Mannlíf

Draumur að vera með lítinn búskap
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
mánudaginn 17. júní 2019 kl. 07:52

Draumur að vera með lítinn búskap

Sumum finnst rómantík í því að búa út af fyrir sig og vera með nokkur húsdýr. Öðrum finnst þetta ekkert spennandi og vilja bara kaupa mjólkina sína, eggin og kjötið í næstu verslun.

Það sveif samt ákveðin rómantík yfir vötnum þennan fallega sólríka morgun þegar blaðamaður renndi í hlað á Norður Flankastöðum, lögbýli sem staðsett er rétt fyrir utan Sandgerði, í miðjum Suðurnesjabæ. Kindurnar voru að bíta gras á túninu, á meðan lömbin skoppuðu í kringum mæður sínar. Hænurnar voru rétt ókomnar út í tæra morgunloftið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hjónin, Sigríður Bryndís Sigurjónsdóttir 71 árs og Gísli Ólafur Ólafsson 73 ára, eru komin á eftirlaun og njóta þess að vera með lítinn búskap heima í túnfæti. Þau keyptu lögbýlið Norður Flankastaði árið 1973 og segjast vera hobbýbændur.

Fékk fyrsta lambið gefins

Þau eru bæði hætt að vinna og lifa nú drauminn þegar þau geta sinnt dýrunum sínum allan daginn ef þau vilja.

„Ég er vélstjóri og vann lengi sem sjómaður en það blundaði alltaf í mér að vera með lítinn búskap. Ég var í sveit hér á næsta bæ, á Arnarhóli, í þrjú sumur frá tíu ára aldri og eignaðist fyrsta lambið mitt tólf ára gamall sem ég fékk gefins. Það hefur alltaf verið draumurinn að búa út af fyrir sig, hafa dýr með annarri vinnu,“ segir Gísli og brosir.

„Já, Gísli átti nokkrar kindur þegar ég kynntist honum. Ég er alin upp í sveit úti á Reykjanesi en pabbi sem var vitavörður, var með kindur, beljur og hænur. Hann seldi egg og það geri ég einnig í dag en bara nákomnum. Maður ólst upp í þessu. Það var draumur okkar Gísla að geta flutt og verið út af fyrir okkur með nokkur dýr og það tækifæri kom til okkar þegar við keyptum Norður Flankastaði,“ segir Sigríður, sem alltaf er kölluð Sigga en hún vann síðast á Garðvangi þegar það var og hét.  

„Þegar við vorum að alast upp þá var búskapur að lognast út af en þetta er eiginlega sjálfsbjargarviðleitni í manni, til að hafa eitthvað að borða en þó gerum við þetta mest fyrir ánægjuna, að umgangast dýrin. Það er svo róandi að vera í kringum þau. Þegar við keyptum þessa jörð þá var bara eitt hús hérna. Við höfum byggt þetta allt upp og byrjuðum á íbúðarhúsinu sem er heimili okkar. Gamla húsið er löngu farið. Svo byggði ég útihús, fjárhús og hlöðu, verkstæði og sláturhús fyrir okkar eigin heimaslátrun en það megum við,“ segir Gísli sposkur á svip.

„Okkur líður vel í kringum dýrin. Við erum með nokkrar kindur en þær hafa sitthvorn persónuleikann og allar hafa þær nöfn sem við höfum gefið þeim. Okkur finnst gott að búa út fyrir þéttbýlið og gott að búa með dýrunum. Gísli er bóndi frá blautu barnsbeini,“ segir Sigga og horfir á manninn sinn sem viðurkennir það og segir:

„Já, ég er náttúrubarn eins og fleiri. Það er gott að koma út í ferska morgunloftið og sjá dýrin. Á veturna þegar við erum að gefa þeim á garðann inni þá er notalegt að hlusta á rollurnar éta, það er eitthvað svo róandi. Náttúran gefur okkur mannfólkinu mikið ef við aðeins stöldrum við og slökum á. Við verðum að varðveita sveitina því krakkarnir missa af miklu sem fá ekki að kynnast þessu,“ segir Gísli.

Náttúruöflin láta ekki að sér hæða

Það er ekki bara tekið út með sældinni að sinna búskap. Veðrið á Íslandi getur sett strik í reikninginn og það hafa þau hjónin fengið að upplifa.

