reikninginn bæði í vinnu og einkalífi. Ég hafði keypt stórt hús í Keflavík handa mér og dóttur minni, yngsta barni okkar til að búa í eftir skilnaðinn. Þegar dóttir mín fór til náms í útlöndum þá var húsið allt of stórt fyrir mig eina og lánið át upp eignina svo ég ákvað að selja það og slapp úr þeim viðskiptum á núlli. Þá fór ég á leigumarkaðinn. Þegar dóttir mín kom aftur heim úr námi þá ákváðum við þrjú, ég, hún og elsti sonur minn að kaupa gamalt hús í Reykjavík í vesturbænum og búa þar. Það bara kom upp í hendurnar á okkur.



Mæðgurnar þrjár, Ósk, Guðrún og Hjördís.

„Samviskusemi mín gat stundum farið út fyrir öll mörk gagnvart sjálfri mér. Undanfarin ár hef ég auðvitað verið að endurskoða líf mitt og reyna að átta mig á því hvers vegna ég er svona eins og ég er.“

Á þessum tíma bjó ég virka daga heima hjá aldraðri móður minni í Keflavík á meðan ég var í vinnunni hjá Reykjanesbæ en dvaldi um helgar á nýju heimili mínu með krökkunum mínum í Reykjavík. Þetta var yndislegur tími þar sem ég náði að tengjast mömmu minni vel og rækta samband okkar betur áður en hún dó. Þarna var ég einnig farin að vinna í mínum málum og leita mér hjálpar. Það hafði ég reyndar gert áður til að mynda hjá fagfólki í Grindavík, Svönu og Brynjari, sem hjálpaði mér þegar ég var sem verst  að losa um spennunna í líkamanum mínum.“


Hjördís fór á þessum árum ítrekað í endurhæfingu bæði í Hveragerði og á Húsavík. Þegar hún var búin að ná sér þokkalega á strik þá var hún samt ekki enn búin að læra lexíuna sína eða að farin hlusta á skilaboðin frá líkamanum.
„Ég fer á sama styrk aftur eftir alla þessa hjálp og naut mikils trausts hjá Árna Sigfússyni bæjarstjóra sem er frumkvöðull í eðli sínu eins og ég. Maður sem tendraði fólk til dáða í kringum sig. Hann leyfði mér að blómstra í starfi, hlustaði á hugmyndir mínar og spurði mig hvernig ég gæti látið  þær verða að veruleika innan þess fjárhagsramma sem félagsþjónustunni voru settar. Ég fór mismunandi leiðir til að létta álagi á starfsfólki mínu. Þarna var ég búin að sanna mig í starfi og flestir sáttir við störf mín. Það var mjög gaman í vinnunni og Árni leyfði mér að blómstra en gerði eðlilegar kröfur til mín sem stjórnanda. Eftir hrun sáum við þörfina í bæjarfélaginu fyrir öflugri geðheilbrigðisþjónustu og Björgin varð til. Aftur ofgeri ég mér. Ég gat bara ekki hætt að vinna yfir mig, staldra við og slaka á. Árni sá hvert stefndi með mig og bauð mér að taka mér tímabundið leyfi frá stjórnun félagsþjónustunnar og vinna að verkefnastjórn við uppbyggingu einstakra verkefna. Þarna var ég farin að átta mig á að starfslok væru ekki langt undan en ég vildi klára starfsævina hjá félagsþjónustunni og hlustaði því ekki á ráð hans. Ég var hætt í öllu félagsstarfi og peppið frá Árna hélt mér gangandi í starfinu mínu. Ég varð alltaf að fara í botn með allt sem ég gerði.“

