Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Dreymir um kóngabláa bjöllu – krómaða í drasl
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 14. júní 2020 kl. 11:23

Dreymir um kóngabláa bjöllu – krómaða í drasl

Hársnyrtimeistarinn Elín Ása Einarsdóttir er hvatvís og ör, hún trúir að Tæland sé eitt fallegasta landið á hnettinum og langar að heimsækja það. Elín Ása syngur líka í bílnum þó hún sé kannski pínuuu fölsk.

– Nafn:

Elín Ása Einarsdóttir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

– Árgangur:

1977.

– Fjölskylduhagir:

Er í sambúð og erum með fjögur börn saman.

– Búseta:

Keflavík.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin?

Foreldrar mínir eru Einar Guðberg Gunnarsson og Guðný Sigurðardóttir, ég er fædd og uppalin upp í Keflavík.

– Starf/nám:

Hársnyrtimeistari.

– Hvað er í deiglunni?

  lifa og njóta í núinu með fjölskyldunni og vinum.

– Hvernig nemandi varstu í grunnskóla?

Ég var hvatvís og ör en samviskusöm með námið og skilaði góðum einkunum.

– Hvernig voru framhaldsskólaárin?

Þau voru skemmtileg og ævintýrarík.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Ætlaði alltaf að verða hársnyrtimeistari, það kom aldrei neitt annað til greina.

– Hver var fyrsti bíllinn þinn?

Það var Fiat Uno og minnir mig að hann var árgerð 1976.

– Hvernig bíl ertu á í dag?

Ég er á Toyota Auris 2011.

– Hver er draumabíllinn?

Kóngablá bjalla, krómuð í drasl, árgerð 1972–1973 og með svörtu leðri að innan og góðum græjum svo ég þurfi ekki hlusta á sjálfa mig syngja.

– Hvert var uppáhaldsleikfangið þitt þegar þú varst krakki?

Ég elskaði hjólið mitt.

– Besti ilmur sem þú finnur:

Ilmurinn í sveitasælunni þegar það er að kvölda og nýbúið að rigna, þá kemur mildur og ferskur ilmur af trjánum/náttúrunni ... það er það allra besta.

– Hvernig slakarðu á?

Hmmm, góð spurring … en ætli það sé ekki þegar ég fer í bað á kvöldin og tek smá „me-time“ í ró og næði. Þá er ekkert annað að trufla og ég neyðist til að slaka á.

– Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. sautján ára?

Klárlega rokk, Skid Row var alltaf í fyrsta sæti og svo Guns’n’Roses og AC/DC – og jú Bubbi var nú alltaf líka í uppáhaldi.

– Uppáhaldstónlistartímabil?

80’s rokk.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Er alæta á tónlist í dag þannig að ef ég get blastað tónlistinni í bílnum og sungið með þá er ég sátt, þó restin af fjölskyldunni er ekki á því að ég eigi vera að syngja því ég er kannski pínuuu fölsk.

– Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?

Allskonar Jazz og Rock.

– Leikurðu á hljóðfæri?

Nei.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Horfi aðallega á Netflix, á sakamálaþætti og þætti um víkingatímabilið – og jú, dett stundum inn í dramaþætti.

– Besta kvikmyndin:

Shawshank Redemption.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða rithöfundur?

Arnaldur Indriðason er uppáhaldsrithöfundurinn minn en á ekki eina uppáhaldsbók.

– Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?

Ég mastera í djúsý folaldasteik með ofnsteiktum sætum kartöflum sem eru baðaðar upp úr olíu og kryddi, ljúffengu salati og piparostasveppasósu – og ég er mikið fyrir það að útbúa ljúffengan mat en hann þarf einnig að líta vel út á disknum, því vel eldaður matur er ekki jafngóður ef hann tekur sig ekki vel út á disknum.

– Hvernig er eggið best?

Linsoðið.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Meðvirkni.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Leti og seinagangur.

– Uppáhaldsmálsháttur eða tilvitnun:

Glymur hæst í tómri tunnu.

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Það var þegar ég var að fara í aðgerð fjögurra ára gömul og þurfti vera ein yfir nótt á spítalanum. Hjúkrunarkonurnar sáu óttann í mér og rúlluðu rúminu fyrir framan herbergið þeirra og ég fékk að horfa á sjónvarpið í gegnum glerið þar til ég sofnaði.

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Lifðu hverja stund, hlæðu alla daga og elskaðu ótakmarkað.

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Ég færi klárlega aftur í æskuna og myndi vilja kósý tíma með ömmu minni sem ég var mjög náin og sakna mikið.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Kletturinn.

– Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera?

Donald Trump og ég myndi byrja á því að segja af mér sem forseti, láta leggja mig inn á geðdeild og sjá til þess að hann gæti ekki aftur snúið til baka sem forseti!

– Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð?

Unnustanum og foreldrum mínum.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Eins og ég sé í rússibana og ég veit ekki hvað gerist í næstu lykkju.

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Já, sumarið verður frábært í alla staði. Hvort sem það verður sól eða rigning þá verður þetta frábært sumar sem ég ætla njóta með fjölskyldunni og vinum.

– Hvað á að gera í sumar?

Ég ætla mér að ferðast um landið með fjölskyldunni og vinum, bæði á mótorhjólinu og húsbílnum. Svo ætla ég mér að njóta þess að vinna og æfa ... það var alltaf sjálfsagt að gera þessa hluti en eftir að vera án vinnu og Sporthússins út af COVID-19 þá nýt ég þess enn meir eftir að allt var opnað aftur. Þannig ég ætla mér að NJÓTA!

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Ég ætla mér að njóta Íslands og ferðast um fögru eyjuna okkar.

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Það fer alveg eftir áhugasviði hvers og eins en ætli ég færi ekki út fyrir bæinn og fara á Gunnuhver og Reykjanesvita og þar í kring, það er svo fallegt þar og margar perlur á Reykjaneshringnum.

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu ...

... til Tælands því mig hefur alltaf dreymt um að skoða landið og upplifa menninguna þar. Af myndum af dæma þá held ég að það sé eitt af fallegustu löndunum á hnettinum.