Mannlíf

Drekka í sig skemmtilegar sögur á Garðskaga
Húsfyllir var á sagnastundinni síðasta laugardag á Garðskaga. VF-myndir: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 18. febrúar 2023 kl. 07:02

Drekka í sig skemmtilegar sögur á Garðskaga

Sagnastundir á Garðskaga eru viðburðir sem hafa fallið vel í kramið hjá fólki sem þær hefur sótt. Nú hefur viðburðurinn verið haldinn þrisvar sinnum á veitingastaðnum við byggðasafnið á Garðskaga og ávallt fyrir fullu húsi.

Í fyrstu sagnastundinni komu varðskipsmenn af Óðni og kynntu endurbætur á þessu gamla varðskipi sem í dag er svokallað safnskip. Þeir komu aftur á aðra sagnastundina og sögðu þá frá björgunarafreki þegar flotkví sem var á reki í Atlantshafi var bjargað í aðgerð sem tók marga daga.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Síðasta laugardag komu svo þrír gamlir skipstjórar og sögðu sögur af sjónum. Það voru þeir Ásgeir Magnús Hjálmarsson, Hafsteinn Guðnason og Magnús Guðmundsson. Allir höfðu þeir frá skemmtilegum sögum og ævintýrum að segja.

Magnús Guðmundsson sagði m.a. frá draumförum sjómanna í erindi sínu.

Næsta sagnastund verður laugardaginn 11. mars kl. 15. Þá kemur Björn G. Björnsson leikmyndahöfundur og segir frá risastóru kvikmyndaverkefni sem m.a. fór fram í Garðinum árið 1972 þegar sjónvarpsmyndin Brekkukotsannáll, um samnefnda sögu Nóbelsskáldsins Halldórs Laxnes, var tekinn upp í Garði. Verkefnið var umfangsmikið og komu margir Garðmenn að því á sínum tíma og fengu jafnvel aukahlutverk í myndinni.

Sviðsmynd úr Brekkukotsannál sem reist var við Miðhúsasíkið. Mynd: Björn G. Björnsson


Í apríl er síðan væntanleg frásögn frá stríðsárunum í Garði.

Það eru æskufélagarnir Bárður Bragason frá Urðarfelli og Hörður Gíslason frá Sólbakka sem standa fyrir sagnastundunum í samstarfi við veitingahúsið Röstina og Byggðasafnið á Garðskaga, sem er opnað sérstaklega fyrir gesti fyrir og eftir viðburðinn.

Frá sagnastund á Garðskaga þar sem sagðar voru sögur af sjónum.

Í spilaranum hér að neðan má sjá innslag úr Sjónvarpi Víkurfrétta frá sagnastund á Garðskaga.