Hef verið að endurskoða líf mitt
 
„Það var alltaf þetta sama hegðunarmynstur hjá mér að ég byrjaði í einhverju og svo áður en ég vissi af var ég komin með mikla ábyrgð. Samviskusemi mín gat stundum farið út fyrir öll mörk gagnvart sjálfri mér. Undanfarin ár hef ég auðvitað verið að endurskoða líf mitt og reyna að átta mig á því hvers vegna ég er svona eins og ég er. Ég var elst í tveim barnahópnum en ég átti tvær fjölskyldur, aðra fyrir austan og hina í Keflavík. Það var heilmikið álag á barn að fara árlega sumarlangt frá mömmu. Mamma ól mig upp í þeirri hugsun að ég gæti allt og þetta veganesti hefur alltaf fylgt mér og kannski háð mér einnig því ég hef gert miklar kröfur til sjálfs míns.“



Ný bæjarstjórn breytti öllu


Bæjarbúar muna sjálfsagt glöggt niðurskurðinn þegar ný bæjarstjórn tók við völdum  í Reykjanesbæ árið 2014 og neikvæð rekstrarstaða bæjarsjóðs kom harkalega niður á allri þjónustu og stöðugildum innan bæjarins. Erfiðir tímar fóru í hönd hjá Reykjanesbæ.
„Þegar ný bæjarstjórn tekur við þá hrynur baklandið mitt. Árni bæjarstjóri fer og stuðningur við störf mín hvarf á svipstundu. Niðurskurður var á öllum sviðum. Félagsþjónustan, eins og aðrar stofnanir, varð fyrir barðinu á niðurskurði. Þetta var mjög erfitt tímabil hjá öllum starfsmönnum bæjarins. Lögð var áhersla á að halda skjólstæðingum frá og mér fannst komin krafa um að setja upp gaddavírsgirðingu á milli okkar og skjólstæðinga okkar. Í stað þess að þjóna fólki eins og áður urðum við að halda fólki frá. Mér finnst þetta einkenna opinberar stofnanir í dag, viðhorfið er að stoppa þetta innflæði af „vesalingum“. Fólkið sem þarf virkilega á aðstoð að halda hrökklast burt og byrjar að einangra sig, vandamálið verður enn stærra fyrir vikið. Þetta erfiða tímabil gerði það að verkum að heilsa mín hrundi algjörlega.“



Hjördís ásamt móður sinni, börnum sínum þremur og elsta barnabarninu.
F.v. Ósk Jóhannesdóttir, Guðrún Emilsdóttir, Þór Jóhannesson, Bjartur Eldur Þórsson, Hjördís Árnadóttir og Rúnar Jóhannesson.

Gat ekki stoppað mig sjálf!

„Ég leitaði til fagaðila sem benti mér á að ég gæti ekki lagt meira á mig. Ég væri búin að láta líkama minn hlaupa tvöhundruð maraþon en þoldi bara tíu. Líkaminn var uppgefin og ég vissi það en kunni ekki að stoppa sjálf. Þarna varð ég að hlusta og einnig þegar engin var á hliðarlínunni til að peppa mig í starfi þá varð mér allri lokið. Ég fór í veikindaleyfi í eitt ár sem þróaðist út í það að ég fór á örorkubætur í kjölfarið. Í dag er ég 66 ára og nýt eftirlauna. Fyrsta árið án vinnu hjá bænum leið mér hræðilega. Mér leið eins og ég væri nobody. Þetta var svo erfitt því ég hafði lagt allt mitt í þetta starf en nú gat ég ekki unnið lengur vegna þrekleysis og kulnunar. Í svo mörg ár var ég búin að hunsa skilaboð líkamans um meiri hvíld en ég  kunni ekki annað en að halda áfram.“


Uppbygging tekur við

„Ég hef lært mikið af því að ganga í gegnum þetta allt saman. Þennan tíma sem ég var sjálf öryrki sá ég vel hvernig framkoma stofnanna er við öryrkja. Bara dæmi þegar ég fór í sundlaugina í Reykjavík þar sem engin þekkti mig og ég stóð í röðinni. Á undan mér var maður sem vísaði öryrkjakorti sínu til þess að komast ofan í og starfsmaður sýndi honum mikla lítilsvirðingu og henti í hann teygju sem var öðruvísi á litinn en aðrir fengu. Þetta fólk er sérmerkt í lauginni. Mér fannst honum sýnd svo mikil lítilsvirðing að þegar kom að mér þá tók ég upp veskið og borgaði mig ofan í því ég vildi ekki fá sömu meðferð hjá þessum starfsmanni. Í dag opna ég munninn ef ég verð vitni að slíkri vanvirðingu gagnvart öryrkjum og öðru fólki. Það er engin að leika sér að því að vera öryrki. Af því að ég hef upplifað að vera beggja vegna borðsins þá skil ég mun betur líðan þeirra sem eru háðir opinberri þjónustu og sem eiga hlýlegt viðmót skilið því oft er þetta fólk með mjög brotna sjálfsmynd. Það vilja örugglega allir vera frískir,“ segir Hjördís með áherslu.



