Lagardere
Lagardere

Mannlíf

Dúx FS stefnir á sálfræðinám í Danmörku
Júlía Sól Carmen Rafaelsdóttir var með hæstu meðaleinkunina á haustönn.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 10. janúar 2023 kl. 17:20

Dúx FS stefnir á sálfræðinám í Danmörku

Lærir dönsku í appi. Saknaði félagslífs fyrstu tvö árin.

Júlía Sól Carmen Rafaelsdóttir, dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja á haustönn 2022 hefur mikinn áhuga á sálfræði og stefnir í framtíðinni á háskólanám á Norðurlöndum. Júlía Sól útskrifaðist af Félagsvísindabraut og var meðaleinkun hennar 8,57.

Gangan að stúdentinum tekur þrjú ár í dag en hér áður fyrr var miðað við fjögur ár, þó gátu þeir skörpustu klárað á þremur og hálfu ári. Júlía var ein þessara óheppnu framhaldsskólanema sem fóru nánast algerlega á mis við félagslífið vegna COVID: „Það var félagslíf haustið 2019 en frá og með þeim tíma sem COVID skall á var ekkert í gangi. Árin 2020 og 2021 eru því í minningunni leiðinleg og maður þurfti bara að vera heima í fjarnámi. Fjörið byrjaði samt á síðasta ári en 2022 var langskemmtilegasta árið og félagslífið fjörugt, þó ekki það mikið að ég gæti ekki sinnt náminu líka.“

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Júlía veit ekki fyrir víst hvað hún vill leggja fyrir sig þegar kemur að háskólanámi og ætlar að vinna og safna pening fyrst en hún hóf nýverið störf í Optical studio. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sálfræði og kæmi mér ekki á óvart að ég muni læra það þegar ég fer í háskóla. Ég hef mjög mikinn áhuga á að læra á Norðurlöndunum og þá helst í Danmörku. Ég hef líka spáð í nám í Bandaríkjunum, það er þægilegra upp á tungumálið að gera en eins og mér líður núna stefnir hugurinn til Danmerkur. Ég er meira að segja að æfa mig í dönsku þessa dagana, í appi sem heitir Duo lingo. Planið í sumar er svo bara að sinna vinunum, hafa gaman og vinna,“ segir dúxinn Júlía Sól að lokum.

Júlía Sól tekur við hamingjuóskum frá Kristjáni Ásmundssyni, skólameistara.