„Veturnir hér útfrá geta verið harðir og mikill vindur. Eitt sinn fauk hænsnahúsið og valt á hliðina og hænurnar voru að hlaupa inn og út. Svo mikið var rokið að ég þurfti að skríða til að ná þeim inn í hús aftur,“ segir Sigga og Gísli heldur áfram með veðurlýsingar.

„Það var held ég 1983 að það flæddi sjór næstum upp að húsinu okkar en það bjargaði því að það stendur aðeins uppi á hæð. Það var svakalegt veðrið þá. Annars erum við bara í rólegheitunum og sinnum dýrunum okkar. Þetta er líkamsrækt, maður þarf að moka undan dýrunum, nokkur tonn á ári. Svo fer þetta á túnin og þá sprettur grasið. Þetta er langbesti áburðurinn,“ segir Gísli kíminn.

„Margar konur komu hingað til okkar í gamla daga að sækja skít í garðana sína því það er svo flottur áburður,“ segir Sigga og fer með okkur til hænsnanna sem staðsettar eru í hænsnahúsi við einbýlishús hjónanna en þær fá að vappa um í garðinum þeirra, fara út á hverjum morgni en eru læstar inni yfir nóttina.

„Þær eru duglegar að verpa en þetta eru bara venjulegar hænur, ekki landnámshænur. Það er gott að hafa hænur og geta náð í eggin hingað út,“ segir Sigga og Gísli svarar blaðamanninum sem spyr hvers vegna þau hafi ekki eina belju á bænum fyrst þau eru að þessu.

„Já, ég væri alveg til í að hafa eina belju og mjólka á gamla mátann, það væri gaman en Sigga vill það ekki,“ segir hann og horfir á Siggu sem sýnir það mjög skýrt með andlitssvipnum að henni finnist beljur ekki spennandi skepnur.

Í sjávarháska sextán ára gamall

Gísli er menntaður vélstjóri sem kemur sér vel þegar gera þarf við vélar og fleira á bóndabænum þeirra.

„Ég var lengi á sjó en eftir að við hættum að vinna þá fengum við okkur lítinn bát, ég hafði gaman af því,“ segir Gísli.

„Já, og ég var með honum. Ég hafði aldrei farið á sjó áður en við vorum að nálgast eftirlaunaaldurinn og rérum okkur til gamans því við vorum bæði ennþá í vinnu á þessum tíma og vorum einnig með smá búskap. Annars höfum við gaman af því að ferðast um landið okkar og til útlanda og komumst mest frá á sumrin,“ segir Sigga.

„Ég get nú sagt þér skemmtilega sögu frá fyrsta róðri mínum þegar ég var sextán ára gamall. Það var í júlí árið 1962 að ég réði mig á Hamar GK32. Við rérum frá Keflavík og vorum ellefu manna áhöfn á leið norður á síld þegar bátnum hvolfdi suðaustan af Snæfellsjökli. Á aðeins tuttugu mínútum fór báturinn á hliðina og sökk, þetta gerðist mjög hratt. Ég hélt ég myndi deyja og ákvað að best væri að setja fimmhundruð kallinn í vasann sem mamma gaf mér áður en ég fór á veiðar, ég vildi ekki skilja peninginn eftir í bátnum. Útlitið var dökkt. Skipstjórinn var fljótur að kafa niður undir bátinn og sótti gúmmíbátinn sem við fórum allir ofan í. Okkur rak upp á Mýrar á eyju þar, sem heitir Hvalsey. Þarna vorum við í átta klukkustundir þegar gömlu karlarnir í áhöfninni, þar á meðal skipstjórinn, ákváðu að róa í land á gúmmíbátnum og skildu okkur, ungu strákana eftir, ef eitthvað skyldi koma fyrir þá á leiðinni. Þeir komust í land og sögðu frá okkur. Svo komu bændur á trillu og sóttu okkur en þá höfðum við verið á þessari eyju í alls átján klukkustundir og orðnir kaldir,“ segir Gísli á lifandi hátt svo að blaðamaður hrífst með sögunni og hlær þegar Gísli minnist á 500 kallinn sem honum fannst rétt að taka með sér ef hann skyldi drukkna.

„Ja, við værum ekki hér í dag að tala við þig, ef hann Gísli minn hefði drukknað,“ segir Sigga að lokum við blaðamann.

[email protected]

Þau búa á Norður Flankastöðum sem er lögbýli í Suðurnesjabæ.

Þetta lamb fæddist í vor.

Kindurnar hafa sitthvorn persónuleikann og allar hafa þær eigin nöfn.

Sigga sér um hænurnar.