RNB 17 júní
RNB 17 júní

Mannlíf

Bestu árin í Grindavík og Keflavík var eins og erlendis
Sunnudagur 23. maí 2021 kl. 07:56

Bestu árin í Grindavík og Keflavík var eins og erlendis

– segir veitingamaðurinn Tómas Tómasson sem á miklar tengingar suður með sjó

Tómas Tómasson, oftast kenndur við Tommaborgara og nú síðast Hamborgarabúlluna, hefur komið víða við í veitingarekstri á undanförnum áratugum. Það eru ekki allir sem vita að Tómas hóf sinn starfsferil í veitingamennsku á Suðurnesjum. Hann byrjaði í gömlu flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli, þar sem hann lærði til kokks. Svo segist hann hafa átt sín bestu ár í Grindavík þegar hann rak félagsheimilið Festi í nokkur ár. Við hittum Tomma þegar hann kíkti við á Búllunni í Reykjanesbæ á dögunum en Tommi er ekki óvanur því að selja Suðurnesjamönnum hamborgara.

„Fyrstu kynni mín af Suðurnesjum voru þegar ég var að vinna fyrir Íslenska aðalverktaka þegar Keflavíkurvegurinn var lagður árið 1965 og ég var að vinna uppi á velli. Þar hófst tengingin. Þá fór maður í Krossinn um helgar, sællar minningar,“ segir Tómas.

– Hvað varstu að gera hjá Íslenskum aðalverktökum á þessum tíma?

„Þá var verið að byggja slökkvistöðina á vellinum á sama tíma en bróðurparturinn af strákunum var að vinna við lagningu Keflavíkurvegarins. Það var stóra verkefnið.“

– Og þið bjugguð á Keflavíkurflugvelli.

„Já, það voru braggar þar sem CBO-klúbburinn var og við bjuggum þar í sex fermetra herbergjum á meðan á vinnunni stóð.“

– Var kaupið gott?

„Það man ég ekki. Þetta var góður tími og kaupið var bara þetta hefðbundna verkamannakaup. Það var unnin bæði dagvinna og eftirvinna, sem var algengt þá.“

– Og hvað svo?

„Ég kom aftur árið 1967 og byrjaði að læra að vera kokkur á Keflavíkurflugvelli, í gömlu flugstöðinni hjá Loftleiðum, í teríunni sem ég veit að margir muna eftir. Það var ég m.a. í flugvélamatnum og svo fór maður á klúbbana á kvöldin og um helgar. Þá voru böll á miðvikudögum, föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Þetta var ævintýri og það voru hljómsveitir í öllum klúbbunum.“

Alþjóðlegt andrúmsloft í gömlu flugstöðinni

– Talandi um gömlu flugstöðina. Sagan þarna tengist Suðurnesjum sterkum böndum og fjöldi fólks sem starfaði þarna. Hvernig var andinn?

„Við unum á tólf tíma vöktum í fjóra daga og ýmist unnið á daginn eða nóttunni. Þegar við vorum á vaktinni þá bjuggum við í flugstöðinni, fengum herbergi þar sem við vorum yfirleitt tveir eða þrír saman í. Þarna voru allir starfsmenn Loftleiða, hluti af starfsfólki Fríhafnarinnar, hluti frá Veðurstofunni og einnig frá Flugfélagi Íslands. Við vorum ein fjölskylda og alveg dásamlegt.

Þarna var terían alveg sér veitingahús sem bauð upp á grillaðar skinku- og ostasamlokur sem voru engu líkar og ristað brauð með skinku og eggjasalati. Þetta var vinsælasti maturinn og fólk kom þarna gjarnan á kvöldin um helgar og á nóttunni þegar þeir voru að skemmta sér.“

Tómas lýsir tímanum í gömlu flugstöðinni sem dásamlegum. Andrúmsloftið hafi verið alþjóðlegt. „Þetta var svolítið erlendis,“ segir hann en Tómas starfaði samtals í sjö ár í gömlu flugstöðinni. Hann byrjaði að læra kokkinn í september 1967 og kláraði námið 1972. Hann vann svo öðru hvoru í flugstöðinni í nokkur ár þar á eftir.