Í dag er Hjördís farin að mála englamyndir undir nafninu Amma Hjördís.

Kúvending

„Mér líður vel í dag.  Ég er þakklát að eiga líf eftir vinnu. Ég hef lært að „sleppa” og lifa í núinu, gera það sem mig langar að gera hverju sinni. Ef mig langar ekki að þrífa, þá bíður það þangað til mig langar að gera það. Ég er samt ekki sóði eða trassi. Ég hugleiði reglulega og finn þessa innri ró. Ég hef ekki áhyggjur af neinu. Treysti almættinu fyrir mér og mínum. Þakka daglega fyrir hvern nýjan dag og tala mikið við englana mína og almættið um allt. Spegla mig í þeim og fæ alltaf svör, kannski ekki samdægurs en svör fæ ég. Í mörg ár hef ég synt mikið. Ég geng líka mikið úti. En dansinn hefur verið minn öflugasti vettvangur til að losa um andleg óhreinindi og streitu. Ég skrifa ljóð og mála englamyndir. Samband mitt við börnin mín, tengdabörn og barnabörn er afar fallegt og gefur mér mikið. Ég leik mér við börnin og finn að þau hænast að mér. Ég reyni líka að rækta það fólk sem ég hef hitt á lífsleiðinni, ekki bara ættingja og vini, einnig fólk sem ég finn samhljóm með og líður vel með. Ég rækta barnið í mér og finn mjög sterka nánd við börn og einlægt fólk sem verður á vegi mínum. Ég hlusta orðið ágætlega á líkama minn og hvíli mig þegar ég finn að ég hef farið of geyst. Ég forðast að lifa í skipulagi en kem samt öllu í framkvæmd sem ég þarf að gera og ætla mér að gera. Það tekur bara þann tíma sem þarf hverju sinni. Ég finn hvað tengsl mín við náttúruna verða sterkari með hverri nýrri árstíð. Samspil þessa alls hefur fært mér heilbrigðari sál í gömlum slitnum líkama, sem er bara nokkuð heill þrátt fyrir að ég hafi í gegnum tíðina gengið allt of nærri þolmörkum hans.“

Má koma í veg fyrir kulnun Hjördís?

„Í dag er kulnun raunverulega viðurkennt heilbrigðisvandamál og fær sanngjarna umfjöllun. Mitt besta ráð er að „sleppa” tökunum og treysta á eitthvað æðra en maður sjálfur. Njóta augnabliksins, gefa af sér og gefa sér tíma til að upplifa hvað það er mikil heilun í því. Mennskan er mun sterkara afl en öll veraldleg gæði. Þegar við lærum það, dregur sjálfkrafa úr lífsgæðakapphlaupinu. Í staðinn kemur lífsfylling sem léttir okkur lífið og allt verður miklu skemmtilegra. Eitt er líka afar mikilvægt í því að vinna sig út úr kulnun en það er að láta af skömminni sem gjarnan fylgir því að standa ekki undir væntingum til sjálfs síns. Á minni löngu starfsævi fann ég einnig hvað tölvupósturinn er mikill álagsvaldur og skapar beinlínis áreiti hjá fólki sem vinnur til að mynda á þjónustustofnunum. Hann er mun meira krefjandi og ópersónulegri en mannleg samskipti og símtöl. Ég held að hann eigi stóran þátt í aukinni kulnun hjá mörgum stéttum.“



[email protected]