Mannlíf

Drippluðu bolta með ströndinni frá Njarðvík í Skessuhelli
Föstudagur 11. september 2020 kl. 10:40

Drippluðu bolta með ströndinni frá Njarðvík í Skessuhelli

Stór hópur stelpna á aldrinum níu til þrettán ára drippluðu bolta með ströndinni frá íþróttahúsinu í Njarðvík að Skessuhellinum í Gróf síðasta föstudag. Hópurinn samanstendur annars vegar að tólf og þrettán ára stelpum í 7. og 8. bekk sem þær Eygló Alexandersdóttir og Bylgja Sverrisdóttir eru að þjálfa í körfuknattleik og svo stelpur í níu ára minnibolta sem Bylgja þjálfar.

Bylgja segir að það hafi verið fín æfing að ganga þessa leið og drippla bolta. Þegar komið var að Skessuhellinum beið svo eftir hópnum flott hressing en Eygló og Ragnar, tengdaforeldrar Bylgju, höfðu bakað pönnukökur. Það voru því upprúllaðar pönnukökur og muffins sem var skolað niður með djús í sól og blíðu og góðu skjóli fyrir norðanáttinni. Eygló og Ragnar fóru létt með baksturinn enda hafa þau keppt nokkrum sinnum í pönnukökubakstri á Landsmóti Ungmennafélags Íslands.

„Þetta var mjög gaman og frábært að blanda aldrinum, þessar yngri líta mikið upp til þeirra sem að eldri eru,“ sagði Bylgja Sverrisdóttir í samtali við Víkurfréttir.

Meðfylgjandi myndir voru teknar af hópnum á ferðalaginu með boltana á föstudaginn.