Tómas rifjar upp sögur af yfirkokkum í flugstöðinni á þessum árum og segir svo: „Ég er lærður kokkur og með meistararéttindi. Ég má taka nema ef ég vil og er með aðstöðu til þess. Ég kann ekkert að kokka. Einn kokkurinn, sem var vaktstjóri í flugstöðinni og hét Ólafur Tryggvason, var einu sinni spurður að því hvort Ég gæti kokkað. Hann vissi ekki að ég stóð og heyrði hverju hann svaraði þegar hann sagði: „Tómas? Nei, hann getur ekki soðið rakvatn nema brenna það við.“ Þetta heyrði ég svo þetta er frá fyrstu hendi.

– Og fékkstu prófskírteini?

„Já, ég á meistarabréf.“

– Var þetta bara klíka?

„Nei, nei – en ég veit ekki hvernig ég fór að þessu. Við áttum að úrbeina nautalæri en það voru svo margir að taka próf að við fengum lambalæri að úrbeina og úrbeinuðum það eins og það væri naut.“

Tómas segir að minningarnar úr gömlu flugstöðinni séu góðar og fólk sem var að vinna þar sé jafnvel enn að hittast í dag og rifja upp gamla góða daga.

Böll, bingó og bíó í Festi

Tómas var í Grindavík um tíma.

„Já, árið 1974 var ég ráðinn framkvæmdastjóri fyrir félagsheimilið Festi. Ég hafði sótt um árið áður en þá var annar maður ráðinn, Sigurður Haraldsson. Hann hætti eftir átta mánuði og þá var hringt í mig og ég spurður hvort ég hefði ennþá áhuga. Ég sagði bara í þessu sama símtali og var hringt í mig: „Já!“ Ég fór til Grindavíkur og skoðaði og var fluttur til bæjarins tveimur mánuðum síðar og bjó í Eyjabyggðinni.

Ég er búinn að gera ansi margt síðan ég opnaði Tommahamborgara fyrst og takast á við ýmis verkefni en árin í Festi bera höfuð og herðar yfir allt sem ég hef gert. Það var dásamlegur tími að vera í Festi í gamla daga. Ég var 25 ára gamall þegar ég var ráðinn og var þarna til 28 ára aldurs. Ég fékk svo mörg tækifæri og var svo vel tekið og Grindavík var dásamleg, ég segi ekki borg, en Grindavík fékk kaupstaðarréttindi á svipuðum tíma og ég var ráðinn.“

– Hvegnig var starfsemin í Festi?

„Það voru sveitaböll sem kölluð voru eða hálfgerðir hljómleikar á hverjum laugardegi. Einstaka sinnum á föstudögum en það heppnaðist ekki mjög vel, laugardagarnir voru bestir í sveitaböllunum. Svo voru bingó á miðvikudögum og ég byrjaði með bíó og það var þrisvar í viku. Einnig voru Lionsfundir, námskeið og brúðkaup, svo það var alltaf eitthvað að gerast í félagsheimilinu.“

– Voru laugardagsböllin vel sótt?

„Algjörlega. Ég man að fyrsta ballið sem ég hélt var með hljómsveit sem hét Stuðlatríóið og það komu 231 á dansleikinn. Næstu helgi á eftir voru Haukarnir sem voru topp-brennivínsband og það voru 456 á því balli. Svo komu Hljómarnir þriðju helgina og svo spann þetta upp á sig þannig að þeir voru alltaf einu sinni í mánuði, Haukarnir, Hljómarnir, Júdas, Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar og svo voru svona ein og ein hljómsveit eins og Pelican og Paradís með Pétri Kristjánssyni sem komu með. Það var engu líkt að standa í þessu og ég fílaði mig eins og poppstjörnu. Þegar ég var búinn að vera ár í Festi þá heyrði ég að ég var kallaður Tommi í Festi og það festist við mig. Það er fullt af fólki sem man ennþá eftir Tomma í Festi og það eru fjörutíu og eitthvað ár síðan. Það er ótrúlegt. Ég elska Grindavík.“

Aðgangseyrir 25 krónur í Reykjavík en 700 krónur í Grindavík

– Hvernig var þetta, var áfengissala?

