Mannlíf

Blik í auga 2018: Diskóið í aðalhlutverki
Blikarar fyrir utan klúbbinn Bergás sællrar minningar en gestir þar munu kannast vel við lögin sem flutt verða á Ljósanótt.
Mánudagur 6. ágúst 2018 kl. 11:00

Blik í auga 2018: Diskóið í aðalhlutverki

Þríeykið og grallararnir Guðbrandur Einarsson, Arnór B. Vilbergsson og Kristján Jóhannsson eru enn ekki af baki dottnir og halda ótrauðir áfram með blik í auga á ljósanótt þar sem diskóið verður nú í aðahlutverki, vafalaust mörgum til mikillar ánægju sem geta þá rifjað upp góðu árin í Bergás og farið að æfa gömlu sporin, nú eða kungfu æfingarnar.

„Við ættum kannski að segja að þetta sé í allra, allra síðasta sinn, en við höfum víst sagt það áður,“ segir kynnirinn og handritshöfundurinn Kristján Jóhannsson og glottir. „Þetta er bara svo ótrúlega skemmtilegt og meðan við fáum góðar hugmyndir þá verðum við með blik í auga - það er bara þannig.“

Hverjir munu taka þátt í sýningunni í ár?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Við höfum fengið einvalalið með okkur, bæði söngvara og hljómsveit og má þar nefna söngdívurnar Jóhönnu Guðrúnu og Stefaníu Svavars sem hafa verið með okkur áður en við bætast Suðurnesjamaðurinn Valdimar og Pétur Örn, öðru nafni Pétur Jesús. Þá er hljómsveitin stærri en áður og ekki má gleyma hópnum sem kemur að þessari sýningu en þar eru margar hendur og mikill metnaður.

Að sögn Kristjáns er undirbúningur þegar hafin, búið er að velja lögin og útsetja og söngvarar farnir a æfa sig.

„Við ætlum að fjalla um þetta skemmtilega diskótímabil þar sem allir voru stjörnur í Hollywood, að minnsta kosti í eina kvöldstund. Saturday Night Fever var aðalmyndin og hver man ekki eftir því þegar hvít jakkaföt og rauð skyrta voru málið? - nú eða bara Don Cano krumpugallar, indjánamold, blásið hár og ennisbönd.“

Sýningar fara fram að venju í Andrews Theatre og verður frumsýning miðvikudaginn 29. ágúst en tvær sýningar verða á sunnudeginum á Ljósanótt kl. 16 og 20.

„Þetta verður allsherjar gleðiskemmtun og við viljum sérstaklega hvetja þá sem merkilegt nokk hafa ekki ennþá komið á blikið að mæta, enda vita menn ekki af hverju þeir eru að missa. Það er ástæða fyrir því að fólk kemur ár eftir ár á þessar sýningar. Spyrjið það bara!“

Miðasala hefst þann 10. ágúst kl. 12 á midi.is og þeir sem tryggja sér miða í tíma fá góðan afslátt fram til 15. Ágúst en þá verður miðaverð kr. 5.900. Fullt miðaverð er 6.500.