Heklan vetrarfundur
Heklan vetrarfundur

Mannlíf

Bókin um minkinn selst eins og heitar lummur
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 29. nóvember 2020 kl. 14:09

Bókin um minkinn selst eins og heitar lummur

– Enginn kemst með tærnar þar sem frasakóngurinn Jimmy Miggins hafði hælana

„Minningin um minkinn“ er snörp frásögn af bandaríska körfuboltamanninum Jimmy Miggins, heimspekingi sem heiðraði körfuboltalið Keflavíkur með nærveru sinni í aðeins þrjár vikur en skildi eftir sig minningar sem lifa að eilífu. Höfundur bókarinnar er Sævar Sævarsson sem gefur bókina út í félagi við æskuvin sinn, Davíð Þór Jónsson.

Listamaðurinn Ethoríó Eyjólfsson myndskreytti bókina og Davíð Örn Óskarsson setti gripinn saman fyrir prentun. Stór hluti hagnaðar af sölu bókarinnar, sem gefin verður út í takmörkuðu upplagi, mun renna til styrktar körfuknattleiksdeildar Keflavíkur en ekki þarf að fjölyrða um þann mikla tekjumissi sem Keflavík og önnur félög hafa orðið fyrir vegna stöðunnar í þjóðfélaginu.

Bókaútgáfan ákveðin eftir nokkra bjóra

„Þetta byrjaði allt í fyrstu Covid-bylgjunni. Ég fór í að setja saman sögur af erlendum leikmönnum og ætlaði fyrst að byrja á þeim sem ég þekkti. Hugmyndin var að hafa samband við Tomma Tomm, Sigga Ingimundar, Sigga Valla, Jón Ben og fleiri sem þekktu gömlu kempurnar. Ég byrjaði á sögum af þeim leikmönnum sem ég þekkti best til og hafði umgengist. Þegar ég var kominn af stað og byrjaður að skrifa um Jimmy Miggins var ég strax kominn með svo mikið af efni að mér fannst það eitt og sér vera efni í góða grein. Eftir að hafa sest niður með nokkrum vel völdum aðilum og sagt þeim frá þessu og við drukkið tvo, þrjá bjóra, óx hugmyndin og við fengum þá hugmynd að gera bók úr þessu og fá einhvern til að myndskreyta hana. Ég hitti Ethoríó Eyjólfsson, sem myndskreytti bókina, og þá var hugmyndin komin. Fyrst átti bara að gefa út litla bók fyrir kjarna af strákum sem voru í körfunni í gamla daga og við myndum prenta nokkur eintök. Þegar Ethoríó kom svo með sínar hugmyndir og skissur, sem hann teiknaði eftir að hafa lesið handritið, sá ég strax að hann var búinn að rissa upp myndasögu í kringum bókina. Þetta voru einhverjar fimmtíu myndir og þá var ekki aftur snúið. Bókin kvarnast svo utan um athugasemdir og frasa frá sögupersónunni,“ segir Sævar Sævarsson það hvernig hugmyndin varð að bók.

– En af hverju varð „Minningin um minkinn“ fyrir valinu?

„Minkurinn varð fyrir valinu því það er enginn leikmaður sem ég hef spilað með körfubolta eða yfir höfuð umgengist í gegnum ævina sem hefur átt viðlíka frasa og þessi einstaklingur. Hann var grófur á köflum og mér fannst það tilvalið. Hann var ótrúlega hnyttinn. Hann var og er rosalega kaldhæðinn. Að geta náð fimmtán til tuttugu frösum frá manni sem var með okkur í Keflavíkurliðinu í þrjár vikur, það er bara efni í bók. Það hljóta allir að vera sammála um það.“

– Veit hann um þessa bók?

„Það er saga að segja frá því. Ég hafði upp á honum í fyrstu bylgjunni og sagði honum að ég væri að taka saman sögu nokkurra leikmanna og hvort hann gæti svarað nokkrum spurningum fyrir mig um að hvernig honum hafi liðið á Íslandi, hvernig þetta hafi verið og hvort hann muni eftir þessum tímabilum og hvað hann væri búinn að gera á ferlinum síðan hann var hér í Keflavík. Hann svaraði eins og honum var einum lagið í stuttum svörum, helst eins atkvæða orðum. Hann svaraði mér svona tvisvar eða þrisvar. Ég varð svo spenntur fyrir því að hann væri að svara mér og þegar hann sagði að ég mætti senda sér tölvupóst með spurningum, þá fór ég aðeins fram úr mér og sendi honum einhverjar tíu eða fimmtán spurningar, sem ég held að hafi verið kveikjan að því að hann hafi hugsað með sér: „Nei þessi maður er genginn af göflunum. Ég var þarna í þrjár vikur og þessi gæi er að senda mér fimmtán spurningar.“ Ég bara hef ekkert náð í hann síðan þetta var. Ég er búinn að senda honum upplýsingar um það að þetta hafi æxlast þannig að greinin hafi orðið að bók og það væri gaman að heyra í honum. Hann hefur ekkert svarað síðan þá. Ég hef ekki hugmynd um hvar hann er niðurkominn núna. Hann var einhvers staðar í Kaliforníu. Hann er örugglega búinn að blokka mig en ég er með símanúmerið hans, sem ég hef ekki látið reyna á. Ég hringi kannski í hann þegar ég er kominn í þúsund eintök af bókinni.“

Snörp frásögn og myndirnar tala

Sævar segist hafa skrifað miklu meira en það sem fór í bókina. Hann hafi verið kominn með efni í allt að hundrað síðna bók. „Við ákváðum að hafa þetta snarpa frásögn og leyfa myndunum að tala svolítið og frasarnir, sem eru hans vörumerki, fá að njóta sín. Ég stytti textann og myndirnar njóta sín en það eru myndir á hverri einustu síðu, stundum tvær og jafnvel þrjár.