„Nei, það voru bara seldir gosdrykkir. Það var rándýrt að fara inn. Ég man þegar ég kom á fyrsta ballið til að njósna, þá kostaði 600 kall miðinn. Mér fannst það fáránlegt því á sama tíma kostaði 25 kall inn á veitingastaði í Reykjavík en 600 kall inn á ball og ég hafði aldrei heyrt talað um annað eins. Ég var ekki búinn að vera nema rétt um mánuð þá var ég búinn að hækka þetta upp í 700 kall. Svona breyttist nú afstaðan fljótlega.“

– Var reksturinn góður?

„Ég hélt félagsheimilinu gangandi. Við þurftum að þjóna bæjarfélaginu. Ég stofnaði Leikfélag Grindavíkur og við vorum með leikrit og ýmislegt annað sem var að gerast þarna.“

– Á þessum tíma er Festi í eigu nokkurra félaga auk sveitarfélagsins.

„Já, þarna voru saman komin verkalýðsfélagið, kvenfélagið, ungmennafélagið, bæjarfélagið og svo félagsheimilasjóður. Svo var einn fulltrúi frá hverjum í húsnefnd.“

Gaf út vínveitingaleyfið sjálfur

– Og þú starfaðir fyrir sýslumanninn í Grindavík um tíma.

„Þegar ég var búinn að vera ár í Festi þá langaði mig að gera eitthvað aðeins meira. Á þessum tíma var sýsluskrifstofan opin einn dag í viku og hún var í Festi þar sem ég kynntist fulltrúum fógeta. Svo var opnuð ný lögreglustöð og á lögreglustöðinni var sýsluskrifstofa sem var opin hálfan daginn. Ég sótti um það og fór í þjálfun hjá Jóni Eysteinssyni, sýslumanni og bæjarfógeta. Þegar skrifstofan var opnuð á nýju lögreglustöðinni var ég eini fulltrúinn og sá um allt. Gaf út passa, rukkaði þinggjöldin, gaf út öll skírteini sem þurfti að gera. Ég þinglýsti líka en af nafninu til komu fulltrúarnir og skoðuðu hvort ég hafi ekki gert rétt. Ofan á allt annað gaf ég oft út vínveitingaleyfi á félagsheimilið Festi. Félög gátu sótt um einu sinni á ári að halda hátíð með vínveitingaleyfi. Ef ég þurfti á vínveitingaleyfi að halda þá fann ég eitthvað félag og gaf út vínveitingaleyfið sjálfur og allir ánægðir. Það er allt í lagi að segja þetta núna 40 árum seinna.“

Keflvíkingar þekktu hamborgara af Vellinum

– Þú heldur áfram tengingu þinni til Suðurnesja nokkrum árum síðar þegar þú opnar hamborgarastað í Keflavík.

„Ég hætti í Festi haustið 1977 og fór til Ameríku að læra hótel- og veitingarekstur í háskóla. Þegar ég var í Festi þá drakk ég ekki en þegar ég kom til baka frá Ameríku var ég byrjaður að drekka og var í hálfgerðri óreiðu. Ég fór því í meðferð og þegar ég kom úr henni opnaði ég fljótlega Tommahamborgara. Sama ár, 1981, opnaði ég líka í Keflavík því ég hafði á tilfinningunni að Keflvíkingar væru tilbúnir að borða hamborgara – sem þeir voru. Keflavík var ekki lík neinum öðrum kaupstað á landinu. Völlurinn hafði mikil áhrif á þjóðlífið hérna.  Það var svolítið „erlendis“ að koma til Keflavíkur. Það var allt annar fílingur en í nokkrum öðrum kaupstað eða kauptúni sem ég hafði komið í. Ég vissi það að þeir myndu þekkja hamborgara. Nánast allir Keflvíkingar voru vanir að fara upp í Viking og fé sér burger.

