Mannlíf

Borgargarðurinn - ný plata með Matta Óla
Laugardagur 13. febrúar 2021 kl. 07:01

Borgargarðurinn - ný plata með Matta Óla

Þann 20. febrúar 2021 kemur út ný plata með Matta Óla sem hefur fengið heitið Borgargarðurinn. Það er ekki tilviljun að Matti skuli velja þann dag til að gefa plötuna út því þá verða liðin nákvæmlega 30 ár frá því að honum, ásamt skipsfélögum hans á Steindóri GK, var bjargað hetjulega af þyrlusveit Landhelgisgæslunnar úr hrikalegum aðstæðum á strandstað undir Krýsuvíkurbjargi. Matti velur að halda upp á daginn með því að gefa út plötu, enda fátt sem fangar fegurð lífsins betur en tónlist. 

Matti Óla semur lög, syngur og segir sögur um lífið eins og það er í öllum sínum margbreytileika. Hann hefur fengið að reyna ýmislegt á lífsins leið sem skilar sér í textum sem eru í senn einlægir og mannlegir og tónlist sem ber skýr merki höfundarins. Borgargarðurinn er þriðja plata Matta Óla, en frumraun hans Nakinn kom út árið 2005 auk þess sem …og svo leið tíminn kom út í fyrra. 

Það er Smástirni sem gefur Borgargarðinn út, en platan er að stórum hluta tekin upp í hljóðveri útgáfunnar í Sandgerði undir stjórn Smára Guðmundssonar sem jafnframt hljóðblandaði hana. Aðrar upptökur voru gerðar af Inga Þór Ingibergssyni í Keflavík og Kristni H. Einarssyni í Hafnarfirði. Það eru ýmsir tónlistamenn sem leggja Matta Óla lið á plötunni bæði með söng og hljóðfæraleik. Heyra má Fríðu Dís Guðmundsdóttur og Siggu Mayu syngja, Hlynur Þór Valsson syngur, blæs í munnhörpu og blokkar bassa í einu lagi, Halldór Lárusson er með áslátt og líka Ingi Þór Ingibergsson, Ólafur Þór Ólafsson leikur á ýmis strengjahljóðfæri og raddar, Smári Guðmundsson læðir inn nokkrum Hammondnótum og Kristinn H. Einarsson töfrar fram hljómborðstóna. Í aðalhlutverki er þó Matti sjálfur með sína lífsreyndu rödd og sérstæða gítarleik. Það var svo listakonan Gunna Lísa sem gerir umslag plötunnar.

Búið er að dreifa fyrsta laginu af plötunni til útvarpsstöðva, en það ber heitið Háklassi 101