Mannlíf

Börnin á Tjarnarseli fengu heitt súkkulaði og piparkökur
Þriðjudagur 22. desember 2020 kl. 07:44

Börnin á Tjarnarseli fengu heitt súkkulaði og piparkökur

Góðar hugmyndir kvikna oft á óvenjulegum tímum

„Aðventan á leikskólanum Tjarnarseli einkennist gjarnan af gömlum og góðum hefðum sem skapast hafa í áranna rás og okkur þykir vænt um – en á óvenjulegum tímum þarf að bregða út af vananum og þá kvikna oftar en ekki góðar hugmyndir,“ segir Ingibjörg Sif Stefánsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á Tjarnarseli.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á þessari aðventu var ekki hægt að bjóða öllum foreldrunum í hefðbundna jólastund eins og venja er og því var brugðið á það ráð að breyta til og halda jólastundina okkar úti við í fallega garðinum í þessum elsta leikskóla Reykjanesbæjar.

„Eldsnemma einn morguninn núna á aðventunni var haldið út í morgunrökkrið og kveikt upp í eldstæðinu okkar. Í góða pottinn fór svo heitt súkkulaði sem mallaði þar á meðan börnin týndust út eitt af öðru. Við ljúfa jólatóna hópuðust börnin í kringum jólatré sem þau höfðu smíðað sjálf við upphaf aðventunnar og skreytt ljósum í tilefni dagsins. Gengið var í kringum jólatréð og litlir og örlítið stærri kroppar sungu og dilluðu sér í takt. Eftir dansinn var kærkomið að setjast niður með vinum sínum og fá sér heitt súkkulaði og piparkökur að kjamsa á.

Gott er að finna að jólaandinn kemur sannarlega innan frá, þó hefðir breytist og bátur vanans ruggi eilítið í vetrarsjó,“ sagði Ingibjörg Sif.