Svo opnum við á Fitjum í Njarðvík og breyttum staðnum á Hafnargötunni í leiktækjasal. Svo seldi ég Tommaborgara-fyrirtækið um áramótin ‘83–’84 og fór aftur til Ameríku í vettvangsrannsókn. Út úr því kom Hard Rock Café sem varð tíu ára dæmi hjá mér. Þá seldi ég staðinn og honum síðan lokað eftir að hafa starfað í tuttugu ár.“

– Þú hefur komið víða við í veitingarekstri og ert núna nýlega búinn að opna Búlluna í samstarfi við þína menn á gömlu bæjarmörkum Keflavíkur og Njarðvíkur.

„Sá sem á Búlluna hérna heitir Guðlaugur Jónsson og búinn að vera fjármálastjóri hjá okkur í Búllunni í nokkur ár. Hann hafði fylgst með og borðað mikið af borgurum. Hann er fæddur í Grindavík en er ættaður bæði þaðan og úr Keflavík og hann var staðráðinn í að opna Búllu hér. Við sögðum honum að ef hann væri tilbúinn, þá værum við tilbúin. Hann lét sig hafa það að opna hér í Covid og það hefur gengið lyginni líkast.“

„Það kemur enginn hingað til að fá vondan hamborgara“

– Hver er lykillinn að þessum hamborgara?

„Þú getur fengið mjög góða borgara mjög víða í dag. Okkar leyndarmál, ef leyndarmál skal kalla, eru gæði, góð þjónusta og stöðugleiki. Þetta eru þrír þýðingarmestu póstarnir í rekstrinum. Við höfum alltaf verið með UN 1 nautakjöt sem er ungnaut 1. flokkur. Þegar við opnuðum Tommaborgara vorum við að nota kýrkjöt. Ég byrjaði svo að nota ungnautakjötið og að hafa 20% fitu því að bragðið kemur úr fitunni. Einu sinni kom maður til mín og sagði: „Ég skal selja þér ódýra hamborgara. Ég nota bara hrossakjöt og set nautafitu saman við það, þá veit enginn neitt.“ Bragðið er úr fitunni. Til að fá mýktina og góða bragðið þá höfum við 20% fitu. Svo ferskt, nýtt brauð daglega. Þetta er mjög einfalt. Leyndarmálið er í raun ekki neitt. Það þarf að hugsa vel um þetta og því segi ég ást og umhyggja. Það er leyndarmálið – serve all, love all.“

Að þjónusta alla og elska alla er eitt af lykilatriðunum í rekstri

„Tender loving care,“ segi ég. Ef einhver er óánægður hérna þá í fyrsta lagi endurgreiðum við honum og bjóðum honum að koma aftur frítt. Það kemur enginn hingað til að fá vondan hamborgara. Það er grundvallarregla. Við spyrjum viðskiptavininn hvað var að en förum aldrei að þrefa við hann um hvort eitthvað hafi verið svona eða hinsegin. Hann hefur alltaf rétt fyrir sér. Það er partur af leyndarmálinu.“

Dásamlegt eldgos

– Hvað finnst þér um þessa miklu ferðamannasprengju sem varð?

