Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Börn eru svo tær og tengja við það góða
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 8. febrúar 2020 kl. 07:30

Börn eru svo tær og tengja við það góða

Það var gaman að koma í sunnudagaskólann í Keflavíkurkirkju klukkan ellefu og fylgjast með börnunum eldhressum á sunnudagsmorgni. Þennan morgun var rigning og hífandi rok en það virtist ekki hafa mikil áhrif á mætinguna.

Áður en hinn eiginlegi sunnudagaskóli hófst þennan dag þá byrjuðu börnin á að syngja fyrir framan fullorðna fólkið sem var mætt í messu hjá Rótarýfélögum, við mikinn fögnuð viðstaddra. Börnin ljómuðu þegar þau sungu Gleði, gleði, gleði. Sum voru feimnari og vildu standa til hliðar en þau voru þó nokkur sem þorðu að láta ljós sitt skína og sungu hástöfum.

Public deli
Public deli

Hjá Keflavíkurkirkju er sunnudagaskóli starfræktur yfir veturinn fyrir börn á öllum aldri. Sá háttur er hafður á að hefðbundin messa fer fram í kirkjunni, á sama tíma hittast börn og aðstandendur þeirra í safnaðarheimilinu. Síðan sameinast báðir hóparnir á hádegi í girnilegri súpu og nýbökuðu brauði. Notaleg stund.

Gaman að vera með börnum

Jóhanna María Kristinsdóttir heldur utan um og stýrir sunnudagaskóla Keflavíkurkirkju og gerir það á líflegan hátt, enda snúa börn sér að öðru ef það er ekki líf og fjör í starfinu. Þennan morgun voru afar og ömmur, mömmur og pabbar mætt í sunnudagaskólann með börnin sem voru allt frá eins árs til tíu, ellefu ára gömul. Börnin virtust skemmta sér konunglega og einnig fullorðna fólkið. Söngurinn ómaði. Stundum var söngur og hreyfing með, krúttlegt og skemmtilegt. Við spurðum Jóhönnu út í barnastarfið.

„Ég fór sjálf alltaf í sunnudagaskóla þegar ég var lítið barn með mömmu minni og fannst það ótrúlega skemmtilegt. Ég man hvað mér fannst gott að koma í kirkjuna sem barn og ég tengdi við skilaboðin og sögurnar sem verið var að segja mér um Jesú. Þetta gaf mér öryggi í barnshjartað. Jesús var þessi fasti punktur sem fylgdi mér. Börn eru svo tær og þau tengja við þetta góða í trúnni. Ég hef verið í kirkjukór Keflavíkurkirkju og byrjaði sem aðstoðarmanneskja í sunnudagaskólanum hjá Systu árið 2016 en svo var mér boðið að taka að mér þetta starf síðastliðið haust, ég ákvað að slá til og finnst þetta spennandi áskorun. Þetta er líflegt starf og skemmtilegt að fræða börnin um Jesú því þau eru svo einlæg. Trúin getur verið svo hátíðleg hjá okkur fullorðna fólkinu en með börnunum er trúin allt öðruvísi. Börn eru hispurslaus, frjáls og opin. Það er tær gleði í þeim og þau elska að syngja. Mér finnst æðislegt að eiga þessi samskipti við börnin og þau hjálpa mér að efla mína lifandi trú. Stærsta verkefni mitt er að koma boðskapnum til barnanna á áhugaverðan og lifandi hátt. Skilaboðin þurfa að vera einföld svo börnin skilji það sem verið er að segja. Börn eru opin fyrir fallegum boðskap um Jesú og þau tengja við sig sjálf. Þetta er mjög gefandi starf. Ég er ekki ein í þessu barnastarfi því með mér er frábært samstarfsfólk, Helga Sveinsdóttir og Ingi Þór er aðalgítarleikarinn en í dag leysti Siddi hann af. Það er svo gott fólk sem starfar hér í Keflavíkurkirkju og gaman þegar við endum sunnudagaskólann á því að borða saman súpu með þeim sem voru í fullorðinsmessu. Þá koma fermingarbörnin og fullorðnir saman með börnunum og við eigum saman notalega stund í lokin. Þetta er góð byrjun á góðum sunnudegi,“ segir Jóhanna.

Jón Pétur Jónsson, afi Samúels Darra Eyþórssonar, tveggja ára:

„Við eigum fjögur barnabörn og höfum komið með þau í sunnudagaskólann. Það er alltaf gaman að koma hingað í þetta fallega hús og hlusta á sögur og söngva með barnabörnunum. Svo endum við á súpunni. Mér finnst við vera að setja eitthvað gott í huga barnanna og manni líður vel hérna.“

Ragnhildur Ævarsdóttir, amma Ragnhildar Lilju Skarphéðinsdóttur:

„Þetta er gæðastundin mín með barnabarninu. Hér er hún að læra um Jesú og trúna. Sjálf er ég alin upp í trú eins og flestir. Það gefur styrk og hlýju, kennir manni umburðarlyndi og kærleika fyrir náunganum. Þetta er partur af uppeldinu og gefur hlýju í hjarta finnst mér. Ömmur og afar geta átt þessa góðu stund hér í kirkjunni með barnabörnunum.“

Jenný Þorsteinsdóttir, mamma Elvu Rósar Jóhannsdóttur:

„Við komum eins oft og við getum. Hún nýtur sín svo vel og finnst svo gaman í barnastarfinu. Þetta er skemmtileg stund. Ég fór alltaf sjálf sem barn í sunnudagaskóla og á góðar minningar þaðan. Þegar ég flutti aftur til Keflavíkur þá vildi ég leyfa henni að upplifa þessar stundir í kirkjunni því mér fannst þær gefa mér góða upplifun sem barn. Þetta er stundin okkar. Hún vil mæta í kjól því hún elskar að vera í kjól. Keflavíkurkirkja hefur reynst okkur vel, bæði í gleði og sorg.“



Börnin sungu Gleði, gleði, gleði fyrir fullorðna fólkið í kirkjunni.