– Var Minkurinn litríkur leikmaður?

„Já, hann var litríkur og jafnvel litríkari utan vallar en innan. Hann náði aldrei að blómstra hjá okkur. Hann kom meiddur og eins og kemur fram í bókinni þá tók tíma fyrir okkur að útvega honum æfingabúnaði og vera hans hér var hin mesta þrautaganga. Svo var það þannig að honum þótti sopinn eilítið of góður, alla vega fyrir smekk Sigga Ingimundar. Honum var ekki skemmt. Maður sem fær sér miniature að drekka í flugstöðinni áður en lagt er upp í æfingaferð til Noregs. Tja, það er eitthvað sem segir manni það að hann eigi við vandamál að stríða,“ segir Sævar og hlær. Sævar segir að hann sé ennþá með þá hugmynd að taka saman sögur af litríkum leikmönnum sem hafa komið til Keflavíkur, bæði í körfuna og fótboltann. „Þessir erlendu leikmenn eru oft skemmtileg blanda inn í t.d. svona körfuboltalið. Þeir eru með öðruvísi uppeldi en við og koma úr ólíku umhverfi og því koma oft skemmtilegar sögur í kringum þá. Ég á nokkrar sögur og það er fullt af fólki í kringum Keflavík, Njarðvík og önnur lið sem muna eftir þessum karakterum. Það væri gaman að taka þessar sögur saman og miðað við viðtökurnar á þessari bók, þá er bara aldrei að vita nema maður ráðist í það. Þetta var líka rosa skemmtilegt samstarf við Ethoríó. Hann er algjör snillingur og það sem honum datt í hug eftir að hafa lesið handritið að bókinni er ótrúlegt. Það er hins vegar staðreynd að það kemst enginn með tærnar þar sem Jimmy Miggins hafði hælana þegar kemur að skemmtanagildi.“

Gaman að geta gefið eitthvað til baka

Sævar gefur bókina út persónulega með æskuvini sínum, Davíð Þór Jónssyni. Sævar segir að þeir hafi verið sammála um að Keflavík hafi gefið þeim mikið í æsku og á unglingsárum þegar þeir voru að þroskast og dafna sem einstaklingar. „Það er gaman að geta gefið eitthvað til baka svo ekki sé talað um á tímum eins og núna, þar sem ekki er hlaupið að því að sækja pening í reksturinn. Það var því strax ákveðið að taka stærstan hluta af hagnaðinum af sölu bókarinnar og styrkja Keflavík með því – og það er gaman að segja frá því að nú höfum við náð upp í kostnað við útgáfuna þannig að allt sem kemur í kassann núna rennur til Keflavíkur,“ segir Sævar.

Bjóða einnig myndir úr bókinni til sölu

Auk bókarinnar „Minningin um minkinn“ þá eru fleiri fjáröflunarmöguleikar með útgáfunni. Þannig teiknaði listamaðurinn Ethoríó nokkrar af myndum bókarinnar í yfirstærð og þær verða boðnar til sölu sérstaklega á fjáröflunarsamkomum eins og herrakvöldum. Þá mun Keflavíkurkarfan fá helming söfnunarfjárins og listamaðurinn fær greitt fyrir sína vinnu. Af sjö stórum myndum úr bókinni hafa þegar verið seldar tvær á síðunni millilending.is. „Það eru einhverjir með tilfinningar til Minksins og svo er nú Ethoríó listamaður af guðs náð og myndirnar hans eru ógeðslega flottar. Það er reyndar ein mynd þarna sem er mjög gróf og ég get ekki sett inn á heimasíðuna. Ég vil bara að fólk sjái hana í bókinni en hún er til í fullri reisn ... stærð. Hún fer hæstbjóðanda á einhverju herra- eða konukvöldi í náinni framtíð.“

– Þú ert eins og Herbert Guðmundsson, ferð hús úr húsi með bókina.

„Þetta er kannski ekki alveg svoleiðis. Ég byrjaði á að taka myndir af mér með vinum og kunningjum með bókina á Instagram Story. Svo rak Davíð Þór mig í það að setja þetta frekar á Facebook og merkja fólk á þessum myndum svo þær dreifðust víðar. Nú er staðan sú að það er eiginlega meiri eftirspurn eftir myndum með mér en bókinni sjálfri. Ætli staðan verði ekki sú fljótlega að að þeir sem kaupa bók og fá mynd verða að borga aðeins meira fyrir og karfan græðir á því?“ „Minningin um minkinn“ er að fara víða og bækur komnar á heimili í Borgarnesi, Stykkishólmi, á Selfossi og um allt höfuðborgarsvæðið. „Breiðholtið er næst stærsta sölusvæðið á eftir Keflavík, enda þekkja margir sögur af drengnum. Það er áhugafólk um körfubolta og almennan fíflaskap sem hafa gaman af að kaupa bókina og styrkja um leið gott málefni. Þetta hefur gengið ágætlega en verður engin metsölubók en Keflavík mun klárlega njóta góðs af þessu. Ég á orðið fyrir kostnaði þannig að allt sem kemur í kassann frá og með deginum í dag rennur beint í körfuna í Keflavík,“ segir Sævar Sævarsson.

Ef lesendur hafa áhuga á því að tryggja sér bókina er hægt að kaupa hana á millilending.is.