„Ég átti Hótel Borg í tíu ár. Ég keypti Hótel Borg 1992 og rak í áratug. Þá voru ferðamennirnir 150–200 þúsund á ári og þetta var stöðug barátta hjá öllum sem voru í ferðamannabransanum. Við vorum svo heppin að smám saman komst Ísland á kortið. Það var Björk og Vigdís forseti. Það var handboltaliðið, Eyjafjallajökull og svo framvegis. Allt í einu varð Ísland „hot stuff“ og fólk fór að koma. Það er gaman að verða vitni að þessu þegar þetta springur svona út. Þetta voru erfiðir tímar í ferðaiðnaði, árin 1995–1998, á sama tíma og ég var með hótelið. Við höfðum þetta af og voru tilbúnir þegar ferðamenn fóru loksins að koma.“

– Nú er nýtt eldgos sem margir segja Lottó-vinning númer tvö á eftir Eyjafjallajökli.

„Þetta er dásamlegt eldgos. Það getur ekki verið betur staðsett. Það er óveruleg hætta í gangi. Þetta er nálægt flugvellinum. Ég á von á því að þetta kveiki áhuga hjá ferðamönnum og sérstaklega Bandaríkjamönnum sem eru ágætis kúnnar. Þeir fíla þetta og ég ímynda mér að þetta gos geri Ísland áhugaverðara. Svo eru að opna baðlón út um allt og það er fullt að gerast hérna. Ísland er þróað þjóðfélag. Ég er búinn að ferðast til yfir 50 landa en á Íslandi er allt til alls. Hér tala allir ensku og eins og eigandi Hard Rock Café sagði þegar hann kom hingað, að allt væri í tíu mínútna fjarlægð. Það er allt svo aðgengilegt hérna.“

– Ertu bjartsýnn núna þegar Covid er að ljúka?

„Þegar kófinu lýkur er ég bjartsýnn. Ekki spurning.“

Búllan fengið góðar móttökur í Reykjanesbæ

Guðlaugur Jónsson sem rekur Hamborgarabúlluna í Reykjanesbæ hafði starfað fyrir Tómas í fjármálum í sex eða sjö ár þegar Covid kom og erlendu staðirnir lokuðu. Hann hefur reyndar þekkt Tómas í áratugi en móðir hans starfaði hjá Tómasi í Festi á áttunda áratug síðustu aldar. „Þá kom sú hugmynd hjá syni Tomma að opna stað í Reykjanesbæ og hér er ég, kominn á grillið,“ segir Guðlaugur í samtali við Víkurfréttir.

Guðlaugur hafði starfað við fjármál alla sína starfsævi hjá stórum sem smáum fyrirtækjum. Hann nefnir Icelandair og FL-Group og fleira. „Svo er maður kominn í það að steikja hamborgara, sem er svolítið ólíkt því sem ég lærði og hef starfað við síðustu 30 ár.“

– Og þú opnar á Covid-ári.

„Já. Ég hef fylgst vel með Búllunni í gegnum árin og þegar illa hefur árað í þjóðfélaginu þá hefur Búllan gengið ágætlega. Við vorum með Búllu-trukkinn hér í fyrra og móttökurnar voru gríðarlega góðar þannig að við voru óhræddir að opna og fólk hefur tekið rosalega vel á móti okkur.“

– Þessi staðsetning hér á gömlu bæjarmörkunum. Það var merkileg starfsemi hér í gamla daga.

„Já. Hérna voru síldarþrær og fiskibræðsla. Undir það síðasta var hér aðstaða til að þrífa bíla, þannig að það er mikil saga í þessu húsi og það hefur verið gerð mikil breyting á þessum hluta hússins frá því við tókum við því í júní í fyrra.“

– Hvernig hafa móttökurnar verið?

„Eins og við var búist, alveg frábærar. Fólkið man eftir Tómasi þegar hann var niðri á Hafnargötu og ég man líka eftir honum þaðan. Fólkið hér á Suðurnesjum hefur tekið mér einstaklega vel. Þrátt fyrir að það sé engin umferð ferðamanna þá er ekki hægt að kvarta.“

– Þannig að þú ert ekki á leið til London aftur til að sjá um fjármálin.

„Nei, ég verð bara hér.“